Innlent

Setja varnarliðinu úrslitakosti

Það er í alla staði óeðlilegt að einungis íslenskum starfsmönnum sé sagt upp hjá varnarliðinu, og þvert á yfirlýsingar yfirmanna liðsins. Ekki gengur að Íslendingum sé sagt upp og Bandaríkjamenn settir í staðinn. Þetta segir Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins. Greint var frá því í gær að ekki væri að sjá að niðurskurður hjá varnarstöðinni á Miðnesheiði hefði bitnað á óbreyttum, bandarískum starfsmönnum. Íslendingum hefur fækkað um nærri 150, en bandarískum að því er virðist hefur ekki fækkað, heldur fjölgað um einn. Hjálmar Árnason, sem situr í utanríkismálanefnd, gerir alvarlegar athugasemdir við þetta. Hann segir það ólíðandi ef Bandaríkjamenn ganga inn í þau störf sem Íslendingar hafi gengt áður. Hann segir að það myndi stangast á við það samkomulag sem verið hefur milli íslenskra stjórnvalda og varnarliðsins. Talað hefði verið um að niðurskurður kæmi jafnt niður á báðum aðilum. Hann sagði ástæðu til að mótmæla þessu kröftuglega. Hann segir ástandið óþolandi fyrir starfsmenn og tvöföld skilaboð Bandaríkjamanna séu slæm. Annars vegar sé sagður vilji fyrir því að varnarstöðin verði starfrækt áfram, en hins vegar séu tugir starfa skornir niður um hver mánaðamót. Hann telur komið að því að setja þurfi Bandaríkjastjórn úrslitakost svo hún taki ákvörðun um það hvað þeir ætla. Um það þurfi að fást skýr svör þannig að þeir haldi ekki starfsmönnum og samfélaginu á Suðurnesjum í nokkurs konar gíslingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×