Erlent

Hitnar í kolunum

Stjórnvöld í Kongó hafa stefnt 5.000 hermönnum til landamærahéraðanna í austurhluta landsins. Stjórnvöld segja þetta gert til að halda aftur af fyrrum uppreisnarmönnum sem eru farnir að láta á sér kræla á nýjan leik en í Rúanda óttast menn að liðsflutningarnir kunni að vera fyrirboði innrásar. "Við ógnum ekki öryggi nágranna okkar. Við treystum nágranna okkar og viljum að hann treysti okkur," sagði Jean-Pierre Ondekane, varnarmálaráðherra Kongó. "Kongó mun ekki ráðast á Rúanda," sagði Antoine Ghonda forsætisráðherra. Forystumenn í ríkjunum tveimur hafa skipst á ásökunum undanfarnar þrjár vikur eftir að uppreisnarmenn hertóku borg í austurhluta Kongó í byrjun mánaðarins og valdarán var reynt í höfuðborginni, Kinshasa. Rúanda var eitt þeirra ríkja sem sendu hersveitir inn í Kongó í stríði sem stóð yfir á árunum 1998 til 2002. Rúmar þrjár milljónir hið minnsta létu lífið af völdum þess. Því stríði lauk með því að mynduð var bráðabirgðastjórn stjórnvalda, uppreisnarmanna og stjórnarandstöðuflokka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×