Erlent

Síamstvíburar aðskildir

Fjögurra mánaða gömlum síamstvíburum frá Bandaríkjunum, sem aðskildir voru um helgina, heilsast vel. Þær eru enn á gjörgæslu, en opnuðu augun örlítið í dag, foreldrum og læknum til ánægju og léttis. Jade og Erin Buckles, frá Woodbridge í Virginiuríki, fæddust samvaxnar frá bringu að kviðarholi, og deildu sömu lifrinni. Á laugardag gerðu læknar sex klukkustunda langa aðgerð á systrunum, þar sem þær voru aðskildar. Aðgerðin gekk raunar betur en læknar höfðu þorað að vona, en þeir höfðu lokið verki sínum fjórum tímum fyrr en áætlað var. Síðan hafa systurnar tvær, sem eru aðeins fjögurra mánaða gamlar, verið á gjörgæslu. Náið er fylgst með líðan þeirra, og enn sem komið er bendir allt til þess að litlu stúlkurnar muni spjara sig vel. Jade á við nokkra öndunarerfiðleika að stríða, en læknar telja það ekki alvarlegt. Í gær hreyfðu þær sig örlítið og opnuðu augun, foreldrum sínum til mikillar gleði og læknum til léttis. Þeir telja allar líkur á að stúlkubörnin verði heilbrigðar, fullvaxta stúlkur, sem lifað geta eðlilegu lífi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×