Erlent

Fyrsta einkarekna geimfarið

Blað var brotið í sögu geimferða síðdegis, þegar ríflega sextugur karlmaður varð fyrsti geimfarinn sem heldur út í geim á vegum einkaaðila. Þeir sem standa að ævintýrinu segjast hafa sannað, að geimferðir fyrir einkaaðila séu raunhæfur möguleiki innan fárra ára. SpaceShipOne heitir draumaskipið sem hinn þekkti flughönnuður Burt Rutan hannaði og Paul Allen, Microsoftmilljónamæringur, fjármagnaði. Þetta far virðist ekki merkilegt, en skömmu eftir hádegi tók eins konar móðurskip á loft með geimskipið í haldi. Í ríflega fimmtán kílómetra hæð kviknaði á eldflaugamótorum geimskipsins og fyrsta einkaferðin í geiminn var hafin. Flugmaður SpaceShipOne beindi farinu upp á við og náði áður en yfir lauk um 100 kílómetra hæð, þar sem hann var orðinn þyngdarlaus. Á flugvélamáli var hann í um 330 þúsund feta hæð. Venjulegar farþegaþotur fljúga í á milli 30 og 35 þúsund fetum til samanburðar. Eldsneyti geimskipsins dugði í áttatíu sekúndur og eftir það hófst ferðin niður til jarðar. SpaceShipOne er meðal fara sem keppa um Ansari X verðlaunin, sem veitt verða liðinu sem tekst að senda þrjá einstaklinga út í geiminn og að endurtaka þann leik innan þriggja vikna. Verðlaunaféð er tíu milljónir dollara, kostnaðurinn við hönnun og smíði þessa fars var tuttugu milljónir. Takist þetta verkefni þó, má með sanni segja að öld geimferðamennsku sé runnin upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×