Erlent

Umhverfisþættir orsakir barnadauða

Í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar kemur fram að fimm umhverfisþættir valda um þriðjungi dauðsfalla meðal evrópskra barna. Þættirnir eru loftmengun innanhúss og utanhúss, menguð og hættuleg vötn, blý og áverkar. Skýrslan verður rædd af ráðherrum fimmtíu og tveggja þjóða í Búdapest frá 23. til 25. júní. Í skýrslunni segir að dánarorsök 34 prósenta evrópskra barna, á aldrinum frá fæðingu til nítján ára, megi skrifa á þessa fimm umhverfisþætti. Flest dauðsföllin megi rekja til óvæntra áverka, einkum banaslysa í umferðinni, ekki síst í Vestur-Evrópu. Mikinn meirihluta þeirra er hægt að rekja til ölvunar- og hraðaksturs á svæðum þar sem börn eru að leik eða á leið í skóla. Þá eru eldsvoðar, drukknanir og eitranir algeng dánarorsök meðal barnanna. Loftmengun utandyra drepur fleiri en þrettán þúsund börn undir fjögurra ára aldri á ári hverju og loftmengun innanhúss, einkum vegna eldsneytis í föstu formi, verður fleiri en fimmtíu þúsund börnum að aldurtila árlega. Þá búa fleiri en tvær milljónir Evrópubúa við skort á hreinu vatni, sem veldur banvænum niðurgangi hjá börnum. Samkvæmt skýrslunni er blý enn langhættulegasta efnið og veldur vanþroska og vansköpun meðal þúsunda evrópskra barna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×