Erlent

Sumarhitar erfiðir eldra fólki

Ítölsk stjórnvöld hafa gert neyðaráætlun til að vernda eldri borgara landsins fyrir hitabylgjum sumarsins. Þannig verður matvöruverslunum og kvikmyndahúsum fyrirskipað að kæla húsnæði sitt og bjóða upp á athvarf ef hitinn verður mikill. Heilsugæslum og sjúkrahúsum verður sendur listi með nöfnum heilsutæpra eldri borgara og bera ábyrgð á neyðarhjálp í sínu umdæmi. Í sumarhitunum 2003 hækkaði dánartíðni meðal eldri borgara mikið á Ítalíu, sem og í mörgum suðlægum Evrópulöndum. Þannig létust 7660 fleiri yfir sumarmánuðina í fyrra, en að meðaltali hin síðari ár. Stjórnvöld biðla sömuleiðis til ættingja, vina og nágranna að gæta velferðar gamla fólksins í mestu sumarhitunum. Með nýju neyðaráætluninni mega eldri borgarar eyða ómældum tíma í loftkældum verslunum og opinberum stöðum, ef rými sjúkrahúsanna þrýtur. Ítalir hafa margir lyft brúnum yfir tíðindunum þar sem almenningur yfirgefur þéttbýlið á heitasta tíma ársins og verslanir og kvikmyndahús loka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×