Erlent

Leiðtogi al-Kaída látinn

Yfirvöld í Sádi-Arabíu segja að leiðtogi al-Kaída samtakanna í landinu sé einn fjögurra manna sem voru drepnir í skotbardaga í nótt. Sérsveitir lögreglunnar í höfuðborginni Riyadh réðust til atlögu til að svara fyrir fjölda árása á erlenda borgara í landinu undanfarnar vikur. Fjórir menn féllu í skotbardaganum. Á vefsíðu herskárra múslima er fullyrt að leiðtogi al-Kaída í landinu, Abdulaziz al-Muqrin, sé enn á lífi, en yfirvöld hafa birt myndir af hinum látnu til að staðfesta að hann hafi fallið, ásamt þremur liðsmönnum samtakanna til viðbótar. al-Muqrin var efstur á lista stjórnvalda yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn. Hann er talinn hafa skipulagt árásir á erlenda borgara í Sádí Arabíu undanfarnar vikur en varla líður sá dagur í Sádí- Arabíu án þess að gerðar séu árásir á útlendinga, einkum Breta og Bandaríkjamenn. Nú síðast var bandarískur verkfræðingur hálshöggvinn og myndir af honum birtar í fjölmiðlum að lokinni aftöku. Lögregla handtók tólf menn til viðbótar, grunaða um aðild að morðum og hryðjuverkum á vegum al-Kaída samtakanna, svo sem árás á bandaríska herskipið Cole við Jemen árið 2000.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×