Erlent

Bandaríkjamenn verði um kyrrt

Colin Powell, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í útvarpsviðtali við Radio America á föstudag að hryðjuverkamenn hefðu unnið sigur ef bandarískir þegnar sem starfa í Sádi-Arabíu myndu yfirgefa landið í kjölfar hryðjuverkaárása á borð við aftöku Paul M. Johnson. Hann sagðist vonast til að landar sínir yrðu kyrrir í konungsdæminu, ekki síst þar sem þarlend stjórnvöld lofuðu aukinni vernd þeim til handa. Bandarísk stjórnvöld hafa áhyggjur af öryggi þeirra 35 þúsund Bandaríkjamanna sem lifa og starfa í Sádi-Arabíu, en einnig af stöðugleika í landinu sem er stærsti olíuframleiðandi heims. Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum eru Bandaríkjamenn búsettir á svæðinu varaðir við frekari árásum, einkum mögulegum hryðjuverkum gegn Bandaríkjamönnum við Rauðahafið, á Persaflóa-svæðinu, Arabíuskaga og í Norður-Afríku. Árásir á Bandaríkjamenn hafa aukist mjög að undanförnu í Sádi-Arabíu, en auk Johnsons var Kenneth Scroggs skotinn til bana í Ryiadh í síðustu viku, kaupsýslumaðurinn Nick Berg afhausaður nokkrum vikum fyrr og olíuverkamaður í Khobar drepinn í maí.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×