Erlent

Samið um stjórn Gaza

Palestínustjórn hefur hafið viðræður við herskáar hreyfingar Palestínumanna um það hvernig stjórn á Gaza-svæðinu skuli háttað þegar Ísraelar eru horfnir þaðan á brott. Ahmed Qureia, forsætisráðherra Palestínu, sagði fulltrúa hreyfinganna byrjaða á því að semja skjal sem kveður á um stjórnarhætti. Hugmyndin er sú að Palestínustjórn og samtök á borð við Hamas og Íslamskt Jihad stjórni Gaza-svæðinu í sameiningu. Samtökin tvö hafa hingað til neitað samstarfi við Palestínustjórn sem varð til í kjölfar friðarsamninga við Ísraela. Endanleg útkoma liggur þó ekki fyrir fyrr en rætt hefur verið við Egypta, sem hafa heitið því að aðstoða við að tryggja frið og öryggi á Gaza eftir brotthvarf Ísraela. Qureia ræddi í gær við Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, um hvernig málum skyldi háttað. Ísraelar hafa neitað að ræða beint við Palestínumenn og hafa Egyptar haft milligöngu. Egyptar vilja fyrirheit Ísraela um að hætta árásum á Gaza vel fyrir brotthvarf svo hægt sé að byggja upp öryggiskerfi þar. Þeir vilja einnig að Jasser Arafat samþykki uppstokkun á öryggissveitum en hann hefur dregið fæturna í þeim málum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×