Erlent

Mál aldarinnar í Belgíu

Hataðasti maður Belgíu, Marc Dutroux, var í dag dæmdur fyrir að ræna sex stúlkum og fyrir að myrða tvær þeira og vitorðsmann sinn. Dutroux viðurkenndi að hafa rænt stúlkunum og nauðgað þeim en sagðist ekki vera morðingi. Dutroux var handtekinn í ágúst árið 1996, þannig að mál hans hefur tekið hátt í átta ár. Í garði hans fundust líkamsleifar tveggja stúlkna og sýndu krufningarskýrslur að þær hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og barsmíðum. Lík karlkyns vinar Dutroux og tveggja átta ára stúlkna fundust í öðru húsi í eigu hans. Stúlkurnar höfðu dáið úr hungri. Þeim hafði líka verið nauðgað ítrekað. Dutroux rændi stúlkunum og hélt þeim nauðugum í klefa sem hann byggði í kjallaranum. Það var ekki fyrr en í þriðju heimsókn lögreglu að húsinu sem aðgangur að klefanum fannst. Þar voru tvær aðrar stúlkur, hin tólf ára gamla Sabine Dardenne og hin fjórtán ára Laetizia Delhez. Þær báru báðar vitni í réttarhöldunum gegn Dutroux. Þegar Dutroux bað Dardenne afsökunar á því að hafa nauðgað henni fyrir réttinum sagði hún honum að fara til helvítis. Fá mál ef nokkur hafa vakið jafn mikla reiði meðal Belga, landsmenn héldu nánast í heild sinni út á götur árið 1997 til að mótmæla slælegum vinnubrögðum lögreglu. Meðal annars vakti mikla reiði að ítekuðum tilkynningum um barnsgrát frá heimili Dutroux hafði ekki verið sinnt, og ekki bætti úr skák að Dutroux slapp úr haldi lögreglu um tíma. Árið 1989 var Dutroux dæmdur fyrir að nauðga fimm ungum stúlkum en hann sat einungis inni þrjú ár af fimmtán ára dómi. Eftir að dómur féll í dag er hins vegar líklegt að hann fái aldrei að njóta frelsins aftur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×