Sport

Ætlar að lita hárið grænt

Allt er vitlaust að verða í Lettlandi vegna þátttöku landsliðsins í EM í Portúgal. Þjóðin er orðin knattspyrnuóð og sjálfur forsætisráðherra landsins, Indulis Emsis, hefur heitið því að láta lita hárið á sér grænt takist Lettum að komast í átta liða úrslit! Talsmaður Emsis lét hafa eftir sér að Emsis væri nú orðinn mikill knattspyrnuaðdáandi: "Forsætisráðherrann mun fylgjast með leikjum liðsins af miklum áhuga". Hverju ætli Davið Oddsson myndi taka upp á ef Íslendingar kæmust einhvern tímann á stórmót í knattspyrnu? Það væri í það minnsta ekki leiðinlegt að sjá íðilfagra lokka hans litaða í rauðu, hvítu og bláu! Hingað til hefur lettneska þjóðin, sem telur 2.3 milljónir manna, tekið íshokkí fram yfir knattspyrnu en eftir að sæti á EM var tryggt er knattspyrna orðin þjóðaríþrótt númer eitt. Flestir Lettar eru þó mátulega bjartsýnir fyrir keppnina enda lentu Lettar í hrikalega erfiðum riðli með Hollendingum, Tékkum og Þjóðverjum. "Lettar munu líklega ekki komast áfram úr riðlinum en ég er mjög ánægður með að við, þessi litla þjóð, séum þátttakendur í keppninni," sagði hinn 28 ára gamli Valdis Krumins, einn af mörgum stoltum aðdáendum lettneska landsliðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×