Erlent

Kærið Saddam eða sleppið honum

Hernámsstjórnin í Írak verður að ákæra Saddam Hussein fyrir lok mánaðarins eða leysa hann úr haldi þegar Írakar fá aftur völdin í landi sínu. Þetta segir talsmaður Alþjóðanefndar Rauða krossins. Samkvæmt alþjóðalögum á að sleppa stríðsföngum úr haldi þegar átökum lýkur og viðkomandi land sætir ekki lengur hernámi, sagði Nada Doumani, talsmaður Alþjóðanefndar Rauða krossins. "Ef hann verður ekki ákærður segja lögin að við lok stríðsins, lok hernáms, eigi að sleppa honum úr haldi," sagði Doumani. Doumani segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort hernámi Íraks ljúki í raun og veru þegar Íraksstjórn fær völd í sínar hendur 30. þessa mánaðar. "Ástandið í landinu sýnir hvort svo verður," sagði Doumani. Á annað hundrað þúsund erlendir hermenn verða áfram í Írak eftir valdaskiptin og Bandaríkjaher segist munu halda 4.000-5.000 föngum í fangelsi sem þeir telja að stafi hætta af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×