Sport

Óvænt úrslit á fyrsta degi EM

Óvænt úrslit urðu í opnunarleik Evrópumótsins í fótbolta þegar Grikkir unnu sigur á gestgjöfum Portúgala. Heimamenn eru álitnir sigurstranglegir á mótinu, en strax í upphafi leiks sló þögn á flesta áhorfendur þegar Grikkir náðu forystunni. Þeir bættu svo við öðru marki í síðari hálfleik, en Portúgalar minnkuðu muninn undir lokin. Þeir sem ekki komust á leikvöllinn fylgdust með leiknum á sjónvarpsskjám undir berum himni. Fyrsta mark Grikkja kom einsog reiðarslag fyrir heimamenn og varð ýmsum heitt í hamsi, þannig að í brýnu sló á milli áhorfenda á götum úti. Annríki er í veðbönkum á Bretlandi. Englendingar leika fyrsta leik sinn í keppninni gegn Frökkum á morgun og er búist við að veðjað verði um úrslit fyrir vel á fjórða milljarð króna. Hægt er að veðja um nánast allt mögulegt, hverjir skora, hvenær, osfrv. Enski fáninn er vinsæll heima fyrir, og raunar ekki aðeins heima í Englandi, heldur var honum varpað á sjálfan Sigurbogann í París. Frökkum var ekki skemmt yfir þessu uppátæki, en geta kvittað fyrir á fótboltavellinum á morgun. Hundruð þúsunda fylla stræti, torg og auðvitað fótoltaleikvanga í Portúgal næstu þrjár vikurnar og er gífurleg öryggisgæsla vegna keppninnar. Um 2300 Englendingum var bannað að yfirgefa Bretland, þar sem þeir voru taldir hættulegar fótboltabullur. Í dag hefur tollgæslan stöðvað 25 Englendinga og 11 hafa verið handteknir í Portúgal vegna gruns um skipulögð ólæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×