Erlent

Spáðu þvert á úrslit

Útgönguspá sem bandarískt fyrirtæki gerði meðan kosningarnar í Venesúela voru enn í fullum gangi er nú í miðdepli deilna um hvort brögðum hafi verið beitt til að tryggja Hugo Chavez forseta áframhaldandi völd. Samkvæmt spánni vildu 59 prósent kjósenda binda enda á kjörtímabil forsetans en talning atkvæða sýndi að 59 prósent vildu hafa hann áfram. Erlendir kosningaeftirlitsmenn segjast ekki hafa orðið varir við neitt sem gefi til kynna að kosningasvindl hafi átt sér stað. Þrátt fyrir það halda stjórnarandstæðingar því fram fullum fetum og vísa til útgönguspárinnar. Bannað var að birta niðurstöður skoðanakannana eða útgönguspár fyrir lokun kjörstaða. Fjórum tímum áður en kjörstöðum lokaði sendi bandaríska fyrirtækið Penn, Schoen og Berland þó útgönguspá sína til fjölmiðla. Síðan hefur komið í ljós að fyrirtækið réði Sumate til að hafa umsjón með útgönguspánni. Sumate skipulagði undirskriftaherferð þar sem krafist var atkvæðagreiðslu um framtíð forsetans. Samtökin fá einnig styrki frá bandarískum samtökum sem njóta stuðnings Bandaríkjaþings og hefur Chavez notað það til stuðnings ásökunum sínum um að Bandaríkjastjórn reyni að koma honum frá völdum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×