Erlent

Ávirðingar ganga á víxl

Ávirðingar ganga á víxl á milli forsetaframbjóðendanna Kerrys og Bush í Bandaríkjunum. Kerry svarar nú fullum hálsi auglýsingum þar sem hann er sagður ljúga til um eigin hetjudáðir í Víetnamstríðinu, og segir Bush standa fyrir óhróðursherferð. Hópur fyrrverandi hermanna í Víetnam hefur undanfarið birt í sjónvarpi auglýsingar þar sem hetjudáðir Johns Kerrys, forsetaframbjóðanda, í Víetnam eru dregnar í efa. Auglýsingarnar þykja bæði rætnar og rangar, þar sem Kerry er stríðshetja sem hlotið hefur heiðursmerki hersins. Fjöldamargir Repúblíkanar hafa gagnrýnt auglýsinguna og sagt hana ósmekklega, en Bush forseti og menn hans hafa ekki gengið svo langt. Í gærkvöldi þótti Kerry tímabært að svara fyrir sig. Hann sagði auglýsingarnar kostaðar úr feitum sjóði repúblikana í Texas en sá peningur sé notaður til að styðja kosningabaráttu Bush. Kerry segir þá staðreynd að forsetinn hafi ekki fordæmt auglýsingarnar, segja allt sem segja þurfi, Bush vilji að þeir vinni skítverkin fyrir sig. Svör talsmanns Hvíta hússins voru í loðnara lagi. Þeir sögðu þó að forsetinn hefði þegar fordæmt auglýsingarnar og að Kerry vissi það vel. Þá mæltust þeir til að Kerry gangi til liðs við þá til að binda enda á öll óskráð nafnlaus framlög sem séu í gangi í þessari kosningabaráttu. Kerry kveðst óhræddur að ræða frammistöðu í hernum við Bush, sem hefur verið gagnrýndur fyrir að koma sér hjá herþjónustu með því að ganga í þjóðvarðliðið og jafnvel að beita áhrifum pabba síns til að sleppa við herþjónustu í Víetnam.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×