Erlent

Ruglað saman við hryðjuverkamann

Edward Kennedy er einn frægasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna en það dugar ekki til að koma í veg fyrir að honum sé ruglað saman við hryðjuverkamann og lendi þar af leiðandi í vandræðum með að ferðast með flugi innan Bandaríkjanna. Kennedy sagði frá því við þingyfirheyrslur að honum hefði fimm sinnum verið meinað að kaupa flugmiða eða fara um borð í flugvél. Fyrstu þrjú skiptin fékk hann engar skýringar en fékk loks að fljúga eftir að yfirmenn á flugvöllum hleyptu honum í gegn. Þegar aðstoðarfólk hans leitaði skýringa hjá flugöryggisstjórn kom í ljós að á lista yfir grunaða hryðjuverkamenn væri maður sem notar dulnefni sem svipar til nafns öldungadeildarþingmannsins. Þrátt fyrir að flugöryggisstjórn lofaði að kippa málum í lag hefur hann tvívegis verið stöðvaður síðan þá. "Ef þeir lenda í þessum vandræðum með öldungadeildarþingmann, hvernig í ósköpunum á þá venjulegur Bandaríkjamaður sem lendir í þessu að fá sanngjarna meðferð og sleppa við að brotið sé á rétti hans," spurði hann einn yfirmanna heimavarnarmála. Sá benti fólki á að hafa samband við umboðsmann flugöryggisstjórnarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×