Erlent

Hersveitir sækja að al-Sadr

Bandarískar og íraskar hersveitir hafa umkringt grafreit í borginni Najaf þar sem stuðningsmenn sjíta-klerksins Muqtada al-Sadr halda til. Varnarmálaráðherra Íraks hefur gefið skæruliðum við grafreitinn síðasta tækifærið til að gefast upp, ella verði þeir þurrkaðir út af herafla Bandaríkjanna og Írak. Þeir fá nokkurra stunda frest til að gefast upp. Margir skæruliðar hafa flúið grafreitinn síðustu daga eftir því sem hersveitir hafa þokað sér nær. Hersveitir eru nú í 200 metra fjarlægð frá reitnum og segja bandarískir hermenn stöðuga skothríð þaðan. Stjórnvöld í Írak hafa sagt að ekki komi annað til greina en að íraski herinn leiði árás á grafreitinn. Nærvera bandarískra hermanna við helgan stað myndi reita sjíta-múslima til reiða og breiða uppreisnina út. Íraskir hermenn munu nota hátalara til að láta skæruliða vita hvenær þeir ráðast innn til að gefa þeim kost á að gefast upp. Al- Sadr hefur verið heitið sakaruppgjöf gefist hann friðsamlega upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×