Erlent

Ekkert afsakar framhjáhaldið

"Ég held ég hafi gert þetta af þeirri verstu ástæðu sem til er - vegna þess að ég gat það," sagði Bill Clinton í viðtali við CBS sjónvarpsstöðina um framhjáhald sitt með Monicu Lewinsky sem á tíma ógnaði stöðu hans sem forseta. "Ég held að það sé nokkurn veginn sú versta siðferðislega ástæða sem nokkur maður getur haft fyrir að gera eitthvað," sagði forsetinn fyrrverandi. Viðtalið er hluti af kynningarherferð fyrir sjálfsævisögu Clintons sem verður gefin út í lok mánaðarins. Í viðtalinu sagðist Clinton hafa velt framhjáhaldinu talsvert fyrir sér og skoðað hvaða skýringar kynnu að eiga við. Sama hvernig hann færi yfir það væri engin afsökun fyrir því sem hann gerði. Clinton sagði að fjölskylda sín hefði þurft á ráðgjöf að halda til að komast í gegnum áfallið sem framhjáhaldið var. Framhjáhaldið hafi ógnað samskiptum sínum við dóttur sína. Þá hefði Hillary, kona hans, þurft tíma með honum til að ákveða hvort hún vildi vera gift honum áfram. "Við tókum okkur einn dag í viku, í hverri viku í rúmt ár [í þetta] og ég fékk ráðgjöf," sagði Clinton. "Við gerðum þetta saman. Við gerðum þetta sitt í hvoru lagi. Við gerðum þetta sem fjölskylda." Repúblikanar, og nokkrir demókratar, börðust fyrir því að svipta Clinton embætti vegna framhjáhaldsins og þess að hann neitaði því opinberlega að það hefði átt sér stað. Clinton segist stoltur af því að hafa barist gegn þeim og haft sigur. "Ég hætti aldrei. Ég neitaði að segja af mér, ég snerist til varna og stóð þetta af mér." Clinton segir efnahagsstefnuna vera helst afrek síns sem forseta. 22 milljónir starfa hafi skapast, fleiri hafi eignast hús en nokkru sinni áður og vextir lækkað. "Fólk gat gert meira en nokkru sinni fyrr."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×