Erlent

Ný öryggislög í Írak

Ríkisstjórn Íraks birti í morgun ný öryggislög til að berjast gegn herskáum uppreisnarmönnum í landinu. Á sama tíma og ráðherra kynnti áætlunina héldu bardagar áfram á götum Bagdad. Róstursamt hefur verið í höfuðborg Íraks síðustu sólarhringa og telur bráðabirgðastjórnin í Bagdad mikilvægt að bregðast við með strangari öryggisreglum. Að minnsta kosti þrír írakskir hermenn féllu í bardaga á Abu al-Muadham brúnni og tveir lögreglumenn særðust í árás sem gerð var á lögreglustöð í borginni. Skæruliðar skammt vestur af Bagdad drápu fjóra bandaríska hermenn í gærkvöld þar sem þeir voru við öryggiseftirlit. 870 bandarískir hermenn hafa fallið síðan stríðið í Írak hófst fyrir ári, samkvæmt tölum bandaríska varnarmálaráðuneytisins, og er talið að nærri 13 þúsund óbreyttir Íraka hafi týnt lífi á saman tíma. Öflugar sprengingar heyrðust í Bagdad í allan morgun og virðist sem sprengjum hafi verið varpað á græna svæðið sem umlykur höfuðstöðvar Bandaríkjahers í borginni. Sömu sögu var að segja við skrifstofur stjórnmálaflokks nýs forsætisráðherra Íraks, Iyads Allawis. Á sama tíma kynnti dómsmálaráðherra Íraka ný öryggislög stjórnarinnar til að bregðast við endalausum skærum í landinu. Samkvæmt öryggislögunum fá stjórnvöld auknar heimildir til að bregðast við með ýmsum hætti, s.s. útgöngubanni og húsleitum og þá geta öryggissveitir hneppt grunaða vígamenn í varðhald í allt að 60 daga án dómsúrskurðar. Enda þótt Írakar hafi formlega tekið við völdum í landinu mun Bandaríkjaher áfram aðstoða Íraka í átökum gegn uppreisnarmönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×