Innlent

Vinna allta að átján tíma á dag

Nýbúar í Hafnarfirði nýta sér ekki þjónustu Alþjóðahúss ef marka má úttekt á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar sem nú liggur fyrir. Í fyrra voru 566 einstaklingar með erlent ríkisfang búsettir í bænum, þar af flestir frá Póllandi. Þá er áætlað að svipaður fjöldi hafi þegar fengið íslenskan ríkisborgararétt og því megi gera ráð fyrir að heildarfjöldi íbúa af erlendum uppruna í Hafnarfirði sé um eitt þúsund. Í viðtölum sem tekin voru við nýbúa kemur fram að fáir þeirra vita af starfsemi Alþjóðahúss, en þar er rekin lögfræði- og félagsráðgjöf, og enn færri nýta sér þjónustuna þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbær greiði Alþjóðahúsi fimm milljónir á ári fyrir þjónustu við nýbúa í bænum. Sumir sem rætt var við sögðu að þeir hefðu ekki tíma til að sækja þjónustuna til Reykjavíkur vegna langs vinnutíma. Sérstaklega sögðust Pólverjar vinna mikið og margir þeirra senda peninga heim til Póllands. Einn viðmælendanna sagði þetta fólk vera mjög þreytt og lifa eins ódýrt og það geti til þess að geta sent sem mesta peninga til heimalandsins. Dæmi séu um að fólk vinni átján klukkustundir á dag. Fólkið vinni mikið á meðan það er á Íslandi og taki sér svo frí í nokkra mánuði til þess að fara til Póllands. Taldi viðmælandinn mikilvægt að stjórnvöld reyndu að rjúfa þessa einangrun fólks og íslenskukennsla væri best til þess fallin. Filippseyingar sem talað var við sögðu að þeim fyndust Íslendingar taka þeim illa ef þeir töluðu ensku. Þeir tóku því undir mikilvægi íslenskukennslu. Hins vegar fannst þeim dýrt að taka íslenskunámskeið og erfitt að stunda nám samhliða vinnu. Enginn þeirra hafði sótt íslenskunámskeið hjá Námsflokkum Hafnarfjarðar, þar sem þeim fannst námskeiðin dýr og skila litlum árangri. Fram komu hugmyndir um að nýbúum yrði boðið á íslenskunámskeið þegar þeir kæmu til landsins, til dæmis í hálft ár. Í úttektinni segir að á Íslandi þurfi útlendingar að taka 150 stundir í íslensku til þess að geta fengið búsetuleyfi og ríkið niðurgreiði námið að einhverju leyti. Í nágrannaríkjum sé fjöldi kennslustunda talsvert fleiri og hið opinbera taki þar meiri þátt í kostnaði við námið. Þannig fái útlendingar í Svíþjóð ókeypis kennslu í allt að 525 klukkustundir og útlendingar í Noregi fái 850 klukkustundir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×