Erlent

Vítahringur ofbeldis heldur áfram

Vítahringur ofbeldis og hefndarverka hélt áfram í Miðausturlöndum í nótt þegar ísraelski herinn gerði árás á Gasa-borg í hefndarskyni fyrir hryðjuverk fyrir viku.  Alls féllu þrettán í árásinni og tuttugu og fimm særðust. Skotmarkið var æfingasvæði skæruliða í austurhluta Gasa-borgar, þar sem Hamas-samtökin hafa löngum átt sér mikil fylgi. Þeir sem féllu voru að sögn Ísraelsmanna hryðjuverkamenn úr röðum Hamas. Avi Pazner, talsmaður ísraelsku ríkisstjórnarinnar, segir þetta hafa verið hreina hernaðaraðgerð gegn hryðjuverkamönnum sem bera ábyrgð á mörgum hryðjuverkaárásum í Ísrael. „Við munum miskunnarlaust halda áfram stríði okkar gegn hryðjuverkastarfsemi. Þetta var aðeins dæmi um það sem við getum gert,“ segir Pazner.  Um þrjátíu þúsund manns hópuðust út á götur Gasa-borgar síðdegis til að fylgja mönnunum til grafar og hóta hefndum. Talsmaður Hamas segir blóðuga baráttu samtakanna halda áfram og að henni muni aldrei ljúka á meðan hernámið varir og glæpir gegn palestínsku þjóðinni viðgangast. „Við segjum við hernámslið síonista: Þið finnið hvorki skjól né öryggi á landi okkar fyrr en palestínsku börnin okkar geta lifað við öryggi.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×