Erlent

Barroso tilnefndur forseti

Jose Manuel Durao Barroso, forsætisráðherra Portúgals, hefur verið beðinn um að taka að sér starf forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, kveðst öruggur um að samkomulag náist um Barosso á leiðtogafundi Sambandsins á þriðjudag. Illa hefur gengið að komast að samkomulagi um næsta framkvæmdastjóra, þrátt fyrir að fjöldamargir hafi verið nefndir til sögunnar. Á síðasta leiðtogafundi stóð til að finna eftirmann Romanos Prodis, en deilur og þvermóðska Þjóðverja og Frakka annars vegar, og Breta og Ítala hins vegar, kom í veg fyrir að niðurstaða fengist. Nú er hins vegar talið að allir geti sætt sig við Barosso, þó að hann hafi ekki vakið óskaplega hrifningu neinstaðar. Hann er reyndar óþekkt stærð og hefur tilnefning hans vakið nokkra undrun. En fréttaskýrendur segja það einmitt helsta kostinn við Barosso, hversu lítt þekktur hann sé. Fyrir vikið sé hann fremur óumdeildur. Hann var áður utanríkisráðherra Portúgals, er reyndur stjórnmálamaður og talar þó nokkur evrópumál. Hann uppfyllir því þau formlegu skilyrði sem sett eru, og í ljósi þess að staða framkvæmdastjórans verður ekki jafn mikilvæg þungavigtarstaða eftir breytingar innan Evrópusambandsins er talið óhætt að tefja á frambjóðanda eins og Jose Manuel Durao Barroso.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×