Erlent

Fyrirskipa áframhaldandi vinnslu

Norsk stjórnvöld hafa skipað starfsmönnum olíuborpalla sem hafa verið í verkfalli að mæta aftur til vinnu og bannað vinnuveitendum að setja verkbann á þá starfsmenn sem voru ekki í verkfalli. Kjaradeila á olíuborpöllum var komin í það mikinn hnút að útlit var fyrir að öll framleiðsla myndi stöðvast á næstu dögum þegar vinnuveitendur sendu þá starfsmenn heim sem ekki væru í verkfalli. Stjórnvöld ákváðu því að skerast í leikinn til að tryggja áframhaldandi framleiðslu. Dagfinn Höybraaten, atvinnu- og félagsmálaráðherra, sagði að stigvaxandi deilur launþega og vinnuveitenda hefði getað stöðvað nær alla vinnslu og haft veruleg áhrif á norskt efnahagslíf. Hefðu stjórnvöld ekki brugðist við hefði olíuframleiðsla Noregs minnkað um fjórðung á mánudag vegna verkfalla. Hefðu vinnuveitendur sett verkfall á starfsmenn hefði framleiðslan stöðvast alveg. Deilan fer nú fyrir kjaradóm sem kemur til með að úrskurða um launa- og eftirlaunamál starfsmanna. Þetta er í fjórða skipti sem launadeilu á olíuborpöllum lýkur með tilskipun stjórnvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×