Innlent

Hallgrímur Helga borgarlistamaður

Hallgrímur Helgason, myndlistarmaður og rithöfundur var í dag valinn borgarlistamaður af menningarmálanefnd Reykjavíkur. Útnefning borgarlistamanns er heiðursviðurkenning til handa reykvískum listamanni sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi. Hallgrímur nam við Myndlista- og Handíðaskólann veturinn 1979-80 og Listaakademíuna í München 1981-82. Frá árinu 1982 hefur hann starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hallgrímur hefur haldið yfir 20 einkasýningar hér heima, í Boston, New York, París og Malmö og verk hans hafa verið sýnd á yfir 30 samsýningum í ýmsum löndum. Fyrsta skáldsaga hans kom út árið 1990 og hann hefur síðan gefið út tvær aðrar skáldsögur og eitt kvæðasafn. Þekktasta bók Hallgríms er "101 Reykjavík" (1996) en kvikmynd byggð á bókinni var frumsýnd á Íslandi 1. júní 2000 og hefur síðan verið sýnd á mörgum kvikmyndahátíðum erlendis. Hallgrímur hefur einnig skrifað nokkur verk fyrir leikhús og kom fram sem grínstæðingur í Kaffileikhúsinu haustið 1995. Sama ár hóf hann að vinna með teiknimyndapersónuna Grim sem er einskonar hliðarsjálf listamannsins. Aðrir sem hlotið hafa viðurkenninguna borgarlistamaður eru eftirtaldir:1995 Guðmunda Andrésdóttir, 1996 Jón Ásgeirsson, 1997 Hörður Ágústsson, 1998 Thor Vilhjálmsson, 1999 Jórunn Viðar, 2000 Björk, 2001 Kristján Davíðsson, 2002 Hörður Áskelsson, 2003 Ingibjörg Haraldsdóttir. Menningarmálanefnd Reykjavíkur skipa: Stefán Jón Hafstein formaður (R), Ármann Jakobsson (R), Ásrún Kristjánsdóttir (R), Gísli Marteinn Baldursson (D) og Rúnar Freyr Gíslason(D).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×