Erlent

Baráttan gegn eyðni gengur of hægt

Baráttan gegn alnæmi gengur of hægt, ekki síst þar sem ráðamenn um víða veröld hafa ekki horfst í augu við vandann og tekið á honum. Þetta sagði Kofi Annan á ráðstefnu um vána í dag. Fjórtán þúsund smitast af HIV-veirunni daglega og fæstir fá nokkra aðhlynningu. Frá því að alnæmisveiran var fyrst greind á níunda áratug síðustu aldar hafa um 20 milljónir manna látist af völdum alnæmis. Sjúkdómur sem var lengi feimnismál og talinn bundinn við homma er nú orðinn að faraldri í þróunarlöndum, þar sem óttast er að hlutfall smitaðra sé í sumum borgum og hverfum allt að 90 prósent. Nærri helmingur þeirra sem greinast með smit nú eru á aldrinum 15 til 24 ára, meirihlutinn gagnkynhneigður og stór hluti konur. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, brýndi þjóðarleiðtoga til að sýna forystu. Hann sagði einnig peninga þörf til að fjármagna þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og þróun lyfja. Fyrir utan ráðstefnuhöllina í Bangkok mótmæltu 1500 manns. 25 milljónir HIV-jákvæðra eru í Afríku, og 7,6 milljónir í Asíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×