Erlent

Fleiri fellibylir á Flórída?

Ástæða er til að óttast að fleiri öflugir fellibylir muni ganga yfir Flórídaskaga á næstu vikum og mánuðum. Björgunarlið leitar nú fórnarlamba fellibylsins Charleys sem skildi eftir sig gríðarlegar skemmdir. Nú er ljóst að þrettán fórust þegar fellibylurinn Charley gekk yfir Flórídaskaga í gær. Veðurofsinn ber þó ekki ábyrgð á dauða allra; sumir lentu í umferðarslysum og álag bar aðra ofurliði. Björgunarlið fer nú um þau svæði sem verst urðu úti og leita fólks en óttast er að tala þeirra sem fórust muni hækka. Ekki er vitað hversu margir yfirgáfu heimili sín og því er vonlaust fyrir yfirvöld að átta sig á því hvar fólk er að finna og hvar ekki. Einkum er ástandið slæmt í um þrjátíu húsbýlahverfum þar sem rústir einar standa eftir. Ástandið á Flórída hefur ekki verið verra frá því að fellibylurinn Andrew gekk yfir árið 1992 og skemmdirnar eru taldar álíka miklar á köflum. Tvær milljónir manna eru án rafmagns og hundruð þúsunda vatnlaus. Neyðarbirgðir og aðstoð standa til boða og Bush forseti er væntanlegur á svæðið í dag en Jeb bróðir hans er einmitt ríkisstjóri á Flórída. Dregið hefur úr styrk Charleys eftir að hann gekk á ný út á haf en hann skall í nótt á Suður- og Norður-Karólínu og veldur sem stendur nokkrum usla, alla leið til New York. Vindhraðinn er þó hvergi nærri jafn mikill og á Flórída. Íbúar þar verða hins vegar að búa sig undir meira óveður því nokkur fjöldi hitabeltisstorma er á sömu leið og Charley fór. Hitabeltisstormurinn Earl stefnir í sömu átt og er talið líklegt að hann muni dýpka og verða fellibylur áður en yfir lýkur. Bandaríska veðurstofan gerir reyndar ráð fyrir því að tólf til fimmtán öflugir hitabeltisstormar muni ríða yfir svæðið á næstu vikum og mánuðum, að sex til átta þeirra breytist í fellibyli og að tveir til fjórir þeirra verði mjög sterkir og öflugir fellibylir á borð við Charley.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×