Erlent

Harðir bardagar í Rússlandi

Harðir og skyndilegir bardagar kostuðu 46 hið minnsta lífið í rússneska héraðinu Ingúsétíu í morgun. Téténskum aðskilnaðarsinnum er kennt um átökin, en þeir réðust á mörg skotmörk í héraðinu. Svo virðist sem um 200 aðskilnaðarsinnar frá Téténíu hafi ráðist á nokkur skotmörk í Ingúsétíu, einkum í höfuðborginni Nazran. Á meðal fallinna voru 28 óbreyttir borgarar og 18 lögreglumenn. Tveir uppreisnarmenn féllu einnig. Sögum fer af fjölda fallinna til viðbótar. Meðal skotmarka voru innanríkisráðuneytið, sem aðskilnaðarsinnarnir lögðu undir sig, og höfuðstöðvar lögreglunnar. Skotbardagar stóðu í alla nótt uns tókst að hrekja aðskilnaðarsinnana á brott. Þetta er umfangsmesta árás á Ingúsétíu í hart nær áratug, eða síðan að vopnuð átök hófust í nágrannaríkinu Téténíu. Atburðir næturinnar eru vond tíðindi fyrir Vladímír Pútín, forseta Rússlands, sem hefur fullyrt undanfarið að baráttan við téténska uppreisnarsinna gangi nú vel, og að málin þróist Rússlandi í hag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×