Erlent

66 látnir og 200 særðir

Að minnsta kosti 66 manns eru látnir og yfir 200 eru særðir í árásum sem átt hafa sér stað í nokkrum borgum Íraks í morgun. Af þeim sem hafa fallið dóu í það minnsta fjörutíu og fjórir í röð bílsprengna sem sprungu í borginni Mósúl. Fjöldi fólks fórst jafnframt í árásum sem gerðar voru samtímis á lögreglustöðvar í borgunum Ramadí og Bakúba, auk þess sem óljósar fregnir berast af hörðum bardögum í Fallujah. Sjö féllu í sprengjuárásum á tvær lögreglustöðvar í Ramadí og í kjölfarið lenti skæruliðum saman við bandarískar hersveitir. Í Bakúba réðust skæruliðar einnig á lögreglustöð og vörpuðu á hana sprengjum með þeim afleiðingum að ellefu liggja í valnum. Svo virðist sem svartklæddir uppreisnarmenn hafi hertekið hluta bæjarins og berjist þar við írakskar lögreglusveitir og bandarískar hersveitir.  Í Fallujah brutust bardagar út þegar bandarískt herlið ætlaði sér inn í iðnaðarhverfi borgarinnar. Þaðan heyrast sprengingar og samkvæmt fréttaskeytum hafa orustuvélar og herþyrlur látið sprengjur falla á skotmörk í borginni. Herþyrla af gerðinni Cobra mun hafa verið skotin niður þar fyrir stundu. Áhöfnina sakaði ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×