Erlent

Vilja hjálp og bætt samskipti

Bandaríkjamenn hétu því að leggja fram nýja tillögu að lausn deilna um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu í viðræðum sex þjóða um málefnið sem hófst í Peking í gær. Norður-Kóreumenn buðust til þess að afsala sér kjarnorkuvopnum í skiptum fyrir aðstoð og að bundinn verði endir á fjandsamlegt andrúmsloft Bandaríkjamanna í garð stjórnvalda. James Kelly, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og fulltrúi þjóðarinnar í viðræðunum, sagði Bandaríkin tilbúin í alvarlegar viðræður við Norður-Kóreu og að málamiðlunartillaga væri í undirbúningi. Að sögn bandarískra embættismanna verður Norður-Kóreumönnum boðin aðstoð láti þeir af kjarnorkuáætlun sinni auk þess sem sagt er að í tillögunni sé einnig ábyrgst að ekki verði ráðist inn í landið. Fulltrúi Norður-Kóreumanna sagði í gær viðleitni stjórnvalda til þess að búa til kjarnavopn til komna til þess að verja landið fyrir ógninni af hugsanlegri kjarnorkuárás Bandaríkjamanna. "Ef Bandaríkjamenn binda endi á fjandsamlegt andrúmsloft í okkar garð erum við tilbúin að láta af öllum áætlunum um smíði kjarnavopna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×