Erlent

Lík stúlknanna fundust

Lík stúlknanna tveggja sem franski fjöldamorðinginn Michel Fourniret játaði að hafa grafið árið 1989 fundust í dag. Fourniret benti lögreglu sjálfur á staðinn þar sem líkin fundust. Hinn 62 ára gamli skógræktarmaður hefur eins og fram hefur komið viðurkennt að hafa myrt níu stúlkur og konur árunum 1987-2001. Að sögn lögreglu leikur ennfremur grunur á að hinn franski Dutroux, eins og  er kallaður, hafi framið fleiri morð sem enn hafa ekki verið sönnuð á hann. Í gær fór hann með lögreglu að gömlu sveitasetri sem eitt sinn var í hans eigu til að hjálpa til við að finna lík tveggja fórnarlamba sinna. Í dag fundust síðan líkin, þó ekki hafi enn verið endanlega staðfest að þau séu af þeim Elisabethu Brichet og Jeanne-Marie Desramault, sem voru 12 og 22 ára þegar Fourniret gróf þær árið 1989. Um eitthundrað réttarmeinafræðingar og lögreglumenn hafa leitað að líkum stúlknanna síðan í gær. Mál Fournirets teygir anga sína víða því í dag settu lögregluyfirvöld í Danmörku sig í samband við lögreglu í Belgíu þar sem grunur leikur á að Fourniret sé viðriðinn kynferðisafbrotamál í Danmörku sem verið hefur í rannsókn síðan 1999. Á meðfylgjandi mynd má sjá sveitasetrið þar sem Fourniret bjó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×