Sport

Fylkismenn sluppu fyrir horn

Fylkismenn eru áfram á toppnum í Landsbankadeild karla eftir leiki gærkvöldsins en Árbæjarliðið gerði þá jafntefli við Fram í Laugardalnum. Það var Ólafur Stígsson sem kom Fylkismönnum yfir í lok fyrri hálfleiks sem var mjög dapur en í seinni hálfleik lifnaði yfir leiknum og þá aðallega yfir Frömurum sem voru óheppnir að tryggja sér ekki öll þrjú stigin. Það var aðeins Andri Fannar Ottósson, sem kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik, sem fann leiðina í markið en hann var fyrsti maðurinn til að skora framhjá Bjarna Þórði Halldórssyni í Fylkismarkinu í 332 mínútur. Fylkismenn geta þakkað fyrir að fara með stig úr Laugardalnum í gær því hinn frábæri markvörður þeirra Bjarni varði tvisvar úr algjörum dauðafærum á lokamínútunum. Framarar voru arfaslakir í fyrri hálfleik rétt eins og Fylkismenn en í þeim seinni sýndu þeir meira af þeirri góðu spilamennsku sem þeir hófu Íslandsmótið á gegn Víkingum á dögunum. Framarinn Eggert Stefánsson var svekktur með að hafa ekki fengið þrjú stig. „Við bættum okkur mikið í seinni hálfleik og gerðum það sem við áttum að gera frá fyrstu mínútu; að spila okkar bolta. Nú verðum við bara að byggja okkur upp út frá þessum síðari hálfleik og fara að spila heilan leik á sama hátt.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×