Fleiri fréttir

Síminn stofnar Mílu um fjarskiptanetið

Síminn hefur stofnað fyrirtæki um rekstur, uppbyggingu og viðhald fjarskiptanets síns. Nýja fyrirtækið heitir Míla. Þetta var samþykkt á aðalfundi Símans sem haldinn var í lok síðustu viku.

Kaupþing flaggar í Storebrand

Kaupþing jók við hlut sinn í norska trygginga- og fjármálafyrirtækinu Storebrand í morgun og er nú komið með 10,4 prósent hlutabréfa í félaginu. Bankinn fékk heimild hjá norskum yfirvöldum í morgun til að kaupa allt að 20 prósenta hlut í Storebrand.

Kaupþing spáir 5,3 prósenta verðbólgu

Greiningardeild Kaupþings spáir því að vísitala neysluverð hækki um 0,6 prósent í apríl. Gangi það eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 5,3 prósent í mánuðinum. Til samanburðar mældist 5,9 prósenta verðbólga í þessum mánuði. Greiningardeildin spáir því að verðbólga lækki fram á sumar en telur óvíst að 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð.

Yahoo komið með leitarvél fyrir farsíma

Bandaríska netfyrirtækið Yahoo kynnti í gær leitarvél fyrir farsíma með vafra. Með leitarvélinni, sem heitir OneSearch, þykir Yahoo hafa náð nokkru forskoti á netleitarfyrirtækið Google sem hefur í bígerð að búa til svipaðan hugbúnað fyrir farsíma.

Kaupþing fær að auka hlut sinn í Storebrand

Kaupþing fékk í morgun heimild norska yfirvalda til að fara með 20 prósenta hlut í norska tryggingafélaginu Storebrand. Bankinn á fyrir tæpan tíu prósenta hlut en norsk lög banna erlendum aðilum að eiga meira en það í norsku fjármála- og tryggingafélagi án sérstakrar heimildar. Gengi bréfa í Storebrand hækkaði um 7,5 prósent í kjölfar þess að Kaupþingi var veitt heimild til að auka við hlut sinn.

GPS-tæki til hjálpar blindum

Ítalskt tæknifyrirtæki þróar nú GPS-búnað sem á að auðvelda blindum að komast leiðar sinnar. Nú er verið að prófa búnaðinn hjá 30 notendum úr Blindrafélagi Ítalíu en áætlað er að búnaðurinn verði kominn í almenna sölu í haust.

Engeyin ekki seld úr landi

HB Grandi hefur fallið frá því að selja Engey RE-1, stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans, til Atlantic Pelagic og gera það út við strendur Afríku. Í stað þess hefur verið samið við Samherja hf um sölu á skipinu. Söluverð nemur 31,4 milljónum evra, jafnvirði rúmra 2,8 milljarða króna. Bókfærður hagnaður af sölunni er í kringum 700 milljónir króna.

Óbreyttir stýrivextir í Japan

Japanski seðlabankinn ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5 prósentustigum. Bankinn hækkaði vextina um 25 punkta í síðasta mánuði en það var önnur stýrivaxtahækkunin í Japan í sex ár.

Smáralind tapaði 654 milljónum króna

Smáralind ehf tapaði 654 milljónum krónum í fyrra samanborið við 101 milljóna króna tap árið 2005. Gestum Smáralindar fjölgaði um 5,2 prósent á milli ára í fyrra og heildarvelta jókst um 11,7 prósent. Fyrirhugað er að hefja byggingu á 15 hæða skrifstofu- og verslunarhúsi á þessu ári.

Tveir líklega fallnir úr kapphlaupinu um Merck

Þýska lyfjafyrirtækið Stada og bandaríska lyfjafyrirtækið Barr verða að öllum líkindum ekki með í kapphlaupinu um yfirtöku á samheitalyfjahluta Merck. Nokkur fyrirtæki eru enn í kauphugleiðingum, þar á meðal Actavis.

Lyf AstraZeneca stóðst ekki prófanir

Gengi hlutabréfa í evrópska lyfjaframleiðandanum AstraZeneca féll um rétt rúm tvö prósent á markaði í dag eftir að eitt af hjartalyfjum fyrirtækisins stóðst ekki prófanir. Lyfið, sem á að nýtast fólki með kransæðasjúkdóma, var þróað af bandaríska fyrirtækinu Atherogenics. Gengi bréfa í bandaríska fyrirtækinu féll um heil 60 prósent í kjölfar fréttanna.

Sala á VGI frá Icelandic Group gengin til baka

Sala Icelandic Group á öllu hlutafé í VGI ehf, sem framleiðir umbúðir og rekstrarvörur til matvælafyrirtækja, hefur gengið til baka. Í tilkynningu frá félaginu segir, að kaupum hafi verið rift í kjölfar áreiðanleikakönnunar.

Olíuverð undir 57 dölum á tunnu

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði nokkuð á helstu fjármálamörkuðum í dag og fór undir 57 bandaríkjadali á tunnu. Ákvörðun Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) að halda framleiðslukvótum aðildarríkjanna óbreyttum á hlut að lækkun á hráolíuverðinu. Greinendur segja enn óvissu um ástand efnahagsmála í Bandaríkjunum.

Sérstakt vefsvæði um málefni EES-samnings

Félagsmálaráðuneytið hefur opnað sérstakt vefsvæði, „Brussel-setrið", sem tileinkað er þeim málaflokkum EES-samningsins er verða félagsmálaráðuneytið. Það var Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sem opnaði vefsvæðið formlega fyrir skemmstu.

Sími fyrir fullorðna

Símafyrirtækið Emporia hefur sent frá sér nýja tegund farsíma, sem er sérstaklega ætlaður eldri borgurum. Síminn er sérstakur fyrir það að stafir á lyklaborði og skjá eru miklu stærri en í öðrum farsímum, og því auðveldari aflestrar. Hægt er að fá tvo skjáliti, svart og appelsínurautt, en á þeim skera stafirnir sig best úr. Þá eru aukaprógrömm afskaplega fá, síminn er eiginlega bara til þess að tala í.

A380 til Bandaríkjanna

Nýja Airbus A380 risaþotan lendir í fyrsta sinn í Bandaríkjunum í dag. Þetta er jómfrúrflug þotunnar yfir Atlantshafið. Flugið er á vegum þýska flugfélagsins Lufthansa, með um 500 farþega frá Frankfurt til New York og þaðan áfram til Chicago. Búist er við því að fyrstu vélarnir af þessari gerð verði afhentar flugfélögum í október, tveimur árum á eftir áætlunum.

Sigurður og Hreiðar fá kaupréttarsamninga

Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra og stjórnarformanni Kaupþings hefur verið úthlutaður kaupréttur á tveimur og hálfri milljón hluta með framvirkum samningum. Þeir mega kaupa hlutina á genginu 1007, sem er lokagengi bréfa í bankanum þann 16. mars, þriðjung í einu á árunum 2009, 2010 og 2011.

Barclays og ABN Amro í samrunaviðræðum?

Fjölmiðlar í Bretlandi segja bankastjórn hins breska Barclays banka hafa átt í viðræðum við stjórn ABN Amro, eins stærsta banka Hollands. Sé horft til þess að bankarnir renni saman í eina sæng. Verði það raunin verður til risabanki með markaðsverðmæti upp á jafnvirði rúmra 10.400 milljarða íslenskra króna og 47 milljón viðskiptavini um allan heim.

Útiloka ekki verðfall á danska húsnæðismarkaðnum

Hugsanlegt er að fasteignaverð í Danmörku falli um allt að fjórðung á næstu árum að því er fasteignasérfræðingur við Viskiptaháskólann í Kaupmannahöfn segir í samtali við danska dagblaðið Berlingske Tidende í dag.

Bílar skiptist á upplýsingum

Brátt gætu nýir bílar verið útbúnir með búnaði sem leyfir ökumönnum að skiptast á upplýsingum um umferðarteppur og hættur í umferðinni. Tækjabúnaðurinn tengir saman tölvur í bílum með þráðlausu neti og leyfir ökumönnum að slá inn upplýsingar og eins greina bílarnir sjálfir upplýisingar á borð við meðalhraða og veghita. Þetta hjálpar öðrum ökumönnum að haga aksturslagi eftir aðstæðum og velja leiðir fram hjá umferðarhnútum.

Samstarfsmaður Blacks nær sáttum

David Radler, einn af fyrrum samstarfsmönnum kanadíska fjölmiðlajöfursins fyrrverandi, Conrad Blacks, sem eitt sinn stýrði einni af stærstu fjölmiðlasamsteypum heims, sættist á að greiða 28,7 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 1,9 milljarða íslenskra króna, til bandaríska yfirvalda vegna bókhaldssvika.

Kaupþing hyggur á landvinninga í Miðausturlöndum

Kaupþing banki undirbýr nú að hefja starfsemi í Miðausturlöndum. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands verður starfseminni stýrt frá Persaflóa og er bankinn í viðræðum við eftirlitsaðila á svæðinu til að afla sér nauðsynlegra starfsheimilda.

Atorka eykur við sig í Interbulk

Atorka Group hefur eignast rúm fjörutíu prósent hlutafjár í InterBulk Investments, þriðja stærsta félagi heims í tankgámaflutningum fyrir efnaiðnað, en átti fyrir 24 prósent. Félagið hefur skráð sig fyrir kaupum á nýju hlutafé í Interbulk fyrir 2,6 milljarða króna.

Hafnar orðrómi um okur

Innan við þrjú prósent af hagnaði Kaupþings í fyrra kemur af viðskiptabankastarfsemi hér á landi að sögn Sigurðar Einarssonar stjórnarformanns bankanns.

Hagnaður MP tvöfaldast á milli ára

Hagnaður MP Fjárfestingarbanka var ríflega tvöfalt meiri árið 2006 en árið áður. Alls hagnaðist bankinn um 1.316 milljónir króna samanborið við 613 milljónir árið 2005.

Í austurvegi

Eins og kemur annars staðar fram á síðunni meira en tvöfaldaðist hagnaður MP Fjárfestingarbanka á milli áranna 2005 og 2006. Bankinn hefur byggt upp víðtæka starfsemi í Eystrasaltsríkjunum og opnaði útibú í Vilnius, höfuðborg Litháens, í upphafi ársins.

Glitnir eignast meirihluta í FIM Group

Glitnir banki eignaðist í dag 68,1 prósenta hlut í finnska eignastýringafyrirtækinu FIM Group Corporation. Glitnir keypti hlutinn af 11 stærstu hluthöfum fyrirtækisins 5. febrúar síðastliðinn. Glitnir áætlar að gera yfirtökutilboð í eftirstandandi hluti í FIM í apríl.

Metárhjá MP Fjárfestingarbanka

MP Fjárfestingarbanki skilaði 1.315 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 613 milljóna króna hagnað ári fyrr. Þetta er methagnaður í sögu bankans. Lagt verður til á aðalfundi bankans í lok mars að greða 18 prósenta arð eða 192,6 milljónir króna.

Vísitala byggingarkostnaðar hækkaði um 0,22%

Vísitala byggingarkostnaðar, reiknuð eftir verðlagi um miðjan mars, hækkaði um 0,22 prósent frá fyrra mánuði, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Vísitalan hefur hækkað um 13,2 prósent síðastliðna tólf mánuði, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.

Hlutafé Exista fært í evrur

Þeim fyrirtækjum fjölgar nú hratt sem tilkynna að þau hyggist skrá hlutafé sitt í evrum í stað íslenskra króna. Actavis reið á vaðið með að bera þá ósk undir hluthafa sína í febrúar. Síðan hafa Marel og Straumur-Burðarás bæst í hópinn og víst að ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.

Vodafone skrifar undir á Indlandi

Forsvarsmenn breska farsímarisans Vodafone undirrituðu í gær formlegan samning um kaup á 67 prósenta hlut í indverska fjarskiptafélaginu Hutchison Essar. Félagið er fjórða stærsta fjarskiptafélag Indlands og þykir hafa opnað Vodafone dyrnar á einn af mest vaxandi farsímamörkuðum í heimi.

Greiningardeildir segja mat Fitch ekki koma á óvart

Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að það hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands í erlendri og innlendri mynt. Greiningardeildir bankanna segja matið ekki koma á óvart.

Fitch staðfestir lánshæfismat Landsbankans

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest óbreyttar lánshæfismatseinkunnir Landsbankans sem A / F1 ( B/C með stöðugum horfum. Staðfestingin kemur í kjölfar lækkunar á lánshæfi íslenska ríkisins, að því er segir í tilkynningu frá Kauphöll Íslands.

Fitch lækkar lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði í dag lánshæfiseinkunni ríkissjóðs í erlendri og innlendri mynt úr AA- og AAA í A+ og AA+. Horfur eru stöðugar fyrir báðar einkunnir. Gengi hlutabréfa tók að lækka hratt í Kauphöll Íslands í kjölfar birtingar matsins.

Berjast fyrir útbreiðslu HD-sjónvarps

Stöðugt eykst þrýstingur á sjónvarpsstöðvar og dreifingaraðila um að bjóða sjónvarp í svokölluðum HD-gæðum. Nú hefur hópur söluaðila hafið herferð í Bretlandi til að tryggja að HD staðallinn nái útbreiðslu. Tíðnin sem HD-gæðin þurfa hefur hins vegar verið seld fyrirtæki sem dreifir ókeypis sjónvarpi í hefðbundnum gæðum.

Refresco kaupir í Bretlandi

Drykkjarvörufyrirtækið Refresco, sem er í meirihlutaeigu FL Group, Vífilfells og Kaupþings og með starfsemi á 13 stöðum í Evrópu, hefur fest kaup á breska drykkjarvöruframleiðandanum Histogram. Þetta eru fyrstu kaup Refresco í Bretlandi.

Markaðir jafna sig eftir dýfu

Helstu fjármálamarkaðir á Vesturlöndum og í Asíu hafa verið á uppleið eftir dýfu síðastliðna tvo daga. Gengi hlutabréfa hækkaði nokkuð á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær og í Japan í dag. Íslenski markaðurinn fór ekki varhluta af lækkanaferlinu en Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,13 prósent í gær.

Tekjuafgangur hins opinbera 60,1 milljarður í fyrra

Tekjuafgangur hins opinbera nam 20 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Þetta er 1,4 milljörðum krónum betri afkoma en ári fyrr. Tekjuafgangur alls síðasta árs nam 60,7 milljörðum króna samanborið við 53,6 milljarða krónur árið á undan, að því er fram kemur í Hagtíðindum Hagstofunnar í dag.

Lítil breyting á bandarískum mörkuðum

Gengi hlutabréfa var svo til óbreytt við opnun markaða í Bandaríkjunum fyrir stundu. Þá hækkaði heimsmarkaðsverð á hráolíu en búist er við að Orkumálaráðneyti Bandaríkjanna greini frá því í vikulegri skýrslu sinni í dag að olíubirgðir hafi minnkað saman fimmtu vikuna í röð.

Methagnaður hjá Lehman Brothers

Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Borthers, fjórði stærsti fjárfestabanki vestanhafs, skilaði hagnaði upp á 1,13 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði 76,83 milljarða íslenskra króna, á síðasta ársfjórðungi 2006. Þetta er metafkoma í sögu bankans.

Viðsnúningur hjá General Motors

Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors skilaði 950 milljóna dala, eða 64,6 milljarða króna, hagnaði í fjórða ársfjórðungi í fyrra samanborið við 6,6 milljarða dala, jafnvirði 448,7 milljarða króna, tap á sama tíma ári fyrr. Ljóst þykir að viðamikil endurskipulagning í rekstri fyrirtækisins og snörp beiting niðurskurðarhnífsins hafi skilað árangri á síðasta ári.

Hlutabréf lækka í Evrópu

Gengi hlutabréfa á helstu fjármálamörkuðum í Evrópu lækkuðu nokkuð í dag. Mesta lækkunin var á gengi bréfa í stórum fjármálafyrirtækjum á borð við Credit Suisse og Deutsche Bank. Lækkanirnar eru tengdar lækkunum á Wall Street í Bandaríkjunum í gær en íbúðalánamarkaðurinn vestanhafs dró helstu vísitölur niður í gær. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,92 prósent í Kauphöll Íslands í dag.

Slæm staða á bandaríska íbúðalánamarkaðnum

Vanskil á fasteignalánamarkaði og eignaupptaka vegna ógreiddra lána hafa ekki veri með verra móti í Bandaríkjunum í 37 ár, samkvæmt upplýsingum frá samtökum banka á íbúðalánamarkaði þar í landi. Samtökin segja ástandið sérstaklega slæmt enda hefur þetta haft áhrif á fjármálastofnanir á Wall Street í Bandaríkjunum.

Landsframleiðsla jókst um 2,5 prósent

Landsframleiðsla er talin hafa vaxið um 2,5 prósent að raungildi á síðasta ársfjórðungi 2006 frá sama fjórðungi árið áður. Þjóðarútgjöld jukust hins vegar meira, eða um 3,2 prósent með tilheyrandi halla á viðskiptum við útlönd. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýjustu Hagtíðindum Hagstofu Íslands.

Sjá næstu 50 fréttir