Viðskipti innlent

Síminn stofnar Mílu um fjarskiptanetið

Páll Á Jónsson framkvæmdastjóri Mílu kynnir nýja félagið á fréttamannafundi á Kjarvalsstöðum í dag
Páll Á Jónsson framkvæmdastjóri Mílu kynnir nýja félagið á fréttamannafundi á Kjarvalsstöðum í dag

Síminn hefur stofnað fyrirtæki um rekstur, uppbyggingu og viðhald fjarskiptanets síns. Nýja fyrirtækið heitir Míla. Þetta var samþykkt á aðalfundi Símans sem haldinn var í lok síðustu viku.

Þá runnu tilteknir eignarhlutar í Símanum hf. og dótturfélögum Símans hf. inn í sérstakt hlutafélag, Skipti hf. sem verður móðurfélag samstæðunnar. Ásýnd Mílu og framtíðarsýn var kynnt á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum í dag.

Í fréttatilkynningu um nýja félagið segir, að aðskilnaður fjarskiptanetsins frá annarri starfsemi Símans sé liður í þeirri stefnu eigenda Skipta hf. að bæði fyrirtækin geti enn betur sinnt þjónustuhlutverki sínu. Míla tekur við þeirri starfsemi sem áður tilheyrði heildsölu Símans, viðhaldi og rekstri á fjarskiptanetinu og áframhaldandi þróun og uppbyggingu á því. Höfuðstöðvar Mílu verða á Stórhöfða 24-30, en starfsstöðvar verða á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og fleiri stöðum á landsbyggðinni.

Starfsmenn Mílu eru 220 og framkvæmdastjóri þess er Páll Á Jónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×