Viðskipti innlent

Greiningardeildir segja mat Fitch ekki koma á óvart

Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að það hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands í erlendri og innlendri mynt. Greiningardeildir bankanna segja matið ekki koma á óvart.

Matið var lækkað úr AA- og AAA í A+ og AA+. Horfur eru stöðugar fyrir báðar einkunnir. Um leið var lánshæfiseinkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt lækkuð í F1 úr F1+ og landseinkunnin lækkuð í AA- úr AA.

Matsfyrirtækið segir nýjar tölur um viðskiptahalla íslenska hagkerfisins og skuldastöðu þjóðarbúsins benda til versnandi stöðu Íslands gagnvart útlöndum. Einnig er bent á að meginþungi hagstjórnarinnar liggi á herðum Seðlabankans sem þurfi sífellt að hækka stýrivexti.

Fitch lýsir yfir áhyggjum af því að sú aðlögun sem þurfi til að ná jafnvægi í viðskiptum við útlönd sé það mikil að ólíklegt sé að það takist án þess að hagkerfið hér á landi gangi í gegnum tímabil lítils eða neikvæðs hagvaxtar.

Greiningardeildir Kaupþings og Landsbankans segja matið ekki koma á óvart í ljósi þróunar í hagkerfinu undanfarið. Gengi íslensku krónunnar lækkaði um eitt prósent eftir að Fitch Ratings birti mat sitt í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×