Viðskipti innlent

Hagnaður MP tvöfaldast á milli ára

Hagnaður MP Fjárfestingarbanka var ríflega tvöfalt meiri árið 2006 en árið áður. Alls hagnaðist bankinn um 1.316 milljónir króna samanborið við 613 milljónir árið 2005.

Arðsemi eigin fjár var tæplega fjörutíu prósent.

Mikill vöxtur einkenndi rekstur bankans í fyrra jafnt innan sem utanlands og er bankinn nú kominn í hóp veltumestu aðila í kauphöllum Eystrasaltsríkjanna. Hreinar rekstrartekjur hækkuðu alls um 126 prósent og voru 2.175 milljónir króna, þar af voru þjónustutekjur 1.052 milljónir, gengishagnaður af annarri fjármálastarfsemi 1.059 milljónir og hreinar vaxtatekjur 65 milljónir sem var 846 prósenta aukning á milli ára.

Önnur rekstrargjöld námu 565 milljónum króna og hækkuðu um 92 prósent.

Efnahagur bankans óx um 70 prósent á milli ára og stóð í 42,7 milljörðum í árslok. Eigið fé stóð í tæpum 5,1 milljarði króna í lok ársins.

Stærstu hluthafar félagsins eru annars vegar Margeir Pétursson og félög í hans eigu, sem ráða yfir 27,8 prósentum hlutafjár, og hins vegar Byr sparisjóður með þrettán prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×