Viðskipti innlent

Gengið rétti lítil­lega úr kútnum en hefur aldrei verið lægra

Árni Sæberg skrifar
Gengi hlutabréfa í Play hefur aldrei verið lægra.
Gengi hlutabréfa í Play hefur aldrei verið lægra. Vísir/Vilhelm

Dagslokagengi flugfélagsins Play er aðeins 46 aurar á hlut og hefur aldrei verið lægra við lokun markaða. Gengið fór lægst niður í 37 aura í dag.

Gengi Play stóð í 60 aurum á hlut þegar markaðir lokuðu í gær og hafði þá aldrei verið lægra í dagslok. Eftir lokun markaða í gær gaf Play út neikvæða afkomuviðvörun þar sem kom fram að félagið reiknaði með því að taka tæplega tveimur milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi ársins, samanborið við um 1,2 milljarð tap á sama tíma í fyrra.

Fjárfestar, en þó fáir, tóku ekki vel í tíðindin og gengi félagsins lækkaði enn frekar við opnun markaða í morgun. Lægst fór það í 37 aura á hlut, eða um fjörutíu prósent lægra en í gær. Nú þegar mörkuðum hefur verið lokað stendur gengi félagsins í 46 aurum. Það er 1,9 prósent af gengi bréfa félagsins þegar það var skráð á markað í júlí árið 2021.

Hlutabréfagreinandi sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að sveiflur sem þessar hefði lítið að segja um raunverulegt virði félagsins.

„Í raun og veru er félagið mjög verðlítið ef gengið er undir svona einum og hálfum og það er mjög lítil velta sem liggur á bak við þetta, vegna þess að þegar félagið er ekki nema nokkur hundruð milljóna virði, þá er voðalega lítið hægt að lesa út úr því. Þó að sveiflan sé mikil í prósentum talið þá er hún lítil í verðmæti félagsins í raun og veru,“ sagði Snorri Jakobsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×