Fleiri fréttir

Eitt mark komið í fyrri hálfleik

Aðeins eitt mark er komið í leikjunum þremur sem standa yfir í Landsbankadeild karla og hófust klukkan 19:15. Keflvíkingar hafa yfir 1-0 gegn HK í Keflavík þar sem Þórarinn Kristjánsson skoraði mark heimamanna. Ekkert mark er komið á Kópavogsvelli þar sem Blikar taka á móti Val og sömu sögu er að segja af leik KR og Víkings í Vesturbænum.

Páll Gísli hetja Skagamanna í Árbænum

Fylkir og ÍA gerðu 2-2 jafntefli í Árbænum í fyrsta leik dagsins í Landsbankadeildinni. Dramatíkin var mikil í leiknum og David Hannah misnotaði vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Páll Gísli Jónsson varði frá honum. Fylkismenn léku manni færri frá 20. mínútu þegar Peter Gravesen var vikið af leikvelli.

Gascoigne fluttur á sjúkrahús

Fyrrum knattspyrnumaðurinn Paul Gascoigne hefur verið lagður inn á sjúkrahús þar sem hann fór í bráðaaðgerð vegna magasárs. Þetta gerðist eftir að kappinn hélt upp á fertugsafmælið sitt í Gateshead. Gascoigne er sagður á batavegi eftir aðgerðina, en hann hefur þjáðst af áfengissýki og þunglindi í nokkur ár.

Crouch verður áfram hjá Liverpool

Peter Crouch hefur nú fengið staðfestingu frá knattspyrnustjóra sínum Rafa Benitez um að hann verði ekki seldur frá félaginu í sumar. Framherjinn hafði verið orðaður við Newcastle undanfarna daga og því hafði verið spáð að Crouch yrði einn þeirra sem látnir yrðu fara í fyrirhugaðri tiltekt hjá félaginu í sumar.

Fylkir - ÍA í beinni á Sýn í dag

Fjórir leikir fara fram í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í dag. Fyrsti leikur dagsins er viðureign Fylkis og ÍA í Árbænum og verður hann sýndur beint á Sýn. Útsending hefst klukkan 16:45. Klukkan 19:15 eigast svo við Breiðablik - Valur, KR - Víkingur og Keflavík - HK.

Derby County í úrvalsdeildina

Derby County tryggði sér í dag sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð með því að leggja West Brom 1-0 í umspilsleik liðanna á Wembley. Það var Stephen Pearson sem skoraði 60 milljón punda markið fyrir Derby, sem leikur nú í efstu deild í fyrsta sinn síðan árið 2002. West Brom var sterkari aðilinn í leiknum í dag og lauk keppni með fleiri stig en Derby í deildinni í vor - en það skilaði liðinu engu þegar upp var staðið í dag.

Robbie Keane framlengir um fimm ár við Tottenham

Írski landsliðsmaðurinn Robbie Keane hefur undirritað nýjan fimm ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham. Hann hefur verið í herbúðum liðsins síðan árið 2002 þegar hann gekk í raðir liðsins frá Leeds fyrir 7 milljónir punda. Hann skoraði 22 mörk fyrir félagið á síðustu leiktíð og er aðeins 26 ára gamall.

Berger framlengir við Villa

Tékkneski landsliðsmaðurinn Patrick Berger hefur framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa um eitt ár. Berger kom lítið við sögu hjá liðinu framan af vetri en átti fínan sprett í vor þar sem Villa tapaði ekki í síðustu níu leikjum sínum í deildinni. Berger er 33 ára gamall og var áður hjá Liverpool og Portsmouth.

Garðar tók lagið á Wembley

Óperusöngvarinn Garðar Thor Cortes söng í dag á Wembley fyrir tugþúsundir áhorfenda á leik Derby og West Bromwich Albion en liðin bítast nú um hvort þeirra eigi að leika í efstu deild í ensku knattspyrnunni að ári. Garðar söng Breska þjóðsönginn í upphafi leiks og uppskar fagnaðarlæti áhorfenda.

60 milljón punda leikurinn í dag

Í dag klukkan 14 ræðst hvort það verður Derby eða West Brom sem vinnur sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili þegar liðin mætast í úrslitaleik á Wembley. Leikurinn hefur verið kallaður 60 milljón punda leikurinn vegna þess gríðarlega fjárhagslega ávinnings sem bíður sigurvegarans m.a. vegna sjónvarpstekna við það að fara upp um deild. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn og hefst útsending klukkan 13:45.

Sevilla heldur pressu á toppliðin

Sevilla hélt sínu striki í spænska boltanum í gærkvöld þegar liðið lagði Zaragoza 3-1 og er því aðeins tveimur stigum frá Real Madrid og Barcelona á toppi deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Luis Fabiano, Alexander Kerzhakov og Fredi Kanoute skoruðu mörk Sevilla í leiknum. Atletico Madrid vann Nastic 2-0 með mörkum Fernando Torres og skaust í sjötta sætið.

Christiansen jafnar fyrir Fylkismenn

Christian Christiansen var að jafna metin fyrir Fylki gegn ÍA í Árbænum og staðan orðin 2-2. Markið skoraði hann með góðu einstaklingsframtaki á 82. mínútu þegar hann prjónaði sig í gegn um vörn Skagamanna.

Skagamenn komnir yfir á ný

Skagamenn eru komnir í 2-1 á Fylkisvelli þegar um 20 mínútur eru til leiksloka. Markið skoraði Vejekoslav Savadjumovic eftir aukaspyrnu Bjarna Guðjónssonar frá hægri. Skagamenn eru manni fleiri í leiknum sem sýndur er beint á Sýn.

Valur Fannar jafnar fyrir Fylki

Fylkismenn voru ekki lengi að jafna metin í 1-1 gegn ÍA í Árbænum þrátt fyrir að vera manni færri. Valur Fannar Gíslason skoraði jöfnunarmark Fylkis með skoti úr teignum aðeins um fimm mínútum eftir að Skagamenn komust yfir. Valur skoraði einnig í síðasta leik Fylkismanna og virðist kunna vel við sig í nýju hlutverki á miðjunni.

Skagamenn komnir yfir

Skagamenn hafa náð 1-0 forystu gegn Fylki í Árbænum.Það var Jón Vilhelm Ákason sem skoraði markið á 36. mínútu eftir laglega sókn gestanna sem eru nú farnir að nýta sér liðsmuninn eftir að Peter Gravesen var rekinn af velli.

Gravesen sá rautt

Staðan í leik Fylkis og ÍA í Árbænum er jöfn 0-0 þegar 20 mínútur eru liðnar af leiknum en heimamenn urðu fyrir áfalli á 20. mínútunni þegar Peter Gravesen var vikið af leikvelli eftir að hann fékk sitt annað gula spjald. Skagamenn verða því manni fleiri það sem eftir lifir leiks, en liðið er aðeins með eitt stig í deildinni. Leikurinn er sýndur beint á Sýn.

Liverpool kaupir tvo Ungverja

Liverpool gekk í dag frá kaupum á tveimur ungum leikmönnum frá Ungverjalandi. Þeir heita Krisztian Nemeth og Andras Simon og eru 17 og 18 ára gamlir. Báðir koma frá liði MTK í ungverjalandi og eru sóknarmenn, en þeir stóðu sig vel með U-17 ára landsliði Ungverja á Evrópumótinu í fyrra.

Keppni lauk á Ítalíu í dag

Í dag fór fram lokaumferðin í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu. Chievo Verona þurfti að bíta í það súra epli að falla úr deildinni eftir sex ára veru meðal þeirra bestu, en Reggina, Siena og Parma unnu öll leiki sína og tryggðu sæti sitt.

Ajax í Meistaradeildina

Ajax tryggði sér í dag sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð með því að leggja Grétar Rafn Steinsson og félaga í AZ Alkmaar 3-0 í síðari umspilsleik liðanna í hollensku deildinni. Alkmaar vann fyrri leikinn 2-1. Grétar var að venju í byrjunarliði AZ í dag.

Sissoko ósáttur við hlutskipti sitt hjá Liverpool

Miðjumaðurinn Momo Sissoko hefur hótað að fara frá Liverpool ef hann fær ekki fast sæti í byrjunarliðinu. Sissoko missti sæti sitt í liðinu undir lok tímabilsins í hendur Argentínumannsins Javier Mascherano og hann er ekki sáttur við þá þróun mála.

Arnór: Eiður ekki á leið til Englands

Breska blaðið The Sun hefur eftir Arnóri Guðjohnsen í dag að sonur hans og skjólstæðingur Eiður Smári sé ekki á leið til Englands þó hann hafi verið orðaður við fjölda liða þar í landi undanfarnar vikur.

Tottenham að opna budduna

Forráðamenn Tottenham Hotspur ætla að opna budduna upp á gátt og vera duglegir að versla í sumar. Þetta fullyrðir blaðið News of the World í dag. Félagið keypti hinn unga og efnilega Gareth Bale til sín á dögunum og blaðið telur sig hafa heimildir fyrir því að fleiri góðir leikmenn séu á innkaupalistanum á næstunni.

Viðræður Lampard og Chelsea komnar í strand?

Breska blaðið News of the World greinir frá því í dag að samningaviðræður Frank Lampard og forráðamanna Chelsea séu nú komnar í strand og segir blaðið allt stefna í að hann muni kaupa sig út úr því sem hann á eftir af samningi sínum og leita til meginlandsins.

Eto´o er til í að spila fyrir Liverpool

Kamerúnmaðurinn Samuel Eto´o hjá Barcelona segist vel geta hugsað sér að spila með enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool, því stuðningsmenn liðsins séu engum líkir. Eto´o hefur verið orðaður nokkuð við Liverpool á síðustu mánuðum og sumir segja hann vera óskaframherja Rafa Benitez knattspyrnustjóra.

Lennon út úr enska landsliðinu

Vængmaðurinn ungi Aaron Lennon hjá Tottenham hefur dregið sig úr enska landsliðshópnum sem mætir Brasilíumönnum og Eistum eftir mánaðamótin vegna meiðsla. Lennon meiddist á hné í leik með B-liði Englendinga á föstudaginn og þetta þykir ýta undir það að David Beckham fái jafnvel sæti í byrjunarliðinu gegn Brössum á Wembley á föstudaginn.

Beckham langaði til AC Milan

Knattspyrnumaðurinn David Beckham hefur upplýst að hann hafi langað mikið að samþykkja að ganga í raðir AC Milan þegar honum stóð það til boða fyrir nokkrum mánuðum. Hann segist þó hafa ákveðið að setja fjölsklduna í fyrsta sæti og fara til Bandaríkjanna.

McClaren: Við þurfum á reynslu Beckham að halda

Steve McClaren landsliðsþjálfari Englendinga, gaf þá skýringu að enska landsliðið þyrfti á reynsluboltum að halda þegar hann svaraði fyrir val sitt á David Beckham í landsliðið í gær. Hann segir Beckham hafi leikið einstaklega vel frá áramótum.

Ancelotti lofar dularfullum risakaupum í sumar

Mikil spenna ríkir nú í Mílanó eftir ummæli sem Carlo Ancelotti þjálfari AC Milan lét falla á blaðamannafundi í gær. Þar upplýsti hann að félagið væri á góðri leið með að landa stórlaxi á leikmannamarkaðnum í sumar og sagði "heiminn fara á annan endann" ef hann gæfi upp hver leikmaðurinn væri.

Peter Shilton: Robinson er valtur í sessi

Fyrrum markvörðurinn Peter Shilton á að baki fleiri landsleiki en nokkur annar fyrir Englands hönd. Hann telur að Paul Robinson hjá Tottenham verði að herða sig ef hann ætli ekki að missa stöðu sína sem markvörður Englendinga númer eitt og þykir hann alls ekki nógu traustur milli stanganna.

Nurnberg þýskur meistari

Nurnberg tryggði sér í gær dramatískan sigur í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar þegar liðið lagði nýkrýnda deildarmeistara Stuttgart 3-2 í framlengdum úrslitaleik á Ólympíuleikvangnum. Stuttgart spilaði með 10 menn frá 31. mínútu þegar markaskoraranum Cacau var vísað af velli fyrir að kýla andstæðing sinn.

Barcelona lagði Getafe

Barcelona vann tilþrifalítinn sigur á Getafe í lokaleik kvöldsins í spænska boltanum. Ronaldinho skoraði sigurmark liðsins strax í upphafi leiks, en lét svo reka sig af velli fyrir að sparka í mótherja sinn. Eiður Smári Guðjohnsen kom ekki við sögu hjá Barcelona í leiknum, en liðið hefur jafnmörg stig og Real Madrid á toppi deildarinnar.

Beckham fór á kostum í sigri Real Madrid

David Beckham hélt upp á landsliðssæti sitt með frábærum hætti í kvöld þegar hann var maðurinn á bak við 3-1 sigur Real Madrid á Deportivo í spænsku deildinni. Beckham átti þátt í tveimur marka heimamanna og átti stangarskot úr aukaspyrnu í leiknum.

Sjötti sigur Villarreal í röð

Spænska liðið Villarreal setti í dag félagsmet með sjötta sigrinum í röð þegar liðið lagði Valencia 3-2 á útivelli. Möguleikar Valencia á meistaratitlinum eru því nánast úr sögunni. Varamaðurinn Jon Dahl Tomasson stal senunni í lokin og tryggði Villarreal sigur með því að skora eitt mark og leggja upp annað.

Dauft hjá Walesverjum

Landslið Wales í knattspyrnu gerði í dag 2-2 jafntefli við Nýja-Sjáland í undirbúningsleik fyrir stórleikinn við Tékka í undankeppni EM í næstu viku. Heimamenn lentu tvisvar undir í leiknum en framherjinn Craig Bellamy skoraði tvívegis og bjargaði Wales frá því að vera auðmýkt á heimavelli gegn undirmönnuðu liði gestanna.

Reo-Coker fer fram á sölu frá West Ham

Fyrirliðinn Nigel Reo-Coker hefur farið fram á að verða seldur frá West Ham að sögn talsmanns leikmannsins. Alan Curbishley knattspyrnustjóri er sagður hafa tilkynnt miðjumanninum að hann muni hlusta á kauptilboð yfir 8 milljónum punda. Coker gekk í raðir West Ham frá Wimbledon árið 2004 en átti mjög erfitt uppdráttar hjá Hömrunum í vetur. Talið er að Tottenham, Arsenal, Aston Villa og Newcastle séu öll tilbúin að bjóða í U-21 árs landsliðsmanninn.

Tvöfalt hjá Celtic

Glasgow Celtic tryggði sér í dag sigur í skosku bikarkeppninni með naumum 2-1 sigir á Dunfermilne í úrslitaleik og vann liðið því tvöfalt í Skotlandi enn eitt árið. Kamerúnmaðurinn Jean-Joel Doumbe skoraði sigurmark Celtic í leiknum sex mínútu og tryggði liðinu 34. sigurinn í bikarkeppninni og þann fyrsta síðan árið 2004.

Risaleikir í spænska í dag

Þrír stórleikir fara fram í spænsku deildinni í knattspyrnu í dag og í kvöld og verða þeir allir sýndir beint á Sýn. Nú fer að draga til tíðinda á Spáni þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir og spennan á toppnum er gríðarleg.

Arsenal kaupir pólskan markvörð

Arsenal gekk í dag frá kaupum á pólska markverðinum Lukasz Fabianski frá Legia Warsaw. Hann er aðeins 22 ára gamall og er talinn mikið efni. Fabanski hefur verið varamarkvörður Artur Boruc í pólska landsliðinu og hefur nú gert langtímasamning við Arsenal, þar sem hann verður væntanlega þriðji kostur á eftir þeim Jens Lehmann og Manuel Almunia.

Beckham kominn í enska landsliðshópinn á ný

Steve McClaren landsliðsþjálfari tilkynnti í dag leikmannahópinn sem mætir Brasilíumönnum um næstu mánaðamót og spilar svo við Eista í undankeppni EM nokkrum dögum síðar. Mesta athygli vekur að hann kallaði David Beckham aftur inn í landsliðið eftir árs fjarveru.

Deschamps sagði af sér hjá Juventus

Franski þjálfarinn Didier Deschamps hefur sagt af sér hjá ítalska stórliðinu Juventus þrátt fyrir að hafa stýrt liðinu rakleitt upp í A-deildina í vetur eftir að liðið var fellt niður í B-deildina síðasta sumar. Heyrst hefur að Juventus ætli sér að reyna að lokka fyrrum landsliðsþjálfarann Marcello Lippi í starfið.

Gareth Bale semur við Tottenham

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham gekk í gærkvöld frá kaupum á velska landsliðsmanninum Gareth Bale frá Southampton fyrir 5 milljónir punda, en upphæðin gæti farið upp í allt að 10 milljónir. Bale er aðeins 17 ára gamall vinstri bakvörður og hefur verið eftirsóttur af stóru liðunum á Englandi um nokkurt skeið.

Bíður eftir kalli frá Man. City

Sven-Göran Eriksson bíður eftir símtali frá Manchester City og segist hafa mikinn hug á því að taka við stjórastöðunni hjá félaginu. City er í leit að nýjum stjóra eftir að hafa rekið Stuart Pearce og ku Eriksson vera ofarlega á óskalistanum.

Kaka vill koma til Real Madrid

Robinho vonast eftir því að Kaka gangi til liðs við félag sitt, Real Madrid, í sumar. Eftir að AC Milan varð Evrópumeistari í vikunni ganga sögurnar fjöllunum hærra um að Kaka vilji færa sig um set frá Ítalíu en Real hefur lengi haft augastað á þessum magnaða leikmanni.

Houllier hættur hjá Lyon

Sagt var frá því í gær að Gerard Houllier væri hættur að þjálfa franska meistaraliðið Lyon.

Benayoun framlengir

Ísraelinn Yossi Benayoun hefur framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarliðið West Ham til ársins 2012. Félagið er í eigu Íslendinga sem kunnugt er.

Sjá næstu 50 fréttir