Fleiri fréttir

Emil Hallfreðsson til Lyn í Noregi

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er á leið til norska úrvalsdeildarliðsins Lyn, en hann hefur verið á mála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham síðustu ár. Emil mun væntanlega skrifa undir þriggja og hálfs árs samning við norska félagið í næstu viku, en þá mun hann mæta á sína fyrstu æfingu hjá Lyn.

Malouda til Chelsea

Jean-Michel Aulas, forseti franska knattspyrnufélagsins Lyon, tilkynnti Reuters fréttastofunni nú fyrir stundu að félagið hefði samþykkti að selja franska landsliðsmanninn Florent Malouda til Chelsea. Malouda er kantmaður og var kjörinn knattspyrnumaður ársins í Frakklandi á síðustu leiktíð.

Fimm í röð hjá Federer

Tenniskappinn Roger Federer frá Sviss stimplaði nafn sitt enn frekar í sögubækurnar í dag þegar hann vann sinn fimmta sigur í röð á Wimbledon mótinu eftir æsilegan og dramatískan úrslitaleik gegn Rafael Nadal. Federer jafnaði þar með árangur Björns Borg frá áttunda áratugnum.

Deilurnar voru Chelsea dýrkeyptar

Peter Kenyon framkvæmdastjóri Chelsea, viðurkennir að deilur innan herbúða liðsins hafi verið því dýrkeyptar á síðustu leiktíð. Sagt var að Jose Mourinho knattspyrnustjóri og Roman Abramovich hefðu vart talast við á löngum köflum í fyrra, en Kenyon segir alla vera búna að grafa stríðsöxina.

Breiðablik lagði Fjölni

Breiðablik bar sigurorð af Fjölni í Kópavoginum 2-1 í síðari leik kvöldsins í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Margrét Magnúsdóttir kom Fjölni yfir en Guðrún Sóley Gunnarsdóttir jafnaði metin. Katherine Moss skoraði svo sigurmark Breiðabliks sem er komið með tíu stig eftir sjö leiki.

Newcastle sagt hafa áhuga á Raul og Deco

Breska blaðið News of the World greindi frá því í dag að milljarðamæringurinn Mike Ashley, eigandi Newcastle, vildi ólmur kaupa stórstjörnur til félagsins. Hann er sagður hafa áhuga á að fá til sín miðjumanninn Deco frá Barcelona og gulldrenginn Raul frá Real Madrid.

Átta tilboð á borðinu hjá Fowler

Umboðsmaður framherjans Robbie Fowler hefur nóg að gera þessa dagana og segist vera með átta samningstilboð á borðinu fyrir leikmanninn. Fowler var látinn fara frá Liverpool í sumar og er því með lausa samninga. Félög á borð við Celtic og Rangers í Skotlandi, Sydney FC í Ástralíu og New England Revelution í MLS-deildinni eru sögð hafa áhuga á honum.

Fjölnir og ÍBH Landsmótsmeistarar í körfubolta

Karlalið Fjölnis og kvennalið ÍBH urðu í dag Landsmótsmeistarar í körfubolta í fyrsta skipti eftir sigra í úrslitaleikjum gegn liðum Keflavíkur. Kvennalið ÍBH vann öruggan sigur í sínum úrslitaleik, en framlengja þurfti karlaleikinn.

ÍR af botninum

ÍR lyfti sér í kvöld af botninum í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu þegar liðið lagði Þór/KA 3-0 í uppgjöri botnliðanna í deildinni. Ana Gomes kom ÍR á bragðið á heimavelli með marki á 9. mínútu, Bryndís Jóhannesdóttir kom liðinu í 2-0 úr víti skömmu fyrir leikhlé og innsiglaði svo sigurinn með öðru marki sínu í síðari hálfleik.

Carragher að hætta með landsliðinu?

Breska blaðið Mail on Sunday greinir frá því í dag að varnarmaðurinn Jamie Carragher hjá Liverpool hafi ákveðið að hætta að leika með enska landsliðinu í kjölfar þess að Steve McClaren valdi hann ekki í hóp sinn fyrir leikinn gegn Eistum á dögunum.

Verðmiðinn á Curtis Davies er of hár

Umboðsmaður varnarmannsins Curtis Davies hjá West Brom er ósáttur við vinnubrögð félagsins og segir það hafa sett allt of háan verðmiða á leikmanninn. West Brom vill fá 8 milljónir punda fyrir hinn efnilega varnarmann og því er útlit fyrir að ekkert verði af draumaskiptum hans í Tottenham.

Boesen til Lemgo

Danski landsliðsmaðurinn Lasse Boesen hefur gert þriggja ára samning við þýska úrvalsdeildarliðið Lemgo eftir eitt ár með Kolding í heimalandi sínu. Boesen var áður hjá spænska stórliðinu Portland San Antonio þar sem hann varð meistari árið 2005. Hann á að baki 83 landsleiki með Dönum og gengur nú til liðs við Loga Geirsson og félaga í Lemgo.

Torres: Fabregas lokkaði mig til Englands

Spænski framherjinn Fernando Torres sem nýverið gekk í raðir Liverpool fyrir metfé, segir að félagi sinn Cesc Fabregas í spænska landsliðinu hafi sannfært sig endanlega um að flytja til Englands. Hann segist einnig hafa fengið tækifæri til að ganga í raðir Arsenal fyrir nokkrum árum.

Tveir leikir í landsbankadeild kvenna í dag

Tveir leikir eru á dagskrá í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í dag og í kvöld. ÍR tekur á móti Þór/KA klukkan 16:00 í botnbaráttunni og Breiðablik tekur á móti Fjölni á Kópavogsvelli klukkan 19:15 í kvöld. Fjölnir er í fjórða sæti deildarinnar, Blikar í því sjötta og eiga leik til góða. ÍR er á botninum með aðeins eitt stig og Þór/KA hefur þrjú stig í næst neðsta sætinu.

Liverpool íhugar að stækka nýja völlinn

Tom Hicks, meðeigandi enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að félagið sé að íhuga alvarlega að hafa nýja knattspyrnuleikvang félagsins stærri en áformað var í fyrstu. Nýr völlur átti að taka 61,000 manns í sæti og hófust viðræður í því sambandi um leið og Hicks og George Gillett eignuðust félagið á sínum tíma.

Raikkönen á sigurbraut

Finnski ökuþórinn Kimi Raikkönen hjá Ferrari vann í dag sinn annan sigur í röð í Formúlu 1 þegar hann kom fyrstur í mark í Silverstone kappakstrinum á Englandi. Hann gerði þar með út um vonir hins unga Lewis Hamilton um að landa sigri á heimavelli í sinni fyrstu keppni þar.

McCarty ætlar að virða samninginn við Blackburn

Suður-Afríski framherjinn Benni McCarthy hjá Blackburn hefur lýst því yfir að hann vilji gjarnan komast til stærra félags á Englandi, en segist muni virða samning sinn við Blackburn ef ekkert gerist í hans málum í sumar. Hann hefur verið orðaður við Chelsea í nokkra mánuði.

Fjögur Íslandsmet féllu á Héðinsmótinu

Fjögur Íslandsmet voru sett á Héðinsmótinu árlega í bekkpressu sem haldið var á Ólafsvík í gær. Jakob Baldursson setti Íslandsmet í 125 kg flokki þegar hann lyfti 285 kg og bætti met Auðuns Jónssonar um 4,5 kg. Héraðsmaðurinn Ísleifur Árnason bætti eigið met í 90 kg flokki með því að lyfta 218,5 kg.

Enginn í treyju númer 14 hjá Arsenal

Leikmenn Arsenal búa sig nú undir líf án Thierry Henry í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð og enn sem komið er hefur enginn leikmaður fengið úthlutað treyju númer 14. Orðrómur er uppi um að númerið verði jafnvel tekið úr umferð hjá félaginu til að heiðra minningu eins besta leikmanns í sögu félagsins.

Liverpool og Atletico berjast um Quaresma

Breska blaðið News of the World segir að Liverpool og Atletico Madrid séu nú í miklu kapphlaupi við að landa vængmanninum Ricardo Quaresma frá Porto í Portúgal. Bæði félögin eru sögð hafa lagt fram formleg tilboð, en Porto er sagt vilja fá 20 milljónir punda fyrir hinn 23 ára gamla leikmann. Liverpool á að hafa boðið 14 milljónir punda í hann, en forráðamenn Porto segja það ekki nógu háa upphæð til að réttlæta að setjast að samningaborði.

Tevez hefur lofað Ferguson að fara til United

Argentínumaðurinn Carlos Tevez hjá West Ham hefur lofað Sir Alex Ferguson að hann muni ganga í raðir Manchester United og ætlar að gera allt sem í valdi hans stendur til að af félagaskiptunum verði. Hann segist vilja fara frá West Ham því félagið hafi ekki vilja hafa hann áfram.

Real staðfestir áhuga sinn á Fabregas

Daginn eftir að umboðsmaður spænska miðjumannsins Cesc Fabregas hjá Arsenal sagði að hann færi ekki frá félaginu, hafa forráðamenn Real Madrid á Spáni nú lýst því yfir að þeir hafi mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir.

Chelsea ræður nýjan yfirmann knattspyrnumála

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea tilkynnti í dag að það hefði ráðið Avram Grant sem yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu. Grant var áður tæknistjóri Portsmouth en sest nú á skrifstofu Chelsea þar sem hann mun starfa náið með mönnum eins og Peter Kenyon, Jose Mourinho, Frank Arnesen og eigandanum Roman Abramovich.

Brasilíumenn burstuðu Chile

Fyrstu tveir leikirnir í 8-liða úrslitum Copa America fóru fram í gærkvöldi. Brasilíumenn burstuðu Chile 6-1 þar sem Robinho skoraði tvö mörk og er nú langmarkahæstur í keppninni með 6 mörk. Diego Forlan skoraði tvívegis fyrir Úrúgvæ sem tryggði sér einnig sæti í undanúrslitum með 4-1 sigri á heimamönnum í Venesúela.

Appelby efstur á PGA mótinu - Tiger vinnur enn á

Ástralinn Stuart Appleby er í forystu á AT&T PGA mótinu sem fram fer í Marylandfylki í Bandaríkjunum eftir þrjá hringi. Hann er með tveggja högga forskot á Kóreumanninn KJ Choi eftir að hann lék á 68 höggum í gær, Choi var á 70 höggum.

Klitschko náði fram hefndum

Úkraínumaðurinn Wladimir Klitschko náði í gærkvöld fram hefndum gegn Bandaríkjamanninum Lamon Brewster þegar þeir áttust við öðru sinni á þremur árum. Klitschko varði þarna IBF titil sinn í þungavigt og hefndi fyrir óvænt tap fyrir Bandaríkjamanninum árið 2004. Dómarinn stöðvaði bardagann í upphafi sjöundu lotu eftir að frábær flétta frá Klitschko vankaði Brewster.

Federer vinnur fyrsta settið gegn Nadal

Úrslitaleikurinn í karlaflokki á Wimbledon mótinu er nú í fullum gangi og er sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn. Roger Federer vann fyrsta settið gegn Rafael Nadal 7-6 eftir æsilega og spennuþrungna lotu þar sem Svisslendingurinn vann 9-7 í upphækkuninni.

Collina ráðinn yfirdómari á Ítalíu

Ítalska knattspyrnusambandið hefur ráðið fyrrum knattspyrnudómarann Pierluigi Collina í sérstakt embætti þar sem honum verður falið að hafa umsjón með öllum dómurum í landinu. Er þetta tilraun Ítala til að fegra ímynd sambandsins eftir skandalinn ljóta þar í landi í fyrra.

Wilkens hættur hjá Seattle

Fyrrum körfuboltaþjálfarinn Lenny Wilkens hefur sagt af sér varastjórnarformennsku hjá Seattle Supersonics í NBA deildinni, daginn eftir að P.J. Carlesimo var ráðinn sem þjálfari liðsins. Wilkens á að baki fleiri sigra en nokkur annar þjálfari í sögu NBA deildarinnar, en hefur verið á skrifstofunni undanfarin ár. Gríðarleg uppstokkun hefur verið í gangi í Seattle á síðustu vikum, en almennt er álitið að liðið fari frá borginni eftir komandi leiktíð í NBA.

Van der Meyde lofar að bæta sig

Hollenski miðjumaðurinn Andy ven dre Meyde hjá Everton segist taka fulla ábyrgð á því hve miklum vonbrigðum hann hefur valdið fyrstu tvö árin sín hjá félaginu og lofar að standa sig betur á næstu leiktíð.

Derby kaupir Andy Todd

Nýliðar Derby County í ensku úrvalsdeildinni halda nú áfram að styrkja sig fyrir átökin á komandi vetri og í dag gekk félagið frá kaupum á miðverðinum Andy Todd frá Blackburn. Todd átti tvö ár eftir af samningi sínum við Blackburn en félagið tilkynnti hinum 32 ára leikmanni að það hefði ekki lengur þörf fyrir hann.

Carroll semur við Rangers

Markvörðurinn Roy Carroll sem áður lék með West Ham og Manchester United, hefur skrifað undir eins árs samning við Glasgow Rangers í Skotlandi. Carroll var hjá Manchester United í fjögur ár en hafði verið í herbúðum West Ham frá árinu 2005. Hann er 29 ára gamall og hóf ferilinn hjá Hull árið 1995.

Giuly hættur við að fara frá Barcelona

Franski miðjumaðurinn Ludovic Giuly hjá Barcelona hefur tilkynnt að hann ætli ekki fara frá félaginu og ætli að berjast þar fyrir sæti sínu á næstu leiktíð. Giuly hafði ætlað að fara aftur til síns gamla félags Mónakó í Frakklandi en hafði auk þess verið orðaður við mörg lið á Englandi.

Góður sigur Þróttara í Eyjum

Þróttarar gerðu góða ferð til Vestmannaeyja í dag þegar liðið vann 4-1 sigur á heimamönnum í ÍBV í 1. deildinni. Hjörtur Hjartarson skoraði þrennu fyrir gestina í fyrri hálfleik og Rafn Haraldsson bætti við fjórða markinu, en Atli Heimisson minnkaði muninn fyrir heimamenn. Þróttur er í þriðja sæti deildarinnar en ÍBV er í 5. sætinu.

Piltalandsliðið endaði í sjötta sæti

Íslenska piltalandsliðið í handbolta hefur lokið keppni á opna Evrópumótinu sem fram fer í Gautaborg í Svíþjóð. Liðið tapaði í dag 24-23 fyrir Rússum í leiknum um fimmta sætið á mótinu eftir að hafa verið undir í hálfleik 13-9. Anton Rúnarsson skoraði 6 mörk fyrir Ísland í dag og Orri Freyr Gíslason 5.

Craig Bellamy fær 10 milljónir á viku hjá West Ham

Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham hefur gengið frá kaupum á velska framherjanum Craig Bellamy frá Liverpool. Rafa Benitez, stjóri Liverpool, staðfesti þessi tíðindi nú síðdegis. Breska sjónvarpið segir að West Ham hafi greitt 8 milljónir punda fyrir Bellamy og að hann hafi skrifað undir fjögurra ára samning sem færi honum 10 milljónir króna í vikulaun.

Heiðar á höggi yfir pari

Þeir Sigurpáll Geir Sveinsson og Heiðar Davíð Bragason hefja leik á opna Skánarmótinu ekki sem best, en Sigurpáll er 2 höggum yfir pari eftir fyrsta hring á Landskrona vellinum. Heiðar Davíð hefur leikið 12 holur og er á einu yfir pari. Heiðar er í 45.-65. sæti, en Sigurpáll er í 66.-91. sæti af 155 keppendum.

Djurgården á toppinn

Djurgården komst í dag á toppinn í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að liðið lagði Malmö 1-0 í miklum baráttuleik. Lærisveinar Sigurðar Jónssonar hafa hlotið 23 stig eftir 13 leiki, en Kalmar og Halmstad sem eru í öðru og fjórða sæti geta komist upp fyrir Djurgården með sigri í leikjunum sem þau eiga til góða.

Bent skoraði í sínum fyrsta leik

Framherjinn Darren Bent var í sviðsljósinu með Tottenham í dag þegar liðið lagði Stevenage í æfingaleik 3-1. Bent skoraði mark og fiskaði víti í leiknum, en Robbie Keane og Adel Taarabt skoruðu hin mörkin. Þá vann Liverpool 3-2 sigur á Wrexham þar sem Austurríkismaðurinn Besian Idrizaj skoraði þrennu.

Fabregas: Ég verð áfram ef Wenger verður áfram

Umboðsmaður spænska miðjumannsins Cesc Fabregas hjá Arsenal segir að hann verði ánægður í herbúðum liðsins svo lengi sem Arsene Wenger verði áfram knattspyrnustjóri. Arsenal hefur enn á ný þurft að blása á fregnir af því að Fabregas sé á leið frá félaginu.

8-liða úrslitin í Copa America hefjast í kvöld

Í kvöld fara fram tveir fyrstu leikirnir í Suður-Ameríkukeppni landsliða í knattspyrnu og verða þeir báðir sýndir beint á Sýn. Heimamenn í Venesúela taka á móti Úrúgvæ klukkan 21:55 og klukkan 0:40 eftir miðnættið mætast Brasilía og Chile.

Venus Williams sigraði á Wimbledon

Bandaríska tenniskonan Venus Williams sigraði í dag á sínu fjórða Wimbledon-móti þegar hún lagði hina frönsku Marion Bartoli 6-4 og 6-1 í úrslitaleik. Williams vann mótið árin 2000, 2001 og 2005 og var sigur hennar í dag aldrei í hættu þó hún ætti við smá meiðsli að stríða á læri. Einvígið var sýnt beint á Sýn.

Federer og Nadal mætast í úrslitum á Wimbledon

Það verða tveir bestu tennisleikarar heims sem leika til úrslita á Wimbledon mótinu í tennis. Roger Federer sigraði 12. mann heimslistans Richard Gasquet 7-5, 6-3 og 6-4 nokkuð sannfærandi og Rafael Nadal komst í úrslitin annað árið í röð eftir sigur á Novak Djokovic, sem hætti vegna meiðsla. Federer getur komist í úrvalshóp með sigri í úrslitum þar sem hann stefnir á fimmta sigurinn í röð á mótinu.

Hamilton á ráspól á heimavelli

Breska ungstirnið Lewis Hamilton hjá McLaren heldur áfram að stimpla sig inn í metabækurnar í Formúlu 1 og í dag náði hann besta tíma í tímatökunum fyrir breska kappaksturinn á Silverstone-brautinni á morgun.

Frábær sigur hjá íslensku nördunum

Íslensku nördarnir í KF Nörd héldu uppi heiðri Íslands í uppgjöri norrænu lúðanna í gærkvöld þegar þeir gjörsigruðu þá sænsku 7-0 á Kópavogsvelli. Á fimmta þúsund manns mættu til að fylgjast með þessum óhefðbundnu íþróttamönnum leiða saman hesta sína.

Sjá næstu 50 fréttir