Fleiri fréttir

Robert Blake sýknaður

Bandaríski leikarinn Robert Blake var í fyrradag sýknaður af ákærum um að hafa myrt eiginkonu sína.

Afsögn Perssons ekki á dagskrá

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, vísar því á bug að hann hyggist segja af sér embætti. Vinsældir Persons hafa dalað mjög samkvæmt skoðanakönnunum og í dagblaðinu <em>Expressen</em> í dag eru settar fram getgátur um afsögn hans á flokksþingi sósíaldemókrata síðar á þessu ári.

Rasmussen óvænt til Íraks

Danir munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða ríkisstjórn Íraks í öryggismálum. Þetta sagði Anders Fogh-Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, þegar hann kom í óvænta heimsókn til Íraks í dag.

Bíræfið bankarán stöðvað

Bíræfið hátæknirán, þar sem ræna átti 220 milljónum punda úr japönskum banka í London, var upplýst áður en það var framið.

Rice ræddi um eiturlyf

Eiturlyf en ekki hryðjuverkamenn voru umræðuefnið þegar Condoleezza Rice kom til Afganistans í dag. 

Málskotsrétturinn haldi sér

Í tilefni af endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur Þjóðarhreyfingin - með lýðræði sent frá sér yfirlýsingu, þar sem tíunduð eru þau mál sem að mati hreyfingarinnar er mikilvægast að gæta að í þessu sambandi. Mest um vert sé að þjóðin "njóti áfram þess málskotsréttar, sem þjóðkjörinn forseti fer með samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar."

Kosningum frestað í Afganistan

Hamid Karzai, forseti Afganistans, tilkynnti í gær að þingkosningum í landinu yrði frestað um tvo mánuði. Ákvörðunin um frestun kosninganna er staðfesting á því hve illa gengur að koma á stöðugleika í landinu, nú þegar rúm þrjú ár eru síðan talibanastjórnin var hrakin frá völdum.

Tsjúbajs sýnt banatilræði

Anatolí Tsjúbajs, yfirmaður rússnesku rafmagnsveitnanna, lifði af banatilræði sem honum var sýnt í Moskvu á fimmtudag. Fyrrverandi liðsforingi í hernum var yfirheyrður í gær, grunaður um aðild að tilræðinu. Embættismenn létu hafa eftir sér að hugsanlega hefðu tilræðismennirnir ekki ætlað sér að ráða Tsjúabajs af dögum, heldur aðeins skjóta honum skelk í bringu.

Tölvuþrjótar reyna bankarán

Breska lögreglan kom upp um tilraun tölvuþrjóta til að stela andvirði mörg hundruð milljóna króna af reikningum japansks banka í Lundúnum, að því er greint var frá á fimmtudag. Aðferðin sem beitt var við þjófnaðartilraunina var að sögn sú, að þrjótarnir brutust inn í tölvukerfi bankans og söfnuðu þannig upplýsingum um lykilorð og annað.

Sprengingar fyrir þingfund

Fréttir voru að berast af sprengingum við græna svæðið í Bagdad þar sem margar helstu stofnanir Íraka eru staðsettar. Sprengingin varð aðeins nokkrum mínútum fyrir fyrsta þingfund írakska þingsins sem fer fram í nágrenninu.

Ítalskir hermenn kallaðir heim

Ítalir ætla að hefja brottfluttning herliðs síns frá Írak þegar í september á þessu ári. Þetta sagði Silvio Berlusconi, forsætisráðherra landsins, í gær. Ummælin koma mjög á óvart því að hingað til hafa ítölsk stjórnvöld sagst ætla að halda herliði landsins í Írak þangað til Írakar geti sjálfir séð um öryggi lands síns.

Nærri því að handsama bin Laden

Pakistanar komust mjög nálægt því að handsama Osama bin Laden fyrir tíu mánuðum síðan, en nú vita þeir ekkert hvar hann er niðurkominn. Þetta sagði Pervez Musharraf, forseti Pakistans, í gær.

Enginn árangur af þingfundinum

Fyrsta þingfundi írakska þjóðþingsins lauk nú fyrir skömmu, án þess að endanleg sátt hafi náðst um skipan nýrrar ríkisstjórnar í landinu. Kúrdar og sjítar, sem hlutu yfirgnæfandi meirihluta í nýafstöðnum kosningum, hafa náð saman um stærstu embættin.

Forstjóri WorldCom fundinn sekur

Bernard Ebbers, fyrrverandi forstjóri WorldCom, var í gær fundinn sekur um að hafa skipulagt stærstu skattsvik í sögu Bandaríkjanna. Skattsvikin, sem áttu sér stað um nokkurra ára skeið, námu alls ellefu milljörðum bandaríkjadala. Ebbers á yfir höfði sér allt að 85 ára fangelsisdóm

Raðmorðingi tekinn af lífi

Íranskur raðmorðingi var hengdur og hýddur í morgun sunnan við höfuðborg Írans, Teheran. Maðurinn var stunginn í bakið af bróður eins fórnarlambsins, hýddur hundrað sinnum og að lokum hengdi móðir eins fórnarlambsins hann.

Ræða ekki kjarnorkuvopnaáætlunina

Norður-Kóreustjórn þvertekur fyrir að setjast aftur að samningaborði sexveldanna svokölluðu til að ræða kjarnorkuvopnaáætlun stjórnvalda í Pjongjang. Talsmenn ráðamanna í Norður-Kóreu segja viðræður útilokaðar fyrr en Bandaríkjamenn hætta að kalla landið útvörð harðstjórnar.

Hersveitir kallaðar frá Jeríkóborg

Ísraelskar hersveitir hafa verið kallaðar frá Jeríkóborg og markar það upphaf brotthvarfs hersveita frá fimm borgum á Vesturbakkanum. Palestínskar öryggissveitir munu nú halda uppi lögum á svæðinu en þetta er sagt styrkja stöðu Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, til mikilla muna.

49 taldir af eftir flugslys

Að minnsta kosti fjörutíu og níu manns eru taldir af eftir að farþegaflugvél hrapaði til jarðar í Rússlandi rétt fyrir hádegi. Vélin var að koma inn til lendingar nærri bænum Barandei í norðurhluta Rússlands þegar annar vængurinn rakst í jörðina með þeim afleiðingum að eldur varð laus í flugvélinni.

Króatar sýna ekki samvinnu

Evrópusambandið mun í dag að öllum líkindum ákveða að fresta upphafi aðildarviðræðna við Króatíu þar sem stjórnvöld þar hafa ekki sýnt nægilega samvinnu við alþjóðaglæpadómstólinn í Haag.

Starfsmenn S.þ. yfirgefa V-Súdan

Sameinuðu þjóðirnar hafa flutt alla starfsmenn sína frá vesturhluta Súdans vegna hótana arabískra skæruliða um að ráðast á útlendinga og fulltrúa samtakanna á svæðinu. Sameinuðu þjóðirnar hafa afvopnað lítinn hluta skæruliðanna en eiga mikið starf eftir.

Wolfowitz forseti Alþjóðabankans

Bandaríkjastjórn tilnefndi hinn umdeilda Paul Wolfowitz sem forseta Alþjóðabankans nú fyrir stundu. George Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var vegna tilnefningarinnar að Wolfowitz hafi alla þá reynslu sem þurfi til að stýra bankanum, auk þess sem persóna hans og framkoma sé hrein og bein.

Dúkkan brást rangt við snertingu

Uppblásin kynlífsdúkka tók starfsmenn þýskrar póstþjónustu á taugum í morgun. Dúkkan byrjaði skyndilega að titra inn í kassa sem beið afhendingar og var þegar kallað á sprengjudeild lögreglunnar.

Úrskurðaður í gæsluvarðhald

Maðurinn sem drap annan mann með öxi í Lundúnum á mánudaginn kom fyrir rétt í dag þar sem hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hin fólskulega morðárás var gerð í svokölluðu Swiss Cottage hverfi sem er ríkmannlegt hverfi í norðvesturhluta borgarinnar. Árásarmaðurinn, sem er á þrítugsaldri, var handtekinn á staðnum en ekki er vitað hvað honum gekk til.

Sökuð um líkrán

Breskt par hefur verið handtekið í tengslum við rannsókn á líkráni. Lík ríflega áttræðrar konu sem lést fyrir átta árum var grafið upp og rænt í október síðastliðnum. Lögregla segir allt benda til þess að dýravinir hafi verið að verki en konan var skyld Hall-fjölskyldunni, sem á býli þar sem naggrísir eru ræktaðir.

Brösug stjórnarmyndun í Írak

Það gengur brösuglega að koma á starfhæfri stjórn í Írak. Trúarhópar og þjóðernisbrot deila sín á milli og á sama tíma fækkar í fjölþjóðahernum þegar bandamenn heltast úr lestinni. 

Spilling af óþekktri stærðargráðu

Spilling er svo mikil í Írak að uppbyggingarstarfið er talið geta orðið eitt mesta spillingarhneyksli sögunnar. Mútugreiðslur og spilling eru vandamál alls staðar í heiminum

Aðildarviðræðunum frestað

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja ákváðu á fundi sínum í Brussel í gær að fresta aðildarviðræðum við Króata um óákveðinn tíma en þær áttu að hefjast í dag.

Bush er áhyggjulaus

George W. Bush Bandaríkjaforseti kvaðst í gær skilja hvers vegna bandamenn sínir vildu kalla hermenn sína heim frá Írak en þvertók fyrir að bandalag hinna viljugu þjóða væri hrunið.

Jeríkó í höndum Palestínumanna

Palestínumenn tóku í gær við stjórn borgarinnar Jeríkó á Vesturbakkanum. Borgin er sú fyrsta af fimm sem Ísraelar ráðgera að afhenda palestínskum embættismönnum.

Wolfowitz í Alþjóðabankann

George W. Bush Bandaríkjaforseti mun mæla með að Paul Wolfowitz aðstoðarlandvarnaráðherra verði skipaður bankastjóri Alþjóðabankans.

Stjórnlagaþingið kemur saman

Stjórnlagaþing Íraka var sett í gær en þetta er í fyrsta sinn í hálfa öld sem þjóðkjörið þing kemur saman eftir frjálsar kosningar.

Skurðaðgerð í boði

Rússneska öryggislögreglan hefur boðið þeim sem bent geta á dvalarstað tsjetsjenska uppreisnarleiðtogans Shamil Basajev lýtaaðgerð svo að öryggi þeirra verði tryggt.

29 farast í flugslysi

Flugvél fórst í Rússlandi í gær með 50 manns innanborðs. Rússeskir embættismenn segja að 29 farþegar hafi týnt lífi en 23 bjargast en þar af eru tíu sagðir mjög alvarlega slasaðir

Yfirlýsing OPEC marklaus

Olíuframleiðsla OPEC-ríkjanna verður aukin á næstunni en það virðist lítil áhrif ætla að hafa á olíuverð á heimsmarkaði sem þokast enn á ný nærri sögulegu hámarki. Sérfræðingar á markaði telja mestar líkur á að verðið hækki áfram í ljósi vaxandi eftirspurnar og í raun sé yfirlýsing OPEC marklaus í því samhengi.

Fær ekki að koma til Íslands

Japönsk stjórnvöld útilokuðu í gær að Bobby Fischer skákmeistari fengi að fara til Íslands. Talsmaður japanska dómsmálaráðuneytisins lýsti þessu yfir við þingnefnd sem fjallaði um málið í gær að ósk eins þingmanna stjórnarandstöðunnar. Hann sagði að ef Fischer yrði fluttur úr landi þá yrði hann sendur til Bandaríkjanna.

Hyggjast stækka vopnabúr sitt

Norður-Kóreumenn hyggjast framleiða fleiri kjarnavopn til þess að mæta aukinni andstöðu Bandaríkjamanna. Þetta sagði talsmaður utanríkisráðuneytis landsins í nótt. Hann sagði að Norður Kóreumenn yrðu að bregðast við afa óvinveittum skilaboðum Bandaríkjamanna undanfarið með því að auka við vopnabúr sitt.

Forseta Kosovo sýnt banatilræði

Sprengja sprakk nærri bifreið forseta Kosovo í Pristina, höfuðborg héraðsins, í morgun. Bíll forsetans skemmdist í árásinni og gluggar í nærliggjandi húsum splundruðust en engan sakaði. Forsetinn var á leið á fund með Javier Solana, yfirmanni utanríkismála Evrópusambandsins, þegar atburðurinn átti sér stað. Ekki er enn vitað hverjir stóðu fyrir tilræðinu.

Réðust gegn föngum eftir umsátur

Lögreglumenn á Filippseyjum skutu í morgun að minnsta kosti 17 fanga til bana í fangelsi nærri Manilla. Snemma í gær rændu fangarnir byssum af fangavörðum, skutu þrjá þeirra til bana og gerðu síðan tilraun til að flýja, en því lauk með því að þeir hertóku eina hæð fangelsisins. Eftir nærri sólarhrings umsátur ákvað lögregla að láta til skarar skríða í morgun.

Gríðarlegt mannfall í Darfur

Að minnsta kosti 180 þúsund manns hafa látið lífið í Darfur-héraði í Súdan undanfarið eitt og hálft ár. Þetta segir Jan Egeland, yfirmaður hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna. Þá eru ekki taldir þeir sem fallið hafa í valinn í átökum heldur er einungis um að ræða fórnarlömb sjúkdóma og vannæringar.

Felldu hugi saman eftir flóð

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Í gær var gefið saman par á Indónesíu sem hittist í flóttamannabúðum í kjölfar hamfaranna í Asíu á annan í jólum. Þau Karmila Wati og Samsol Winda misstu bæði heimili sín í flóðunum og neyddust þess vegna til að hafast við í neyðarskýlum dagana eftir hamfarirnar.

Fuglaflensa hugsanlega í N-Kóreu

Embættismenn í Suður-Kóreu rannsaka óstaðfestar fregnir um að fuglaflensa hafi drepið þúsundir hænsna í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í síðasta mánuði. Embættismenn í Seúl segja að matvælafyrirtæki í Suður-Kóreu hafi afpantað 40 tonna kjúklingasendingu sem átti að koma landsins á fimmtudag.

Fingrafar í stað greiðslukorts

Stórmarkaðskeðjan Edeka í Þýskalandi tekur innan skamms fingrafaraskanna í notkun. Dyggum viðskiptavinum nægir þá að þrýsta fingri á skannann og verða viðskipti þeirra í kjölfarið færð til bókar. Keðjan hefur gert tilraunir með skannann síðan í nóvember í einni verslana sinna og segja stjórnendur reynsluna góða.

Stálu tvö hundruð tyggjóvélum

Áhugamenn um tyggigúmmí virðast hafa verið á ferðinni í þýska bænum Steinfurt í nótt. Þar brutust þjófar inn í birgðageymslu og höfðu á brott með sér 200 fullhlaðnar tyggjóvélar að sögn lögreglu bæjarins. Vélarnar og gúmmíið eru sögð vera 10 þúsund evra virði, andvirði 800 þúsunda íslenskra króna.

Enn einn Serbi gefur sig fram

Þeim fjölgar stöðugt sem gefa sig fram við stríðsglæpadómstólinn í Haag. Drago Nikolic, fyrrverandi liðþjálfi í serbneska hernum, gaf sig fram í dag, en hann er sjöundi Serbinn á tveimur mánuðum sem gefur sig fram. Hann var eftirlýstur fyrir að hafa verið einn skipuleggjenda fjöldamorðanna í Srebrenica í Bosníu árið 1994.

Sjá næstu 50 fréttir