Erlent

Jeríkó í höndum Palestínumanna

Palestínumenn tóku í gær við stjórn borgarinnar Jeríkó á Vesturbakkanum. Borgin er sú fyrsta af fimm sem Ísraelar ráðgera að afhenda palestínskum embættismönnum. Háttsettir embættismenn beggja þjóða þinguðu í allan gærdag um hvernig standa ætti að valdaskiptunum. Þegar ísraelskir hermenn tóku niður fána sinn við vegtálma fyrir utan borgina um hádegisbilið og Palestínumenn drógu sinn að húni þótti hins vegar táknrænum áfanga náð. Deilt var um hvort innsigla ætti samkomulagið með handabandi eða að það skyldi vera skriflegt en á endanum varð síðarnefnda tillagan ofan á. Samkomulagið gerir ráð fyrir að samgöngur til og frá borginni verði greiðari og auk þess verði 17 Palestínumenn teknir af lista Ísraela yfir eftirlýsta glæpamenn. Ef friðurinn helst munu bæirnir Tulkarem, Qualqiliya, Betlehem og Ramallah færast á næstunni undir palestínska stjórn. Afhending Jeríkó þykir styrkja Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, í sessi á meðal almennings og hefur glætt vonir manna um að friðarferlið sé komið á fullan skrið á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×