Erlent

Stjórnlagaþingið kemur saman

Stjórnlagaþing Íraka var sett í gær en þetta er í fyrsta sinn í hálfa öld sem þjóðkjörið þing kemur saman eftir frjálsar kosningar. Þótt mikill fögnuður hafi ríkt á meðal þingmanna varð samkoman að fara fram á græna svæðinu svonefnda undir afar strangri öryggisgæslu. "Við verðum að muna að á meðal okkar eru hvorki sigurvegarar né taparar. Annað hvort vinnum við öll eða töpum öll," sagði Ghazi al-Yawer, forseti bráðabirgðastjórnarinnar, við þetta tækifæri. Þingsetninguna bar upp á sama dag og efnavopnaárásina á kúrdíska bæinn Halabja fyrir sautján árum en þá dóu 5.000 manns. Stjórnarher Íraks stóð fyrir árásinni. Hlé hefur verið gert á stjórnarmyndunarviðræðum Kúrda og sjía vegna málefnaágreinings en gert er ráð fyrir að þær hefjist á ný í dag. Sprengjur sprungu víða í Bagdad í gær en ekki er vitað um manntjón af þeim sökum. Hins vegar létust fjórir í sjálfsmorðsárás í bænum Baqouba, skammt frá höfuðborginni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×