Fleiri fréttir

Játaði nauðgunartilraun á Austurvelli

Karlmaður hefur játað að hafa reynt að nauðga 19 ára gamalli stúlku á Austurvelli í Reykjavík um síðustu helgi. Maðurinn hefur játað sök. Hann hefur aldrei áður komið við sögu hjá lögreglu. Stúlkan var að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur aðfararnótt sunnudagsins þegar hún varð viðskila við vinahóp sinn. Nokkuð var þá liðið á nóttina, og fámenn orðið í bænum. Maðurinn réðist á stúlkuna þar sem hún var á gangi á Austurvelli en henni tókst að komast í burtu. Ofbeldismaðurinn, sem fæddur er 1981, ók því næst á brott en vegfarendur náðu niður bílnúmeri hans. Lögregla handtók manninn á heimili hans skömmu síðar. Stúlkan leitaði sér aðstoðar á neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á laugardag en rannsókn málsins er enn í fullum gangi.

Svandís leysir Katrínu af sem menntamálaráðherra

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, leysir af Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar hún fer í fæðingarorlof síðar í þessum mánuði. Þetta var samþykkt á þingflokksfundi Vinstri grænna fyrr í dag. Katrín mun í fyrsta lagi snúa aftur í október eða nóvember. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá því þann 20. apríl að mestar líkur væru á því að það kæmi í hlut Svandísar að leysa Katrínu af. Þannig verður engin endurnýjun í ráðherraliðinu þegar Katrín fer í fæðingarorlof.

Í gæsluvarðhaldi grunaður um tvær nauðganir

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um tvær nauðganir með um mánaðar millibili. Fyrri nauðgunin átti sér stað aðfararnótt föstudagsins langa en þá er hann sagður hafa neytt stúlku til þess að hafa samfarir við sig og félaga sinn. Hinn maðurinn var þessu mótfallinn en maðurinn skipaði honum að taka þátt og hótaði hann báðum barsmíðum ef þau létu ekki að óskum hans.

Hjólað í vinnuna - átakið hafið

Opnunarhátíð átaksins Hjólað í vinnuna var haldin samtímis í Reykjavík og á Akureyri í morgun. Í Reykjavík fór opnunin fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en Akureyri hittist fólk á Glerártorgi þar sem Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar flutti stutt ávarp. Á báðum stöðum var þátttakendum boðið að hjóla við og þiggja léttar veitingar. Að ávörpunum loknum hjóluðu gestir og þátttakendur svo átakið formlega af stað. Fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, Ísland á iði, stendur níunda árið í röð fyrir "Hjólað í vinnuna", heilbrigðri vinnustaðakeppni um allt land, dagana 4. - 24. maí. Landsmenn hafa tekið hvatningar- og átaksverkefninu "Hjólað í vinnuna" gríðarlega vel þar sem þátttakendum hefur fjölgað um rúmlega 1600% frá 2003. Nú þegar hafa 539 vinnustaðir skráð 1.126 lið með 7.008 liðsmönnum og munu þessar tölur halda áfram að aukast meðan líður á átakið. Markmið "Hjólað í vinnuna" Meginmarkmið "Hjólað í vinnuna" er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Fyrsta íslenska rannsóknin: 59% treysta barnaverndarnefndum

Starfsfólk barnaverndarnefnda getur vel við unað þegar kemur að trausti til nefndanna. Þetta er mat lektors í félagsráðgjöf á niðurstöðum rannsóknar á trausti almennings til barnaverndarnefnda. Samkvæmt niðurstöðum hennar bera 59% frekar mikið eða mjög mikið traust til barnaverndarnefnda. 23% bera frekar lítið eða mjög lítið traust til þeirra, en um 19% segjast hvorki bera lítið né mikið traust til þeirra.

Vilja takmarka ábyrgð flugfélaga eftir gosið í Eyjafjallajökli

Eldgosið í Eyjafjallajökli gæti orðið til að fólk fái flugmiða sína í framtíðina ekki bætta þó að ferðir falli niður vegna óveðurs eða náttúruhamfara. Þúsundir manna urðu strandaglópar eða komust ekki leiðar sinnar þegar gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli setti flugumferð á norðurhveli jarðar úr skorðum í tíu daga fyrir rúmu ári. Flugfarþegar í Evrópu gátu hins vegar stólað á reglur Evrópusambandsins sem kveða á um að flugfélög bæti farþegum innan Evrópu tjónið sem þeir verða fyrir vegna seinkana - og sömuleiðis farþegum sem eiga bókað flug með evrópskum flugfélögum til annarra heimsálfa. Flugfélögin voru hins vegar ekki sátt við þá ráðstöfnun og sögðu regluna setta til að bæta fólki upp um það bil sólarhringsseinkanir en ekki svo viðamikla truflun. Þetta kemur fram á breska fjármálafréttavefnum, This is money. En þar kemur einnig fram að nú íhugi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að takmarka ábyrgð flugfélaga þegar flugumferð truflast vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Og hvort setja eigi þak á bætur félaganna til farþega. Flugfélögin telja að ferðatryggingar eigi að bæta fólki upp tap vegna seinkana - það gæti hins vegar orðið flókið ef flugumferð raskast vegna til dæmis eldgosa því gjarnan eru náttúruhamfarir undanskildar í orðalagi tryggingaskilmála.

Fimm vilja grafa Vaðlaheiðargöng

Fimm hafa lýst yfir áhuga á að grafa Vaðlaheiðargöng og byggja tilheyrandi vegskála. Fleiri gætu bæst í hópinn, en frestur til að skila inn gögnum rann út síðdegis í gær Fyrirtæki sem hafa áhuga á að ráðast í þessa stórframkvæmd að grafa Vaðlaheiðargöng, byggja vegskála og leggja tilheyrandi vegi, höfðu frest fram til klukkan fjögur í gær til að taka þátt í forvali Vegagerðarinnar. Fimm hafa þegar skilað inn gögnum, þar af eitt íslenskt fyrirtæki. Hin fjögur eru samvinnuverkefni erlendra og íslenskra fyrirtækja. Allt eins er reiknað með að fleiri skili inn gögnum, því þeir sem sendu sín gögn í pósti með póststimpli fyrir klukkan fjögur í gær teljast hafa skilað á réttum tíma. Vaðlaheiðargöng verða ekki einkaframkvæmd líkt og Hvalfjarðargöng, því hlutafélagið sem stofnað var um Vaðlaheiðargöng er að meirihluta, eða 51 prósenti, í eigu ríkisins. Einkahlutafélagið Greið leið á 49%. Göngin verða þau breiðustu sem hér hafa verið grafin og verða heldur lengri en Hvalfjarðargöngin, eða 7,2 kílómetrar. Áætlaður kostnaður er 10,4 milljarðar. Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, verður nú farið yfir gögnin og þau fyrirtæki sem uppfylla öll skilyrði valin til að gera tilboð í framkvæmdina. Útboðið gæti farið fram í haust, ágúst eða september, segir G. Pétur og því gætu menn farið að grafa sig inn í Vaðlaheiðina strax seinni hluta ársins.

Næstu klukkustundir skipta sköpum í kjaraviðræðunum

Það ræðst á næstu klukkustundum hvort aðilum vinnumarkaðarins tekst að ná samkomulagi um kjarasamning til næstu þriggja ára og koma þannig í veg fyrir allsherjarverkfall. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir verkfall ávísun á meiri kreppu en nú sé áríðandi að vinna sig út úr kreppunni með atvinnuleiðinni Samningamenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins funduðu í allan gærdag og fram að miðnætti, en forystumenn í verkalýðshreyfingunni sögðu í gær að ef ekki næðust samningar í dag yrði farið að undirbúa boðun allsherjar verkfalls á almennum vinnumarkaði. Samningamenn settust aftur að samningaborði hjá Ríkissáttasemjara klukkan tíu í morgun og sagðist Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í morgun vonast til þess að nú væru menn að fara að ganga frá samningum. það hefði miðað vel áfram. Vilhjálmur segir menn tala saman á meðan viðræðum miði áfram eins og þær geri nú, eftir að snuðra hljóp á þráðinn fyrir rúmri viku. Að sjálfsögðu greindi menn á en allir vildu finna lausnir. Hann segir stjórnvöld þegar hafa skilað sínu inn í viðræðurnar en næstu klukkustundir gætu orðið langar.

Skoða áhrif niðurskurðar á starfsemi kirkjunnar

Setja á starfshóp kirkjunnar og innanríkisráðuneytisins á laggirnar sem meta á hvaða áhrif niðurskurður hefur haft á starfsemi kirkjunnar og hverjar afleiðingarnar yrðu ef haldið verður áfram á þeirri braut. Þetta kom fram í ávarpi innanríkisráðherra við setningu prestastefnu í gærkvöldi. Ögmundur Jónasson sagði í ávarpi sínu að því miður sæi ekki enn fram úr þeim þrengingum sem við væri að stríða og enn væri boðað aðhald á komandi ári. Með því að skipa starfshóp til að meta þessi áhrif væri hann að bregðast við ákalli biskups sem lýst hafi þungum áhyggjum af fjárhagsstöðunni í formlegu erindi til ráðuneytisins. Ráðherra kvaðst vera meðvitaður um ábyrgð sína sem hluti framkvæmda- og fjárveitingavalds. ,,Mitt hlutverk er meðal annars að halda til haga hagsmunum skattreiðenda og ríkissjóðs en við sem höfum þetta verkefni með höndum þurfum jafnframt að vera meðvituð um afleiðingar gerða okkar," sagði ráðherra. Þá sagði ráðherra kirkjuna og stjórnmálin eiga margt sameiginlegt og kvað hann stjórnmálalífið ekki síður standa á krossgötum en kirkjan teldi sig gera. Margt benti til þess að stofnanakerfið, stjórnmálaflokkarnir myndu meira og minna riðlast á nýrri lýðræðisöld. Hann sagði þá samstöðu sem fólk vildi sjá snúa að markmiðum og boðskap en ekki stofnunum, fólk myndi spyrja hver eru markmiðin og boðskapurinn en ekki í hvaða flokki ertu eða hvaða stofnun heyrir þú til. Það verði siðbótarkrafan í íslensku stjórnmálalífi á nýrri öld og í samfélaginu almennt og muni hún án efa einnig taka til kirkjunnar sem stofnunar. Ávarp ráðherra má lesa í heild sinni með því að smella hér. http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2011/Prestastefna-3.-mai.doc

Tvær undanþágur veittar vegna reglna á sundstöðum

Umhverfisráðuneytinu hefur fengið tvær umsóknir um undanþágur vegna reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum sem tóku gildi um áramót. Báðar undanþágurnar voru veittar, tímabundið og með skilyrðum. Ungmennafélagið Þróttur í Vogum sótti um undanþágu vegna ungs aldurs sundþjálfara. Í erindi sem félagið sendi ráðuneytinu í janúar kemur fram að Þróttur hafi gert árs samning við þjálfara fæddan 1994. Hann hafi þjálfað tvo flokka í sundi, 6 til 9 ára og 10 til 14 ára. Í yngri hóp eru fjögur börn en tíu í þeim eldri. Í rökstuðningi Þróttar segir að samningurinn sé bindandi fyrir báða aðila og slæmt ef segja þurfi honum upp. Auk þess sé starf þjálfarans í umsjá framkvæmdastjóra félagsins og reynds sundþjálfara. Umboðsmaður barna og Vinnueftirlitið veittu umsögn Ráðuneytið sendi erindið til umsagnar hjá Umhverfisstofnunar, sem meðal annars óskaði álits Umboðsmanns barna og Vinnueftirlits ríkisins. Umboðsmaður barna taldi að það gæti verið rétt að veita undanþágu þar sem umræddur þjálfari hafi reynst vel og að hann hafi þegar verið ráðinn til starfa, en mikilvægt að fullorðinn aðili hafi yfirumsjón með starfinu. Í áliti Vinnueftirlitsins eru ekki gerðar athugasemdir við að þjálfari yngri en 18 ára sinni þessu verkefni ef tryggt er að öryggisgæsla sé í höndum fullorðins aðila. Ráðuneytið veitti Þrótti því undanþáguna. Hún er bundin þeim skilyrðum helstum um að fullorðinn einstaklingur hafi yfirumsjón með sundkennslunni og að foreldrum barnanna sé gerð grein fyrir fyrirkomulaginu. Hin undanþágan sem umhverfisráðuneytið veitti vegna þeirrar reglugerðar sem tók gildi um áramót var veitt Fjarðabyggð. Vísir greindi frá því í lok síðasta mánaðar að Fjarðabyggð hefði fengið undanþágu frá þeirri reglu að gæslumaður í sundlaug sinni ekki afgreiðslustörfum samhliða. Fjarðabyggð óskaði eftir og fékk undanþágu frá þessari reglu í sundlaugunum á Eskifirði, Norðfirði og Stöðvarfirði, á þeim tímum þegar aðsókn er sem minnst í laugarnar. Miðað við 10 ára afmælisdaginn Þá óskaði Fjarðabyggð eftir því að ráðuneytið gerði breytingar á reglugerðinni að því er varðar aðgengi 10 ára barna að sundstöðum. Börn þurfa að vera orðin tíu ára til að mega fara ein í sund. Í reglugerðinni er miðað við fæðingardag en Fjarðabyggð lagði til að miðað yrði við fæðingarár. Ráðuneytið veitti hins vegar ekki undanþágu frá reglum um aldursviðmið, en þess er krafist að börn þurfi að vera orðin 10 ára til að fara ein í sund. Fjarðabyggð hafði óskað eftir því að miðað væri við árið sem börnin verða 10 ára en ekki fæðingardaginn, eins og reglugerði segir til um. Ráðuneytið hafnaði þeirri beiðni, en í eldri reglugerð var miðað við átta ára aldur. Umræddar undanþágur eiga við reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum sem tók gildi 1. janúar 2011.

Fundur hafinn hjá ríkissáttasemjara

Fundarhöldum var fram haldið hjá ríkissáttasemjara klukkan tíu í morgun. Aðilar vinnumarkaðarins funduðu fram á miðnætti í gærkvöldi og er jafnvel reiknað með að skrifað verði undir kjarasamninga um laun á almennum vinnumarkaði síðar í dag.

Gjaldþrot einstaklinga færri en fyrir hrun

Fjöldi gjaldþrotaúrskurða á búum einstaklinga hefur ekki fjölgað eftir hrun. Gjaldþrotum fjölgar lítillega milli áranna 2009 og 2010, þegar þeim fjölgaði úr 112 í 139. Árið 2008, sama ár og bankakerfi Íslands hrundi, voru gjaldþrotaúrskurðir 201. Þetta kemur fram í tölum sem Umboðsmaður skuldara fékk frá Dómstólaráði og birtir á vef sínum. Frá og með árinu 2000 eru flestir gjaldþrotaúrskurðir það sama ár, eða 478. Frá árinu 2005 er það aðeins árið 2008 sem gjaldþrotin fara yfir 200. Fæst gjaldþrotin eru hins vegar ári síðar, 2009. Frá 1. janúar til 27. apríl 2011 voru 51 bú einstaklinga tekin til gjaldþrotaskipta. Á vef umboðsmanns skuldara segir að ef tíðni úrskurða verður svipuð á næstu tveim ársþriðjungum má búast við að fjöldi gjaldþrotaúrskurða verði aðeins fleiri en árið 2010, en svipaður og var árið 2007. Sjá nánar á vef umboðsmanns skuldara.

Opnar pylsuvagn við Hvalfjarðargöngin

"Ég er pylsuáhugamaður í grunninn þó ég hafi starfað við ýmislegt annað," segir Arnþór Gylfi Árnason sem opnar pylsuvagn, eða réttara sagt pylsubíl, við Hvalfjarðargöngin síðar í þessum mánuði. Gylfi er búsettur í Borgarnesi og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Tourist Online ehf. sem hefur fengið leyfi til að selja pylsur við göngin. "Mér finnst þessi staðsetning mjög góð. Ég starfa í ferðamannabransanum og þessi staður er gáttin inn á Vesturland," segir Gylfi. Pylsubíllinn verður staðsettur á plani við þjóðveg 1, rúma hundrað metra frá hringtorginu við nyrðri muna Hvalfjarðarganganna. Samkvæmt aðalskipulagi hefur Olíuverzlun Íslands hf. allan rétt til þjónustustarfsemi á svæðinu næstu áratugina, en Arnþór hefur samið við fyrirtækið um reksturinn. Þá hefur hann þegar fengið leyfi frá öllum öðrum sem þessu við koma, svo sem Hvalfjarðarsveit, Vegagerðinni og heilbrigðiseftirlitinu. "Þetta er bara allt að verða klárt," segir Arnþór. Í pylsubílnum verða einnig hægt að kaupa kaffi og aðrar veitingar. "Fyrst og fremst verða þetta samt pylsur. Því Íslendingar borða pylsur. Alltaf!" segir Arnþór. Hann stefnir sjálfur á að afgreiða reglulega í pylsubílnum þó hann komi einnig til með að ráða til sín starfsfólk. Síðan segir hann aldrei að vita nema reksturinn komi til með að stækka ef viðskiptin blómstra við þjóðveginn.

Verkalýðsforkólfur fékk afabarn 1. maí

„Lítil maístjarna er fædd,“ segir Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforkólfur á Akranesi, sem mun seint gleyma 1. maí þetta árið. Erfið staða á vinnumarkaði og yfirvofandi verkföll eru ekki ástæðan heldur lítil stúlka sem fæddist á fæðingardeildinni á Akranesi þá um morguninn. Stúlkan er þriðja barnabarnið hans en sonur Vilhjálms, Óttar Örn, og kona hans, Íris Gefnardóttir, bættu við fríðan hóp barna og barnabarna Vilhjálms og eiginkonu hans, Þórhildar B. Þórisdóttur, á sjálfan baráttudag verkalýðsins.

Líf og fjör á sumarveiðunum

Grunnslóðin nánast allt í kring um landið er full af smábátum á veiðum en sumarvertíð þeirra hófst í gær og komu 76 tonn af óslægðum fiski að landi þennan fyrsta dag samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu.

Herjólfur siglir til Landeyjahafnar í dag

Breytingar verða á áætlun Herjólfs í siglingum milli lands og eyja í dag. Fyrsta ferð Herjólfs frá Vestmannaeyjum er klukkan 7:30 og siglt verður til Þorlákshafnar og aftur til Vestmannaeyja frá Þorlákshöfn klukkan 11:15.

Bjartsýnir á nýjan kjarasamning í dag

Skriður komst á kjaraviðræður í gærdag og var fundað í flestum herbergjum í húsakynnum Ríkissáttasemjara fram til miðnættis. Menn voru bjartsýnir á að hægt verði að skrifa undir nýja kjarasamninga eftir hádegi í dag, en fundir hefjast á ný klukkan eitt.

BBC 4 sýnir Næturvaktina í næstu viku

Breska sjónvarpsstöðin BBC 4 mun hefja sýningar á Næturvaktinni í næstu viku. Gert er ráð fyrir því að fyrsti þátturinn verði sýndur á mánudag, eftir því sem fram kemur á vef BBC.

Hlýindi breyta fuglalífinu

Ef fram fer sem horfir gætu loftslagsbreytingar haft í för með sér miklar sviptingar í fuglalífi á næstu árum. Nýjar fuglategundir gætu bæst við en aðrar horfið. Þetta segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Síldin horfin úr Grundarfirði

Íslenska vorgotssíldin er horfin úr Grundarfirði en nótaskipið Jóna Eðvalds kannaði hversu mikið magn af síld væri í firðinum og hversu útbreidd sýkingin í henni væri, að sögn Skessuhorns. Í ljós kom að síldin er nánast horfin og því verða engar vorveiðar á síld eins og jafnvel stóð til.

Þurfum að vanda betur orð og athafnir

„Sú mikla skerðing sóknargjalda og framlaga sem þjóðkirkjan hefur þurft að mæta frá hruni er farin að hafa veruleg áhrif á þjónustu kirkjunnar um allt land. Það er mikið áhyggjuefni,“ sagði séra Karl Sigurbjörnsson biskup í gærkvöld í setningarræðu á prestastefnu 2011.

Gera samninga um starfsnám

Lagadeild Háskólans á Akureyri hefur gert samstarfssamning við embætti Sýslumannsins á Akureyri, Héraðsdóm Norðurlands eystra og stjórnsýsludeild Akureyrarbæjar um tímabundið starfsnám laganema.

Lítil aðstoð í seinkun á flugi

Helmingur þeirra sem tóku þátt í könnun Neytendasamtakanna og Evrópsku neytendaaðstoðarinnar um réttindi flugfarþega sagðist fara til útlanda með flugi einu sinni til tvisvar á ári.

Um 160 manns gengu á Mosfell

Metþátttaka var í morgungöngu Ferðafélags Íslands í gærmorgun þegar um 160 manns gengu á Mosfell í Mosfellsdal. Göngumenn lögðu upp í góðu veðri klukkan rúmlega sex árdegis.

Tvö þúsund hafa fengið endurhæfingu

Tvö þúsund manns höfðu um síðustu mánaðamót leitað til Starfsendurhæfingarsjóðs, VIRKS, frá því að ráðgjafar á vegum sjóðsins hófu að veita markvissa þjónustu haustið 2009.

Breytingar á ferðum Herjólfs á morgun

Fyrsta ferð Herjólfs frá Vestmannaeyjum er klukkan 7:30 á morgun og siglt verður til Þorlákshafnar og aftur til Vestmannaeyja frá Þorlákshöfn klukkan 11:15. Önnur ferð Herjólfs verður farin frá Vestmannaeyjum klukkan 16:00 í Landeyjahöfn og aftur til Vestmannaeyja klukkan 17:40.

Reka ísbjarnahótel í Manitoba

Ísbjarnardráp, eins og á Hornströndum í gær, myndi kalla á lögreglurannsókn á Svalbarða og líklega leiða til ákæru. Íslenskur þyrluflugmaður, sem fangað hefur sexhundruð ísbirni í Kanada, segir einfalt að ná þeim lifandi. Í Manitoba eru vandræðabirnir settir á ísbjarnahótel.

Tökur á Heimsendi hefjast í júní

Tökur á nýjum framhaldsþáttum í leikstjórn Ragnars Bragasonar, Heimsendi, hefjast í byrjun júní og standa fram á verslunarmannahelgi. Að því tilefni hafa aðstandendur þáttanna ákveðið að auglýsa eftir aukaleikurum í þættina.

Nýr kjarasamningur í nótt

Búist er við að nýir kjarasamningar til þriggja ára náist í kvöld eða nótt. Sáttatónn er í forsvarsmönnum Samtaka Atvinnulífsins og Alþýðusambandsins sem nú funda í Karphúsinu.

Kallaði á lögreglu vegna flakkara

Lögreglan var kölluð að húsi á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld eftir að tilkynning barst um innbrot. Á vettvangi voru engin sjáanleg merki um innbrot en tilkynnandi, sem jafnframt var húsráðandi, var þó viss í sinni sök þegar hann tilkynnti um glæpinn. Málavextir voru þeir að einhver hafði stolið svokölluðum flakkara úr íbúðinni. Tækið var hinsvegar fundið þegar lögreglan kom á staðinn og reyndist ekki hafa verið stolið því það fannst í stofusófanum á heimilinu.

Vill minnast 25 ára afmælis leiðtogafundarins

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill að borgarstjórn Reykjavíkur standi fyrir viðburðadagskrá í tilefni af því að í október er aldarfjórðungur liðinn frá leiðtogafundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjoffs, leiðtoga Sovétríkjanna, í Reykjavík. Samkvæmt tillögu sem Kjartan lagði fram á borgarstjórnarfundi í dag verður borgarráði falið að skipa starfshóp til að annast verkefnið.

Vilja rannsaka tíðari komur hvítabjarna

Umhverfisráðherra hefur óskað eftir greinargerð frá Náttúrufræðistofnun Íslands í samvinnu við Umhverfisstofnun, Veðurstofuna og aðra hlutaðeigandi aðila um hugsanlegar orsakir aukinnar tíðni komu hvítabjarna hingað til lands.

Rottweilertíkinni Chrystel rænt úr vörslu lögreglu

Lögreglan á Selfossi rannsakar nú hvarf á rottweilertíkinni Chrystel sem var í haldi lögreglunnar eftir að hafa bitið konu í Hveragerði 4. mars síðastliðinn. Í tilkynningu frá lögreglu segir að tíkin hafi verið í haldi á viðurkenndu hundahóteli á Arnarstöðum í Flóa. "Þar átti tíkin að vera þar til fyrir lægi niðurstaða stjórnsýslukæru sem eigandi lagði fram. Af verksummerkjum að dæma er sterkur grunur um að tíkin hafi verið numin á brott,“ segir ennfremur.

Elsa nýr forseti borgarstjórnar

Elsa Hrafnhildur Yeoman var kjörin forseti borgarstjórnar á borgarstjórnarfundi sem nú stendur yfir. Björk Vilhelmsdóttir var kjörin 1. varaforseti og 2. varaforseti Óttarr Ólafur Proppé.

Krufning í morgun: Bráðabirgðaniðurstaða leiðir ekkert nýtt í ljós

Bráðabirgðaniðurstaða krufningar á ungri stúlku sem lést á laugardagsmorguninn eftir að hafa neytt fíkniefna hefur ekki varpað frekara ljósi á dánarorsök hennar. Allt að þrjár vikur eru þar til niðurstöður lyfjarannsóknar liggja fyrir en óskað hefur verið eftir flýtimeðferð. Talið er að stúlkan hafi látist af ofskammti fíkniefna, og beinist rannsókn lögreglu meðal annars að því hvort andlát stúlkunnar megi rekja til þess að hún hafi neytt svokallaðs PMMA-amfetamíns. Stúlkan var krufin í morgun. Björgvin Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að blóð- og þvagsýni hafi verið send til til flýtimeðferðar vegna lyfjarannsóknar en almennt taki slík rannsókn allt að þremur vikum. Lögreglan lagði einnig hald á fíkniefni þar sem stúlkan fannst látin, og verða þau sömuleiðis efnagreind. Amfetamín með PMMA fannst í fyrsta sinn á Íslandi í apríl en grunur leikur á að efnið hafi átt þátt í dauða ungmenna í öðrum löndum. Tugir manna hafa verið handteknir í þágu rannsóknarinnar og er hún enn í fullum gangi.

Setja milljónir í framkvæmdir á ferðamannastöðum

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að veita 41,9 milljónum til brýnna framkvæmda nú í vor og sumar á friðlýstum svæðum sem jafnframt eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna.

Forseti Slóveníu á Bessastöðum

Opinber heimsókn forseta og forsetafrúar Slóveníu til Íslands hófst á Bessastöðum klukkan hálf þrjú. Forseti Slóveníu, dr. Danilo Türk, og eiginkona han,s frú Barbara Miklic Türk, munu dvelja hér í tvo daga. Með forsetanum koma þrír ráðherrar í ríkisstjórn Slóveníu, frú Darja Radic efnahagsráðherra, frú Irma Pavlinic Krebs, ráðherra opinberrar stjórnsýslu, og Roko Žarnic umhverfis- og skipulagsmálaráðherra auk embættismanna. Þá fylgja forseta Slóveníu viðskiptasendinefnd, með fulltrúum ríflega 20 slóvenskra fyrirtækja, og blaðamenn. Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum tóku íslensku forsetahjónin ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum á móti hinum erlendu gestum. Í kjölfarið fylgir viðræðufundur forseta landanna. Þeir munu síðan ræða við blaðamenn klukkan rúmlega hálf fjögur. Frá Bessastöðum heldur forseti Slóveníu í heimsókn til Alþingis. Þar verður hann ávarpaður úr forsetastóli en síðan munu forsetinn og ráðherrar eiga fund með fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi og forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hinir slóvensku ráðherrar munu jafnframt eiga sérstaka fundi með íslenskum starfsbræðrum sínum síðdegis þriðjudaginn 3. maí. Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bjóða forseti Íslands og forsetafrú til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Slóveníu og forsetafrú. Þetta kemur fram á vef forsetaembættisins. Heimsóknardagana mun forsetafrú Slóveníu meðal annars heimsækja Hönnunarsafn Íslands, vinnustofur ungra listamanna, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi og handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu.

SA ítreka samningsvilja

Stjórn Samtaka atvinnulífsins ákvað á fundi nú í hádeginu að láta enn á ný reyna á vilja Alþýðusambands Íslands og landssambanda þess til að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings á svipuðum forsendum og áður. SA munu því hitta viðsemjendur sína á fundi í dag kl. 15 hjá ríkissáttasemjara til að freista þess að ljúka gerð nýs kjarasamnings á almennum vinnumarkaði. Framkvæmdastjórn SA lýsti því yfir á föstudag að samtökin telji mikilvægt að skapa fyrirtækjum landsins starfsöryggi og frið. Undanfarna mánuði hafa Samtök atvinnulífsins og ASÍ og landssamböndin unnið að gerð þriggja ára kjarasamnings sem byggir á atvinnuleiðinni. Með henni er sköpuð ákveðin framtíðarsýn þar sem áherslan er lögð á hagvöxt, öruggt og tryggt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar, aukningu kaupmáttar og að draga úr atvinnuleysi. Til þess að ná þessu fram var aðkoma ríkisstjórnarinnar nauðsynleg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA. Þegar viðræðum um kjarasamning var slegið á frest fyrir páska lá fyrir grunnur að kjarasamningi aðila en út af stóðu nokkur mál sem ræða þurfti nánar við ríkisstjórnina. Á fimmtudagskvöld í síðustu viku bárust ný drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Að mati SA var þar komið að nokkru til móts við sjónarmið samtakanna um auknar framkvæmdir í hagkerfinu auk þess sem sett var fram ákveðin bókun um meðferð frumvarps um sjávarútvegsmál. Ljóst er að ríkisstjórnin er óbundin af yfirlýsingunni náist ekki kjarasamningar til þriggja ára.

Strætó reynsluekur tvinnvagni næsta mánuðinn

Strætó bs. mun næsta mánuðinn prófa tvinnvagn í fyrsta sinn við íslenskar aðstæður. Tilgangurinn með tilraunaakstrinum er að meta hvort slíkir vagnar séu raunhæfur valkostur fyrir Strætó bs., sem stendur frammi fyrir töluverðri endurnýjunarþörf vagnakosts og leitar jafnframt leiða til að gera vagnaflotann umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri. Á næstu árum þarf Strætó að endurnýja 7-8 vagna árlega. Strætó bs. stefnir að því að rekstur strætisvagnakerfisins verði umhverfisvænni og leitar leiða til að nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Um leið skiptir miklu að vagnarnir séu hagkvæmir í innkaupum og rekstri. Valkostum í visthæfum orkugjöfum hefur fjölgað síðustu ár og má til að mynda nefna vetni, metangas og rafmagn í því sambandi auk þess sem tvinntækni hefur í sumum tilvikum reynst vel til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Í tilkynningu frá Strætó bs. segir að hver þessara valkosta hefur kosti og galla í för með sér og mikilvægt er að gera ítarlegar prófanir á þeim við íslenskar aðstæður áður en tekin er ákvörðun um vagnakaup. Með prófun Strætó á tvinnvagninum er metið hversu vel hann geti hentað á íslenskum strætóleiðum og er sérstaklega fylgst með eldsneytisnotkun auk þess sem fleiri þættir eru metnir. Tvinnvagninn er af gerðinni Volvo 7700 Hybrid og fær Strætó bs. hann að láni frá Volvo í samvinnu við Brimborg. Vagninn gengur bæði fyrir raforku og dieselolíu og segja framleiðendur að með honum megi draga úr eldsneytisnotkun um allt að 30%, auk þess sem útblástur sé um 40-50% minni frá slíkum vagni en hefðbundnum diesel-vögnum. Þar sem vagninn vinnur rafmagn úr bremsum og nýtir það bæði til að taka af stað og við hægan akstur þykir hann henta best á strætóleiðum þar sem hægt er ekið og oft þarf að stöðva. „Það er spennandi að fá tækifæri til að prófa tvinntæknina hér á landi og verður áhugavert að sjá hvernig vagninn stendur sig í samanburði við aðra kosti. Það er hröð þróun í framleiðslu visthæfra vagna um þessar mundir og ljóst að í framtíðinni verðum við minna háð jarðefnaeldsneyti en verið hefur. Við hjá Strætó bs. fylgjumst að sjálfsögðu mjög vel með þessari þróun og leitum að þeirri samsetningu strætisvagnaflotans sem er í senn eins umhverfisvæn og hagkvæm í rekstri og kostur er," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó

Verkföll blasi við bjóði SA ekki betur

Formaður Starfsgreinasambandsins segir að ákveða verði tímasetningu verkfalls trax á morgun eða í síðasta lagi á fimmtudag. Ef Samtök atvinnulífsins hafi ekkert nýtt fram að bjóða á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag, blasi verkfallsleiðin við.

Pabbamorgnar á fjölskyldukaffihúsi

Fjölskyldukaffihúsið Fjallkonubakarí fer af stað með pabbamorgna í fyrramálið, miðvikudaginn 4. maí. Feður eru þá boðnir sérstaklega velkomnir með börnin sín, föndurkörfur verða á borðum og geta feður þá átt gæðastund með sínu barni og komist í kynni við aðra feður. Lára Guðrún Jóhönnudóttir, eigandi Fjallkonubakarís, segist hafa fengið góð viðbrögð við pabbamorgnunum. Ætlunin er að þeir verði alla miðvikudagsmorgna. Lára Guðrún segir að vissulega komi bæði mæður og feður á kaffihúsið með börnin sín. Hún bendir þó á að kaffihúsið Hljómalind, sem var þarna áður til húsa, hafi verið með sérstaka pabbamorgna sem nutu mikilla vinsælda, og því hafi blasað við að koma þeim aftur í gagnið. Fjallkonubakaríið var opnað á Laugavegi 23 í Reykjavík, skömmu fyrir síðustu jól, og var það yfirlýst stefna frá upphafi að fjölskyldufólk gæti þar komið saman. Boðið er upp á hefðbundnar kaffihúsaveitingar, auk þess sem hægt er að fá grænmetismauk fyrir þau allra yngstu. Inn af kaffihúsinu er síðan leiksvæði þar sem börnin geta leikið sér á meðan foreldrarnir spjalla. Fjallkonubakaríið er með Facebook-síðu sem má sjá hér. http://www.facebook.com/fjallkonubakari

Sjá næstu 50 fréttir