Fleiri fréttir

Viðræður um varnarsamstarf í fullum gangi

Viðræður um varnarsamstarf Íslands og Danmerkur hófust í Kaupmannahöfn í morgun og verður fram haldið í Reykjavík í febrúar. Fundað verður um varnarsamstarf með Norðmönnum á morgun og á næsta ári síðan rætt við Breta og Kanadamenn.

Leynd aflétt af svartri skýrslu um Byrgið

Svört skýrsla um fjármál og rekstur Byrgisins sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið fyrir fimm árum, hefur aldrei komið formlega fyrir sjónir fjárlaganefndar Alþingis.

Vilja heimild til að innheimta skólagjöld

Rektor Háskólans á Akureyri vill fá heimild til að innheimta skólagjöld, samhliða hefðbundnum rekstri með fjárveitingum frá ríkinu. Um einsdæmi yrði að ræða í íslensku skólakerfi.

Deilt um hvort úrskurður ógildi rannsókn

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að bæði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Jón H.B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar, væru vanhæfir og skyldu víkja sæti við rannsókn á meintum skattalagabrotum fimm manna tengdum Baugi. Lögmaður eins fimmmenninganna telur úrskurðurinn ónýta rannsóknina en því er dómurinn ekki sammála.

Guðmundur í Byrginu látið af störfum

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hefur látið af störfum meðan rannsókn fer fram á málefnum Byrgisins. Hann kærði fréttaskýringaþáttinn Kompás til lögreglu í dag. Ekkert opinbert eftirlit er með meðferðarheimilum og getur hver sem er stofnað þau. Guðmundur, og menn á hans vegum, hafa undanfarin misseri verið umsvifamiklir lóðakaupendur í Grímsnesi.

Millilandaflug lamast ekki þrátt fyrir skort á flugumferðarstjórum

Forstjóri Flugstoða segir að millilandaflug muni ekki lamast þótt um sextíu flugumferðarstjórar hafi ekki nýtt lokafrest til að ráða sig hjá fyrirtækinu, sem tekur til starfa um áramótin. Til greina kemur að ráða flugumferðarstjóra erlendis frá ef á þarf að halda.

Snjóflóð féll á Ólafsfjarðarveg

Verið er að hreinsa Ólafsfjarðarveg en snjóflóð féll fyrir stundu við Sauðanes. Engan sakaði. Lögreglan á Ólafsfirði segir rok og rigningu á staðnum en vegurinn verður lokaður næsta hálftímann meðan verið er að klára að hreinsa hann.

Fékk sautján mánaða skilorðsbundinn dóm

Tuttugu og þriggja ára karlmaður var í dag dæmdur í sautján mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir vörslu á lítilræði af hassi. Dómurinn er skilorðsbundinn en með broti sínu rauf maðurinn fyrra skilorð.

Sextán mánuði fyrir vörslu á fíkniefnum

Karlmaður var í dag dæmdur í sextán mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið, fyrir vörslu á rúmlega 970 grömmum af amfetamíni og um ellefu kílóum af hassi, kannabislaufum og kannabisstönglum. Efnin voru ætluð til sölu.

Byrgið ætlar í meiðyrðamál

Forsvarsmenn meðferðarheimilisins Byrgisins ætla að höfða meiðyrðamál fyrir dómstólum gegn Stöð 2 vegna umfjöllunar sjónvarpsþáttarins Kompás í gærkvöldi um Guðmund Jónsson, forstöðumann heimilisins. Hilmar Baldursson, héraðsdómslögmaður, sagði í samtali við fréttastofuna í dag, að hann myndi væntanlega á morgun leggja fram kæru á stöðina fyrir hönd stjórnar Byrgisins.

Sælla að gefa en þiggja

Sælla er aðgefa en þiggja eru gömul sannindi og ný sem 11 ára börn í Kársnesskóla í Kópavogi ákváðu að fylgja í dag. Í stað þess að skiptast á gjöfum á litlu jólunum, ákáðu þau að gefa þeim sem minna mega sín jólagjafir í staðinn. Þau fóru í Kringluna með 70 jólapakka sem þau settu undir jólatré Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar Íslands.

Starfsmannavelta fyrirtækja eykst

Starfsmannavelta fyrirtækja hér á landi á árinu 2005 var 14,2% en það samsvarar því að sjöundi hver starfsmaður fyrirtækjanna hafi skipt um starf. Starfsmenn við vinnu hér á landi voru fjarverandi í tæplega 10 daga að meðaltali á árinu 2005 vegna veikinda eða slysa.

Jón HB Snorrason og Haraldur Johannessen úrskurðaðir vanhæfir

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur tók varakröfu Baugsmanna til greina þegar hann úrskurðaði fyrir stuttu, að Jón HB Snorrason, saksóknari og yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, væru vanhæfir til að fara með rannsókn á meintum skattalagabrotum þeirra. Aðalkröfu Baugsmanna, sem var að rannsókninni yrði hætt þar sem hún væri ólögmæt, var hins vegar hafnað.

Samtök eigenda sjávarjarða stefna íslenska ríkinu

Samtök eigenda sjávarjarða hafa höfðað má á hendur íslenska ríkinu vegna deilna um eignar- og nýtingarrétt á jörðum. Um er að ræða jörðina Horn I í Hornafirði og er eigandi hennar, Ómar Antonsson, stefnandi í málinu en hann er jafnframt formaður Samtaka eigenda sjávarjarða.

Vilja hefja frumhönnun á Öskjuhliðargöngum á næsta ári

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar vilja að frumhönnun á Öskjuhliðargöngum og stokkalausn á Miklubraut verði hafin samhliða umhverfismati á Sundagöngum á næsta ári og að fasteignaskattar og holræsagjald verði lækkað.

Gáfu 70 jólapakka í söfnun Mæðrastyrksnefndar

Það hefur verið til siðs á litlu jólum í flestum skólum að börn skiptist á jólagjöfum. Ellefu ára börnum í Kársnesskóla fannst þau hins vegar þau fá nóg af gjöfum um jólin og ákváðu að gefa frekar gjafir til þeirra sem minna mega sín.

Netsamband á að haldast eðlilegt þrátt fyrir bilanir

Vesturhluti CANTAT-þrjú,sæstrengsins á milli Íslands og Kanada bilaði aftur í morgun eftir bráðabirgðaviðgerð í gærkvöldi. Netsamband við útlönd á þó að haldast í nokkurn veginn eðlilegu horfi ef engar frekari bilanir verða.

Umfjöllun Kompáss ekki næg ástæða til rannsóknar

Umfjöllun Kompáss um Byrgið er ekki næg ástæða til sérstakrar rannsóknar segir sýslumaðurinn á Selfossi. Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir og læknir Byrgisins, segir þær ásakanir sem fram komu í þættinum í gær, vera reiðarslag.

Fær ekki bætur fyrir að hafa runnið á blautu gólfi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Bónus og Sjóvá af skaðabótakröfum manns sem rann til á gólfi Bónuss í Spönginni fyrir sex árum. Maðurinn var starfsmaður Bónuss og dag einn þegar hann kom til vinnu rann hann á blautu gólfi verslunarinnar og skall niður á annað hnéð.

Slys á nákvæmlega sama stað á Eyrarbakkavegi

Umferðarslys varð á nákvæmlega sama stað á Eyrarbakkavegi á þriðjudaginn var og í morgun. Eins og greint var frá í fréttum fyrr í morgun skemmdust fólksbíll og pallbíll mikið eftir að þeir rákust saman til móts við afleggjarann að Stokkseyrarseli.

Flughált frá Skógum að Lómagnúpi

Vegagerðin varar við flughálku frá Skógum undir Eyjafjöllum að Lómagnúpi og segir hálku víða á Suðurlandi. Þá er þoka á Hellisheiði en á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir.

Viðræður við Dani halda áfram í febrúar

Forviðræðrum um varnarsamstarf við Dani lauk í Kaupmannahöfn í morgun en þangað fór sendinefnd á vegum íslenskra stjórnvalda undir forystu Grétars Más Sigurðssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.

Rætt um hugsanlegar bótakröfur á hendur olíufélögunum

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur vísað tillögu minnihluta bæjarstjórnar um að bæjarfélagið krefji stóru olíufélögin um bætur vegna samsráðs þeirra til bæjarráðs. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.

Bið á framboði

Ekki náðist samkomulag um stofnun félags um þingframboð eldri borgara á fjölmennum fundi á Hótel Borg í dag. Ákveðið var að fresta afgreiðslu þeirra tillagna sem lagðar voru fyrir fundinn í dag. Skipuð var þriggja manna nefnd til að vinna áfram með málið og boðað til fundar aftur í janúar.

Flugdólg hent úr vél í Halifax

Íslenskur karlmaður, sem lét ófriðlega í flugvél á leið frá Kúbu til Íslands í gær, var skilinn eftir ásamt konu sinni í Halifax í Kanada. Maðurinn mun hafa angrað áhöfn og farþega og barið konu sína þegar hún reyndi að róa hann.

Makalausar veislur til vandræða

Jólin eru hátíð ljóss og friðar en á aðventunni hafa prestar í nógu að snúast við að hjálpa pörum sem rata í vanda. Makalaus vinnustaðapartí koma þar við sögu.

Ungir ökumenn orsaka fjölda banaslysa

Ungir ökumenn eiga stóran þátt í alvarlegustu umferðarslysunum sem orðið hafa á þessu ári. Upplýsingafulltrúi Umferðarstofu kallar eftir ábyrgð foreldra í þessum efnum. Þrjátíu manns á aldrinum fimm til áttatíu og átta ára hafa látist í 27 umferðarslysum það sem af er árinu 2006. Þetta er mesti fjöldi banaslysa síðan árið 2000 þegar 32 létust.

Óttuðust stórslys

Hluta miðbæjarins í Vestmannaeyjum var lokað í gærkvöld þegar eldur kviknaði í Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins. Ediksýra í tonnavís var geymd í húsinu og óttuðust menn mjög að stórslys hlytist af.

Tvö vinnuslys á Kárahnjúkum í gær

Ekkert lát virðist vera á vinnuslysum við Kárahnjúka, en tvö slys urðu þar í gær. Vinnueftirlitið vill stöðva framkvæmdir þar til búið er að gera úrbætur í öryggismálum. Fyrra slysið í gær varð með þeim hætti að kínverskur verkamaður fékk ofan á sig steypuklump þar sem verið var að steypusprauta göng, en síðan féll maður niður úr stiga. Hvorugur er alvarlega slasaður en báðir voru fluttir á sjúkrahús.

Eldri borgarar ræða framboð

Fjölmennur fundur vegna mögulegs framboðs eldri borgara fyrir Alþingiskosningarnar á næsta ári stendur nú á Hótel Borg. Tillaga að framboði eldri borgara var samþykkt með miklum meirihluta á fundi Félags eldri borgara í Reykjavík fyrir helgi.

Cantat-3 jafnvel óvirkur í 2 til 3 vikur

Hugsanlegt er að Cantat-3 sæstrengurinn verði óvirkur í 2 til 3 vikur. Bilun er í stengnum milli Íslands og Kanada, um 1500 km vestur af Íslandi á um 3000m dýpi. Líklegt er að kalla þurfi út viðgerðarskip vegna bilunarinnar.

Flugdólgur skilinn eftir í Halifax

Íslenskur karlmaður, sem lét ófriðlega í flugvéla á vegum Heimsferða á leið frá Kúbu til Íslands í gær, var skilinn eftir ásamt konu sinni í Halifax í Kanda. Maðurinn mun hafa angrað áhöfn og farþega og barið konu sína þegar hún reyndi að róa hann.

Piparkökuhús verðlaunuð

Til að búa til verðlauna- piparkökuhús þarf að vera skipulagður og hafa auga fyrir því smáa sem gefur lífinu lit, segja sigurvegarar í piparkökuhúsasamkeppni sem Grafarvogskirkja efndi til, en verðlaunin voru afhent í morgun.

Færri kertabrunar

Fyrstu tvær vikurnar í desember hefur kertabrunum fækkað um 75% frá meðaltali síðustu ára sem telur 24 kertabruna á tímabilinu. Einungis sex kertabrunar hafa verið tilkynntir.

Fangageymslur fullar í Reykjavík

Fangageymslur lögreglunnar í Reykjavík voru fullar í morgun eftir erilsama en þó stórslysalausa nótt. Að sögn lögreglu var töluvert um ölvun í miðborginni. Lítið fór fyrir jólaskapinu nú þegar vika er til hátíðar ljóss og friðar. Erfiðlega gekk að tjónka við menn og fólk fært í fangageymslur þar sem það svaf úr sér áfengisvímu.

Hluta miðbæjarins var lokað

Hluta miðbæjarins í Vestmannaeyjum var lokað í gærkvöld þegar eldur kviknaði í Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins. Ediksýra í tonnavís var geymd í húsinu og óttuðust menn mjög að stórslys hlytist af. Sex menn út eiturefnadeild Slökkviliðsins í Reykjavík voru sendir til Eyja með þyrlu Landhelgisgæslunnar og voru að fram á nótt við að koma sýrunni undan eldtungunum. Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum leikur grunur á að kveikt hafi verið í.

Fallegasti jólaglugginn

Gluggi verslunar Blue Lagoon að Laugavegi 15 í Reykjavík hlaut viðurkenningu Þróunarfélags miðborgarinnar fyrir fallegasta jólagluggann í ár. Einar Örn Stefánsson framkvæmdastjóri félagsins sagði að einfalt og stílhreint útlit jólagluggans hefði vakið athygli dómnefndarinnar.

Bilun í Cantat sæstreng

Bilun kom upp í Cantat sæstreng Símans um kl. 23:30 í gærkvöld og hefur bilunin áhrif á netsamband til útlanda þar sem bandbreid minnkar. Ekki er vitað hvað veldur sambandsleysinu en unnið er að því að komast að hvað veldur. Bilunin hefur óveruleg áhrif á talsímaumferð.

Óku á vegg

Tvær stúlkur 16 og 17 ára gamlar, voru handteknar í Grindavík í nótt grunaðar um að hafa tekið bifreið ófrjálsri hendi og ekið henni á steinhleðsluvegg við skemmtistaðinn Festi. Þær sluppu án teljandi meiðsla en bifreiðin er mikið skemmd sem og veggurinn. Stúlkurnar gistu fangageymslur lögreglu í Keflavík í nótt.

Sjá næstu 50 fréttir