Innlent

Slys á nákvæmlega sama stað á Eyrarbakkavegi

MYND/Róbert

Umferðarslys varð á nákvæmlega sama stað á Eyrarbakkavegi á þriðjudaginn var og í morgun. Eins og greint var frá í fréttum fyrr í morgun skemmdust fólksbíll og pallbíll mikið eftir að þeir rákust saman til móts við afleggjarann að Stokkseyrarseli.

Slysið mun hafa orðið með þeim hætti að ökumaður fólksbílsins missti stjórn á honum eftir að hafa mætt snjóruðningstæki. Við þetta snerist bíllinn og fór yfir á hinn vegarhelminginn og skall á pallbílnum. Fram kemur á vef lögreglunnar á Selfossi að ökumaður fólksbílsins hafi verið fluttur til skoðunnar á heilsugæslustöðina á Selfossi.

Slysið sem varð fyrir tæpri viku var mun alvarlegra en þá missti kona sem var ein á ferð á leið suður veginn bíl sinn út af veginum með þeim afleiðingum að hún valt og hafnaði á hjólunum í skurði. Beita þurfti klippum til að losa hana úr bifreiðinni.

Hún var flutt á slysadeild Landspítala þaðan sem hún var flutt á gjörgæsludeild. Lögregla segir ekki vitað með vissu hvers vegna bifreiðin fór út af veginum en mikil hálka var þegar slysið átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×