Innlent

Viðræður við Dani halda áfram í febrúar

Forviðræðrum um varnarsamstarf við Dani lauk í Kaupmannahöfn í morgun en þangað fór sendinefnd á vegum íslenskra stjórnvalda undir forystu Grétars Más Sigurðssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.

Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagði Grétar Már að fram hefði komið í viðræðunum að löndin teldu sig eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta á ýmsum sviðum og að löndin teldu sig eiga möguleika á að eiga nánara samstarf á sviði öryggismála. Ákveðið var að halda annan fund í byrjun febrúar þar sem farið verði nánar yfir samstarfsfletina. Sá fundur fer fram í Reykjavík og þar munu íslensk yfirvöld kynna Dönum aðstæður á Keflavíkurflugvelli.

Grétar segir samstarf við aðrar þjóðir byggjast á samstarfinu við Bandaríkjamenn. Danir hafi verið með mikið eftirlit í kringum Færeyjar og Grænland og íslensk stjórnvöld vilji athuga samstarf um eftirlit á hafsvæðinu í kringum Ísland og í lofti til að koma í veg fyrir tvíverknað.

Íslenska sendinefndin staldrar stutt við í Kaupmannahöfn því von er á norskri sendinefnd hingað til lands í dag til að ræða sömu mál. Fyrsti fundurinn verður klukkan 19 í kvöld og annar fundur með Norðmönnum er fyrirhugaður klukkan 9 í fyrramálið.

Auk viðræðna við Dani og Norðmenn á að ræða við Kanadamenn og Breta um mögulegt samstarf á þessu sviði en þær viðræður verða ekki fyrr en eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×