Fleiri fréttir

Pirraðir og þreyttir á verkföllum

Athafnalíf í Frakklandi var lamað í dag vegna verkfalla tug þúsunda opinberra starfsmanna. Almenningssamgöngur hafa verið skertar til muna síðustu vikuna. Sjúkrahús veita lágmarks umönnun og skólar eru lokaðir. Íslendingur sem býr í París segir borgarbúa þreytta og pirraða á ástandinu. Ástæða þessara umfangsmiklu aðgerða og mótmæla í dag eru áform Nicolas Sarkozys, Frakklandsforseta, að skerða lífeyrisrétt opinberra starfsmanna og fækka þeim um rúmlega 20 þúsund með því að ráða ekki í þær stöður sem losna. Almenningssamgöngur hafa að mestu legið niðri í viku. Nú bætast heilbrigðisstarfsmenn, kennarar, flugumferðastjórar og aðrir opinberir starfsmenn í hópinn - en þó aðeins í einn sólahring að öllu óbreyttu. Ari Allansson, kvikmyndagerðarmaður býr í París. Hann segir verkfall starfmanna almenningssamgöngufyrirtækja hafa haft tilfinnanleg áhrif. Það hafi tekið óratíma að komast milli staða með lestum og strætisvögnum sem þó hafi gengið síðustu daga. Sjálfur noti hann litla skellinöðru til að komast milli staða og því laus við þann vanda. Það sem valdi honum hins vegar vandræðum sé það að umferðin sé mun þyngri á vegum nú en áður þegar almenningssamgöngur séu ótruflaðar. Verkfall flugumferðastjóra hefur raskað flugumferð til og frá flugvöllunum tveimur í París og á flugvellinum í Marseilles. Ari segir vin sinn hafa verið á leið til Spánar og millilent í París í gær. Hann hafi ekki komist milli flugvalla vegna verkfallsins og misst af tengiflugi á hinum flugvellinum. Kannanir benda til þess að Sarkozy njóti stuðnings meirihluta Frakka en það gæti breyst. Ari segir flesta Parísarbúa og aðra Frakka miklu fremur pirraða og þreytta á ástandinu en að þeir taki afstöðu í deilunni. Það kunni þó að breytast dragist verkföll á langinn og ljóst verði að það þurfi að grípa til aðgerða.

Starfsmaður Ríkiskaupa segir rangt eftir sér haft

Ríkisskaup hafa sent frá sér tilkynningu vegna forsíðufréttar DV í dag þar sem segir að stofnunin telji að hún hefði átt að sjá um sölu á íbúðum á Keflavíkurflugvelli. Í tilkynningunni segir að starfsmaðurinn sem vitnað er í í fréttinni telji rangt eftir sér haft í greininni í veigamiklum atriðum.

Þrjár milljónir í neyðaraðstoð til Bangladess

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur ákveðið að veita 50 þúsund Bandaríkjadali, rúmar þrjár milljónir íslenskar krónur til neyðaraðstoðar í Bangladess. Peningarnir renna til Matvælaáætlunar Sameinuðu Þjóðanna. Að minnsta kosti 3100 létust þegar fellibylurinn Sidr gekk yfir landið í síðustu viku og fer tala látinna hækkandi.

Portúgalska lögreglan leitar í kirkjugarði

Portúgalska lögreglan hefur leitað í kirkjunni sem McCann hjónin sóttu til að biðja fyrir að Madeleine kæmi aftur eftir að hún hvarf í Portúgal. Lögreglan leitaði einnig í kirkjugarðinum og yfirheyrði prestinn sem McCann hjónin leituðu til eftir að dóttir þeirra hvarf.

Verkfallið kostar Frakka 36 milljarða á dag

Verkfall opinberra starfsmanna í Frakklandi kostar Frakka allt að 36 milljörðum íslenskra króna á dag. Þetta sagði Christine Legarde fjármálaráðherra í dag. Verkfallið hefur lamað líf almennings í landinu og margir segja minnihluta Frakka halda landinu í gíslingu.

Íraskur fréttamaður AP talinn njósnari

Bandaríski herinn vill að gefin verði út ákæra á hendur íröskum ljósmyndara AP fréttastofunnar í Írak. Maðurinn var tekinn höndum árið 2006 vegna gruns um aðstoð við íraska uppreisnarmenn.

Meintur árásarmaður í gæsluvarðhaldi fram á mánudag

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í hádeginu manninn sem hefur verið í haldi lögreglunnar á Selfossi, vegna hnífstungumálsins við Hellisheiðarvirkjun um síðustu helgi, í gæsluvarðhald til mánudagsins 26. nóvember.

Strætóbílstjóri gagnrýnir Strætó

„Þú ferð ekki inn í rútu með barnavagn þó hún sé gul að framan,“ segir Ingunn Guðnadóttir strætóbílstjóri en Leið 2 hjá Strætó hefur notað rútur frá Hagvögnum í stað strætisvagna upp á síðkastið.

Endurreisa þarf húsnæðiskerfið

Endurreisa þarf húsnæðiskerfið og viðurkenna verður að húsnæðismál eru velferðarmál, sagði Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra í utandagskrárumræðu um hækkun vaxta á íbúðalánum á Alþingi í dag.

Bílskúrsdeilur í Breiðholti

„Ég vil koma þessu fólki frá sem allra fyrst," segir Sævar Helgason sem býr með sambýliskonu sinni í Æsufelli í Breiðholti. Deilur hafa staðið um kaup á nýjum bílskúrshurðum í Æsufellinu og hefur málið ratað inn á borð lögfræðinga Húseigendafélagsins.

Háloftaræninginn handsamaður

Kínverskur þjófur sem gerði það að iðju sinni að ræna flugfarþega í miðju flugi hefur verið handtekinn. Li Mingwan keypti ódýra flugmiða og flaug til ríkra borga eða svæða til að ræna grunlausa farþega. Lögreglan segir að hann hafi stolið um þremur milljónum íslenskra króna um borð í flugvélum.

Ekki króna til að bæta búsetuúrræði fatlaðra

„Ég myndi halda að bið eftir íbúðum fyrir fatlaða væri að minnka," segir Þór Þórarinsson, sérfræðingur hjá félagsmálaráðuneytinu. Hann segir að á næstu dögum muni Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra svara fyrirspurn um þetta mál á Alþingi. „Málin munu skýrast þá," bætir Þór við.

Fyrsti Kmerinn fyrir dóm

Fyrstu réttarhöldin yfir leiðtoga Rauðu Kmerana í Kambódíu hófust í morgun. Þá mætti yfirmaður alræmdustu dýflyssu landsins fyrir sérskipaðan dómstól Sameinuðu þjóðanna til að svara til saka fyrir voðaverk á tímum ógnarstjórnar Kmeranna.

Lítill munur á hlutfalli íslenskra og erlendra kynferðisbrotamanna

Sáralítill munur er á hlutfalli íslenskra og erlendra karlmanna sem fremja kynferðisglæpi hér á landi. Um 0,14 prósent íslenskra karlmanna fremja slíka glæpi og um 0,2 prósent erlendra karlmanna. Þá er ekki tekið tillit til þess að hingað koma fleiri þúsund erlendra ferðamanna ár hvert.

Skilur ekki af hverju börnin voru skilin eftir

Móðir Kate McCann segir að hún skilji ekki af hverju hjónin hafi skilið börnin eftir í sumarleyfisíbúðinni á meðan þau fóru í kvöldverð með vinum sínum. Susan Healy kom fram í fréttaskýringaþætti BBC, Panorama, í gærkvöldi.

Segir Svandísi hafa verið með gjörtapað mál

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, var fyrirfram með gjörtapað mál á hendur Orkuveitu Reykjavíkur að mati Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hún segir ljóst að Svandís hafi aldrei haft lögvarða hagsmuni af því að fá dóm í málinu.

Íslenskir sjóræningjar opna blóðsuguvef með Næturvaktinni

Í gær var vefsíðunni istorrent.is lokað en strax í morgun virðast menn hafa fundið nýjar leiðir til þess að ná sér í ólöglegt efni. Svokallaður blóðsuguvefur stofnaður af íslendingum bíður upp á þætti af Næturvaktinni.

Daglegt líf lamað í Frakklandi vegna verkfalla

Daglegt líf í Frakklandi er lamað. Mörg þúsund opinberir starfsmenn lögðu niður vinnu í morgun. Skólar eru lokaðir, sjúkrahús veita aðeins lágmarksþjónustu, almenningssamgöngur eru í lamaslessi og flugumferð hefur raskast.

Þúsundir frelsaðar í Pakistan

Pakistanska ríkisstjórnin segist hafa leyst um 3.400 stjórnarandstæðinga úr haldi. Fólkið var hneppt í varðhald eftir að neyðarlög voru sett í landinu 3. nóvember síðastliðinn. Lausn stjórnarandstæðinga hefur verið lykilkrafa stjórnarandstöðuflokka sem hóta að sniðganga þingkosningarnar í janúar. Fjöldi leiðtoga stjórnarandstæðinga er enn í haldi í landinu. .

Guðmundur Bjarnason ennþá landlaus

Þjóðskrá hefur enn ekki breytt ákvörðun sinni varðandi Guðmund Bjarnason öryrkja, en hann var sviptur lögheimili hér á landi í febrúar síðastliðnum. Umboðsmaður Alþingis sendi Þjóðskrá bréf og bað um skýringar á því hvers vegna Guðmundi væri ekki svarað. Var Þjóðskrá gefinn svarfrestur til 2. nóvember en ekkert gerist.

Tala látinna námumanna í Úkraínu hækkar

Nú er staðfest að 88 manns létust í versta námuslysi í Úkraínu á sunnudag þegar sprenging varð um einn kílómeter neðanjarðar. Enn er 12 námuverkamanna saknað í Zasyadko kolanámunni í austurhluta Donetsk héraðs.

Barnarsáttmáli SÞ 18 ára í dag

Bandaríkin og Sómalía eru einu ríkin sem ekki hafa fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en 18 ár eru í dag frá því að samningurinn var lagður fyrir allsherjarþing samtakanna.

Flutt á sjúkrahús eftir að bíll fór fram af kanti

Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á sjúkrahúsið á Húsavík í gærkvöldi eftir að bíll fór yfir steinkant og hafnaði ofan í tröppum niður að íbúðarhúsi við Baldursbrekku í bænum.

Útkall vegna reykvélar

Lögregla fór á vettvang og kallað var á slökkvilið þegar mikinn reyk lagði frá bílasölu á Funahöfða í nótt.

Fjórum sleppt úr haldi á Selfossi

Lögreglan á Selfossi sleppti í gærkvöldi fjórum mönnum úr haldi, sem teknir voru í fyrrinótt vegna rannsóknar á hnífstungumáli í vinnubúðum Hellisheiðarvirkjunar um helgina.

Fjöldaverkföll í Frakklandi í dag

Mikill fjöldi opinberra starfsmanna í Frakklandi mun fara í verkfall í dag og má búast við truflunum víða í landinu af þessum sökum.

„Við munum leita réttar okkar“

Svavar Lúthersson, eigandi torrent.is segist ekki ætla að una lögbanninu sem sett var á starfssemi skráadeilingarsíðunnar í dag. „Við munum leita réttar okkar,“ segir Svavar í samtali við Vísi.

Vilhjálmur segir Ólaf F. snúa aftur um áramót

Ólafur F. Magnússon, oddviti F-listans í borgarstjórn Reykjavíkur snýr aftur á svið borgarmálanna um áramót. Þetta sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, í viðtali á Útvarpi Sögu í dag. Ólafur hefur verið í veikindaleyfi í borgarstjórn undanfarið en þegar nýr meirihluti var myndaður í borginni á dögunum sagði hann viðtali við fréttamann Stöðvar 2 að hann ætlaði sér að snúa aftur eins fljótt og auðið væri. Margrét Sverrisdóttir hefur setið í oddvitasætinu í fjarveru Ólafs og gegnir hún embætti forseta borgarstjórnar í nýjum meirihluta.

Tveir á slysadeild eftir árekstur

Nokkuð var um umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu nú síðdegis. Tveir ökumenn voru fluttir á slysadeild eftir árekstur á mótum Geirsgötu og Lækjargötu klukkan fjögur en meiðsli þeirra eru ekki talin alvarleg. Þá þurfti að kalla til kranabíl til þess að fjarlægja tvo bíla sem voru óökufærir eftir árekstur í Hafnarfirði en ökumenn sluppu við meiðsl.

Segir leitun að spilltari stjórnmálamanni

Sverrir Hermannsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir leitun að spilltari stjórnmálamanni en Finni Ingólfssyni fyrrverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra, en Finnur gagnrýndi Sverri harkalega í þættinum Mannamál á Stöð 2 í gær.

Málaliðar handteknir í Írak

Íraskar öryggissveitir handtóku í dag 43 einstaklinga vegna skotbardaga í Bagdad þar sem kona særðist. Hinir handteknu eru starfsmenn öryggisfyrirtækis sem starfar í borginni. Tveir þeirra eru Bandaríkjamenn og flestir hinna útlendingar eftir því sem fréttastofa Reuters greinir frá. Handtökurnar eru sagðar til merkis um að málaliðarnir sem starfa í landinu séu ekki yfir lögin hafnir en mál Blackwater fyrirtækisins hefur verið mikið í umræðunni undanfarið.

39 Suðurnesjamenn kærðir fyrir hraðakstur í dag

Lögreglan á Suðurnesjum hélt í dag úti öflugu eftirliti við skóla á svæðinu með þeim afleiðingum að 39 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Þrír ökumenn voru sviptir ökuleyfi fyrir að aka of hratt í grennd við skóla og óku þeir á 64 til 66 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 30.

Annað andlát eftir rafbyssunotkun

Lögreglan í Bandaríkjunum rannsakar dauða karlmanns sem lést þegar lögreglumaður skaut hann með rafbyssu í gærmorgun. Lögregla var að stilla til friðar þar sem komið hafði til slagsmála. Íslenska lögreglan íhugar að taka slíkar byssur í notkun.

Sjá næstu 50 fréttir