Fleiri fréttir

Ísraelar opna á möguleikann um tvískipta Jerúsalem

Tveir háttsettir stjórnmálamenn í Ísrael ræddu opinskátt í dag um möguleikann á því að Jerúsalem verði skipt í tvennt. Stjórnmálaskýrendur segja þetta gefa til kynna að von sé á stefnubreytingu Ísraela í málinu sem hingað til hafa neitað að fallast á skiptingu borgarinnar.

Heimdellingar fagna sátt og samstöðu í borgarstjórn

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík lýsir yfir ánægju með þá „sátt og samstöðu sem náðst hefur í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Stjórn félagsins fagnar þeirri niðurstöðu að stefnt skuli að sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í REI.

Pólitísk spilling einkennir REI málið

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi segist ekki vera andsnúinn sameiningu REI og Geysis green energy eða útrás íslenskra orkufyrirtækja yfirleitt. Hann segist hins vegar gera athugasemdir við feril málsins sem einkennist af pólitískri spillingu að hans mati. Bjarni segir að sala ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja hafi verið mistök sem séu að reynast dýrkeypt.

Borgarstjóri fundar með mótmælendum Ungdómshússins

Stjórnendur mótmælahreyfingarinnar sem varð til þegar Ungdómshúsið í Kaupmannahöfn var rifið, hafa ákveðið að þiggja boð Ritt Bjerregård borgarstjóra um að funda með henni. Hvað eftir annað hefur komið til óeirða í Kaupmannahöfn síðan húsið var jafnað við jörðu.

Bjarndýr drap mann í Svíþjóð

Bjarndýr varð sextugum karlmanni að bana í grennd við bæinn Valsjöby í Svíþjóð í morgun. Íbúar í Valsjöby hafa lengi óttast að þetta myndi gerast. Lítið hefur verið um ber fyrir bjarndýrin sem þá verða hungruð og árásargjörn. Þeir segja einnig að bjarndýrum hafi fjölgað mjög á þessum slóðum undanfarin ár.

Hálft barnslík fannst við Álaborg

Danir eru slegnir óhug eftir að hálft barnslík fannst á byggingarlóð rétt sunnan við Álaborg. Lögreglan segja að líkið sé af nýfæddu stúlkubarni. Það var aðeins neðri hluti líkamans sem fannst. Það var fjölskylda sem var að láta aka gróðurmold inn á lóð sína, sem fann líkið. Það var í gær, en lögreglan ákvað að tilkynna ekki um fundinn fyrr en í dag í von um að finna hinn helminginn af barninu.

Menningarhúsið á Akureyri klætt stuðlabergi

Þrjú þúsund tonna stuðlabergsklæðning sem þekja mun menningarhúsið á Akureyri hefur vakið mikla athygli. Svo gæti farið að stuðlabergið yrði að tískufyrirbrigði.

Gefum friðnum tækifæri

Friðarsúla Yoko Ono verður tendruð á morgun á afmælisdegi Johns Lennon. Bítillinn Ringo Starr verður viðstaddur sem og Olivia Harrison, ekkja bítilsins George Harrisons. Ekki er útilokað að Paul McCartney verði viðstaddur athöfnina.

Ákvörðun Ólafs veltur á stuðningi þjóðarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að það hvort hann hafi stuðning þjóðarinnar til að sinna forsetaembættinu eins og hann hefur gert hingað til muni hafa áhrif á það hvort hann bjóði sig fram til endurkjörs á næsta ári.

Björn Ingi undrast að Vilhjálmur hafi ekki vitað af kaupréttarsamningum

Björn Ingi Hrafnsson, segir að það komi sér verulega á óvart að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri hafi ekki vitað af þeim kaupréttarsamningum sem gerðir voru í tengslum við sameiningu REI og Geysir green energy. Hann bendir á að Haukur Leóson, stjórnarformaður Orkuveitunnar og stjórnarmaður í REI sé náinn samstarfsmaður Vilhjálms.

Kalabríu mafían hreiðrar um sig í Evrópu

Kalabríu mafían hefur hreiðrað um sig í Evrópu og þrífst þar vel, að sögn Ítalsks saksóknara. Það er vegna þess að í Vestur-Evrópu eru ekki til nein samræmd stefna til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi. Nicola Gratteri, sem hefur verið að rannsaka morð á sex ítölum í Þýskalandi í ágúst síðastliðnum, segir að mafían sé eins og fjölþjóða fyrirtæki, með útibú í öllum heimsálfum.

Dagur segir fráleitt að selja REI

„Sú þrautalending borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að ætla að selja hlut Orkuveitunnar í Reykjavik Invest er fráleit. Hún felur í sér að borgarbúar og eigendur Orkuveitunnar verði af þeirri margföldun í verðgildi fyrirtækisins sem spáð hefur verið á næstu arum,“ segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borginni.

Fimmtán teknir af lífi í Afganistan

Yfirvöld í Afganistan tóku í morgun 15 fanga af lífi en þetta eru fyrstu aftökur þar í landi í meira en þrjú ár. Ekki hafa fleiri verið teknir af lífi í Afganistan á sama degi síðan Talibanar voru hraktir frá völdum árið 2001.

Dorrit vísar fréttaflutningi DV á bug

Dorrit Moussaieff fosetafrú segist vera særð og móðguð yfir fréttaflutningi DV í dag. Þar er sagt að Dorrit hafi verið ein af styrktaraðilum verðlauna sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hafi veitt viðtöku 23. september sl.

Herstjórnin tilnefnir samningamann fyrir Suu Kyi

Herstjórnin í Búrma hefur tilnefnt Aung Kyi aðstoðarráðherra til að semja beint við Aung San Suu Kyi stjórnarandstæðing sem nú er í stofufangelsi. Aung Kyi tók við embætti aðstoðaratvinnumálaráðherra á síðasta ári. Tilnefningin kemur í kjölfar mestu mótmælaaðgerða gegn herstjórninni í áratugi.

Harður árekstur á Akureyri

Harður árekstur varð á gatnamótum Þingvallastrætis og Vallargerðis á Akureyri, rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Jeppi og fólksbifreið sem voru að koma úr gagnstæðri átt rákust saman. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var enginn fluttur á slysadeild en ökumaður fólksbílsins kenndi eymsla í hálsi.

Sátt um að halda völdum í Reykjavík

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri - grænna, segir að sáttaniðurstaða sjálfstæðismanna í málefnum Reykjavik Energy Invest sé sátt um áframhaldandi völd í Ráðhúsinu í Reykjavík og að viðhalda völdum Framsóknarflokksins í borginni.

Kviðdómendur lentu í óhappi í París

Rúta kviðdómenda í réttarrannsókninni á dauða Díönu prinsessu af Wales lenti í óhappi fyrir utan Ritz hótelið í París í dag. Hópur fréttamanna horfði á rútuna keyra á steypustólpa þegar hún ók upp að hótelinu með þeim afleiðingum að hvellsprakk. Ekki tók langan tíma að skipta um dekk og hópurinn gat haldið áfram að fara yfir síðustu stundirnar í lífi prinsessunnar og ástmanns hennar Dodi Fayed.

Haukur kemur af fjöllum

Haukur Leósson, fráfarandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, kom af fjöllum þegar fréttastofa innti hann eftir viðbrögðum við því að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hygðist láta hann víkja vegna málefna Reykjavik Energy Invest.

Sýknaður af utanvegaakstri við smölun

Héraðsdómur Norðurlands eystra sektaði í dag karlmann um áttatíu þúsund krónur fyrir að aka á óskráðu vélhjóli við smölun. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um utanvegarakstur.

Anda léttar

Hæstiréttur á Spáni hefur staðfest bann við því að að vængstífðum öndum sé fleygt í sjóinn í bænum Sagunto, þar sem drukknir veislugestir berjast um þær. Árlega hafa hundruð manna safnast saman í bænum í ágúst, til þess að leika þennan leik.

Grunaður granni segist saklaus í Hringbrautarmálinu

38 ára gamall karlmaður hefur verið úrskurðaður í viku gæsluvarðhald vegna andláts manns á fimmtugsaldri á Hringbraut. Maðurinn lá í blóði sínu heima fyrir þegar lögreglan kom á vettvang á sunnudag og var úrskurðaður látinn í gærkvöld. Hinn grunaði, sem er nágranni þess látna, hefur lýst yfir sakleysi sínu í málinu.

Bretar fækka herliði í Írak um helming

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands tilkynnti í neðri málstofu breska þingsins í dag að breskum hermönnum í Írak yrði fækkað úr 5.500 í 2.500 fyrir næsta vor. Hann tekur fulla ábyrgð á vangaveltum um kosningar og neitar því að slæm útkoma skoðanakannana hafi haft áhrif á ákvörðun hans um að blása ekki til kosninga.

Sátt í sjónmáli hjá sjálfstæðismönnum

Heimildir fréttastofu Vísis herma að sátt hafi náðst um málefni Reykjavík Energy Invest á fundi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir í Ráðhúsinu.

Indónesi lést úr fuglaflensu

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfesti í dag að indónesísk kona frá Pekan Baru-borg á Súmötru hefði látist úr fuglaflensu. Alheimsfaraldur H5N1 fuglaflensustofninum kom upp árið 2003 í Asíu. Síðan þá hafa að minnsta kosti 202 látist úr vírusnum banvæna, þar á meðal fjöldi barna og ungmenna.

Síðasti kafbáturinn fundinn

Kafarar hafa fundið flakið af síðasta kafbátnum sem Þjóðverjar sendu til Noregs í síðari heimsstyrjöldinni. Það var rétt undir lok stríðsins og talið er að Horden í Noregi hafi verið áfangastaður bátsins. Breskar Mosquito sprengjuflugvélar sökktu honum austan við dönsku eyna Læsö.

Engin ný tilfelli af e.coli

Engin ný tilfelli af E.coli bakteríusýkingu hafa komið upp en fimm hafa greinst með sýkinguna. Bakterían er mjög skæð og afar sjaldgæft er að hún greinist hér á landi.

Ragnar Hall flytur mál Svandísar

Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður hefur tekið að sér að flytja mál Svandísar Svavarsdóttur, fulltrúa Vinstri - grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, vegna eigendafundar Orkuveitunnar þar sem tilkynnt var um samruna Reykjavik Energy Invest og Geysi Green Energy.

Vilja björgunarþyrlu á Hornafirði

Bæjarstjórn Hornafjarðar vill að björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Hornafirði. Bæjarstjórnin segir að Hornafjarðarflugvöllur sé mikilvægur hlekkur í björgunar- og öryggisþjónustu í landinu.

Langþreyttir á manneklu, álagi og lágum launum

Aðaltrúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum segir þá orðna langþreytta vegna manneklu, álags og lágra launa. Hún segir launastefnu hins opinbera í hjúkrunar- og umönnunarstörfum út í hött.

Vilja starfsmenn Blackwater fyrir dóm

Írösk stjórnvöld hafa krafist þess að vopnaðir starfsmenn verktakafyrirtækisins Blackwater verði dregnir fyrir dóm vegna morða á sautján almennum borgurum í Bagdad í síðasta mánuði. Opinber rannsókn sýni að þeir hafi ekki verið að svara árás þegar þeir hafi skotið á fólkið.

Ringo Starr kemur á morgun

Ringo Starr og Olivia Harrison koma til landsins á morgun til að vera viðstödd tendrun friðarsúlunnar. Þau munu þó stoppa stutt hér á landi og fara heim að athöfn lokinni. Enn er ekki útilokað að Paul McCartney sjái sér fært að mæta.

Fundur sjálfstæðismanna hafinn

Fundur borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna hófst í ráðhúsi Reykjavíkur fyrir skemmstu. Á fundinum munu flokksmenn reyna að leita sátta í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur.

Vinnukrani rakst á Höfðabakkabrú

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út laust eftir klukkan ellefu í morgun eftir að vinnukrani á vörubifreið rakst á Höfðabakkabrú. Svo virðist sem ökumaður vörubifreiðarinnar hafi ekki áttað sig á því að kraninn var enn uppi.

Sjá næstu 50 fréttir