Innlent

Björn Ingi undrast að Vilhjálmur hafi ekki vitað af kaupréttarsamningum

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. MYND/GVA

Björn Ingi Hrafnsson, segir að það komi sér verulega á óvart að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri hafi ekki vitað af þeim kaupréttarsamningum sem gerðir voru í tengslum við sameiningu REI og Geysir green energy. Hann bendir á að Haukur Leóson, stjórnarformaður Orkuveitunnar og stjórnarmaður í REI sé náinn samstarfsmaður Vilhjálms.

Björn Ingi segir að kaupréttarsamningarnir hafi verið kynntir í stjórn REI þar sem Björn Ingi situr ásamt Hauki og Bjarna Ármannssyni. Í samtali við Vísi segir Björn að enginn trúnaðarbrestur hafi komið upp á milli sín og stjórnenda Orkuveitunnar en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sagt að þeir hafi ekki fengið nægilega miklar upplýsingar um þróun málsins.

Framsóknarmenn í borginni funduðu um málið í kvöld og segir Björn Ingi fulla einingu ríkja um hvernig á málum hefur verið haldið. Hann sagði næsta skref að ganga til viðræðna við sjálfstæðismenn um framhaldið en þeir ákváðu á fundi fyrr í dag að selja hlut Orkuveitunnar í REI.

Björn Ingi segir að alltaf hafi staðið til að selja hlutinn þegar REI yrði skráð á alþjóðlegan hlutabréfamarkað eftir tvö ár en til greina komi að selja lítinn hluta nú strax. Þessi mál eigi hins vegar eftir að ræða og benti Björn Ingi á að sjálfstæðismenn hafi ekki sett nein tímamörk um það hvenær eigi að selja hlutinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×