Innlent

Orkuveita Reykjavíkur dregin út úr REI á næstu mánuðum

Borgarstjóri og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kynntu niðurstöðu fundarins í Ráðhúsinu í dag.
Borgarstjóri og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kynntu niðurstöðu fundarins í Ráðhúsinu í dag. MYND/Höskuldur

Orkuveita Reykjavíkur verður dregin út úr Reykjavik Energy Invest á næstu mánuðum og Haukur Leósson hættir sem stjórnarformaður Orkuveitunnar.

Þetta ákváðu borgarstjóri og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á tæplega þriggja klukkustunda löngum fundi sínum í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Fram kom á blaðamannafundi eftir fundinn að borgarfulltrúi úr röðum sjálfstæðismanna myndi setjast í stjórn OR í stað Hauks.

Trúnaðarbrestur milli borgarfulltrúa og lykilstarfsmanna OR

Fram kom á fundinum að trúnaðarbrestur hefði orðið á milli lykilstarfsmanna Orkuveitunnar og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri að tilteknum upplýsingum hefði ekki verið komið á framfæri. Hann hefði ekki vitað af kaupréttarsamningum við nokkra lykilstarfsmenn REI og Orkuveitunnar, aðeins samningnum við Bjarna Ármannsson stjórnarformann. Eftir að honum hefði orðið ljóst hvernig var hefði hann óskað eftir því að allir starfsmenn Orkuveitunnar fengju kauprétt í REI eins og fram hefði komið í fjölmiðlum.

Farið yfir hvernig lykilstarfsmenn höguðu sér

Þá sagði Gísli Marteinn Baldursson, formaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, að farið yrði yfir það hvernig lykilstarfsmenn Orkuveitunnar hefðu hagað sér í málinu eins og hann orðaði það. Framtíð þeirra yrði rædd síðar.

Viðurkenndu borgarfulltrúarnir að ágreiningur hefði verið innan flokksins vegna málsins en að full sátt hefði náðst sem ánægja væri með. Þá væri búið að ræða málið við Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Vonuðust sjálfstæðismenn til þess að sátt yrði um þessar lyktir mála í borgarstjórn.

Þá kom enn fremur fram að áætlað virði hlutar OR í REI væri tíu milljarðar króna og að söluferli hlutarins yrði flýtt, en alltaf hefði staðið til að selja hlutinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×