Fleiri fréttir

SÞ ráðast inn í fátækrahverfi á Haiti

Hundruð hermanna frá Sameinuðu þjóðunum gerðu í dag innrás í fátækrahverfið Cite Soleil í borginni Port-au-Prince á Haiti. Um 300 þúsund manns búa í hverfinu. Herinn var að reyna að handsama leiðtoga glæpagengis og yfirtaka svæðið sem gengið réði yfir.

Geta lesið hugsanir

Vísindamenn hafa þróað tækni sem getur séð fyrir hvað fólk ætlar sér að gera. Tækið greinir virkni heilans og fylgist með breytingum sem í honum verða eftir því hvað fólk hugsar um. Þannig er hægt að kortleggja aðgerðir í heilanum og því hægt að spá fyrir um hvað fólk er að hugsa. Aðferðin virkar nú í um 70% tilfella.

Nýr forsætisráðherra skipaður í Gíneu

Forseti Gíneu, Lansana Conte, tilnefndi í dag Eugene Camara sem nýjan forsætisráðherra landsins. Camara var áður ráðherra forsetans. Með þessari tilnefningu var Conte að koma til móts við stéttarfélög í landinu og kröfur þeirra.

Forstjóri Cartoon Network segir af sér

Forstjóri Cartoon Network, Jim Samples, sagði af sér í dag eftir að ein auglýsingaherferð stöðvarinnar fór úr böndunum. Auglýsingaherferði snerist um það að búa til lítil ljósaskilti sem sýndu persónu úr teiknimyndaseríu gefa dónalega bendingu á þann er á horfði. Þeim var síðan komið fyrir á fjölförnum stöðum í Boston í Bandaríkjunum.

Ekkert óeðlilegt við dauðdaga Önnu Nicole

Ekkert kom í ljós í krufningu Önnu Nicole Smith sem bendir til þess að eitthvað óeðlilegt hafi verið við dauðdaga hennar. Enn hefur ekki verið staðfest hvers vegna hún lét lífið. Lögreglustjórinn á Dania Beach, Charlie Tiger, sagði á fréttamannafundi í kvöld að það myndi taka þrjár til fimm vikur að rannsaka gögnin úr krufningunni. Anna Nicole Smith lést í gærkvöldi á hóteli við Dania Beach. Hún var 39 ára þegar hún lést og lætur eftir sig 5 mánaða dóttur.

Fóstureyðingar brátt leyfilegar í Portúgal

Fimm skoðanakannanir sem birtar voru í Portúgal í dag gefa til kynna að landsmenn muni aflétta banni við fóstureyðingum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer fram á sunnudaginn kemur. Samkvæmt könnunum segja 52 til 58 prósent landsmanna að þeir ætli að segja já við tillögum ríkisstjórnarinnar sem munu leyfa fóstureyðingu allt til tíundu viku meðgöngu.

Kona verður forseti Harvard

Elsti háskóli Bandaríkjanna, Harvard, mun um helgina tilnefna Drew Gilpin Faust sem forseta skólans. Hún verður fyrsta konan sem gegnir þessari stöðu í 371 ára sögu skólans. Þetta þýðir stefnubreytingu á málum skólans en fyrrum forseti skólans, Lawrence Summers, þurfti að segja af sér vegna athugasemda um konur. Þær þóttu vera litaðar af kvenfyrirlitningu.

Eldflaug skotið á hótel í Mogadishu

Eldflaug var skotið á hótel í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í dag. Enginn lést í árásinni en fjöldi manns slasaðist. Einnig voru mótmæli í borginni vegna nærveru afrískra friðargæsluliða og hótuðu mótmælendur að ráðast gegn þeim.

Úrskurðir í safni Pósts og síma

Samkvæmt skýrslu Kaldastríðsnefndar Alþingis eru dómsúrskurði um hleranir lögreglu á árunum 1945 til 1991 að finna í skjalasafni Pósts- og Síma sem enn á eftir að fara yfir. Gögnum lögreglu var eytt 1976. Nefndin leggur til að sérstöku safni yfir gögn um öryggismál verði komið á fót.

Uggur í skipverjum

Uggur er í skipverjum um borð í flutningaskipinu Castor Star, sem hefur verið í Grundartangahöfn síðan í fyrradag. Þeir segjast ekki hafa fengið greidd laun og rýran kost vera um borð. Fulltrúi útgerðarfélagsins kom um borð í morgun og hefur fram eftir degi ráðið ráðum sínum með íslenskum lögfræðingi.

Húseignir skemmdar með veggjakroti í miðborginni

Einhverjir virðast í nótt hafa fengið útrás fyrir skemmdarfísn sína með úðabrúsa. Skemmdarverk hafa verið unnin á húsum við Skólavörðustíg með veggjakroti og má áætla að tjón húseigenda skipti mörghundruð þúsundum króna.

Utanríkisráðherra fyrir þingnefnd vegna forseta Íslands

Utanríkisráðherra gerir ekki athugasemd við setu forseta Íslands í þróunarráði Indlands. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir þetta mál hins vegar sýna að ekki ríki fullur trúnaður á milli forsetaembættisins og annarra stjórnvalda.

Valgerður vill sömu ríkisstjórn áfram

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra segir best fyrir Ísland að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haldi áfram eftir kosningar.

FL Group flytur hugsanlega frá Danmörku

Forstjóri fjárfestingafyrirtækisins FL Group segir að til greina komi að flytja starfsemi fyrirtækisins í Kaupmannahöfn frá Danmörku, verði nýjar skattatillögur dönsku ríkisstjórnarinnar að veruleika. Þetta kom fram á ráðstefnu um íslenska viðskiptalífið í Kaupmannahöfn í dag, þar sem forseti Íslands hrósaði íslensku bönkunum fyrir góðan árangur.

Máli olíuforstjóranna vísað frá dómi

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá máli ákæruvaldsins gegn olíuforstjórunum þremur í samráðsmálinu. Frávísun Héraðsdóms er óvanalega harðorð en samkvæmt henni er verknaðarlýsing óljós og því erfitt að verjast ákæru.

Beið bana í eldsvoða

Íslenskur maður lét lífið í bruna í geymslu við veitingahús í Stokkhólmi í fyrrinótt. Orsakir slyssins eru óljósar en Stokkhólmslögreglan vinnur að rannsókn þess.

Átök við al-Aqsa moskuna

Viðbrögð við samkomulagi stríðandi fylkinga í Palestínu, um myndun þjóðstjórnar, hafa verið varfærin enda er tilveruréttur Ísraelsríkis ekki viðurkenndur þar sérstaklega. Til heiftarlegra átaka kom á milli ísraelskra lögreglusveita og íslamskra mótmælenda við al-Aqsa-moskuna í Jerúsalem í dag.

Forsögulegt faðmlag

Ótrúleg sjón blasti við ítölskum fornleifafræðingum í vikunni þegar þeir opnuðu gröf nærri borginni Mantúa, sem er skammt frá Veróna, sögusviði leikritisins um Rómeó og Júlíu.

Branson vill bjarga heiminum

Sir Richard Branson, auðkýfingur og ævintýramaður, tilkynnti í dag að hann myndi halda keppni um það hver gæti fundið bestu leiðina til þess að minnka og binda koltvísýring í andrúmsloftinu. Verðlaunin verða í kringum tíu milljón pund, sem eru um 1,3 milljarðar íslenskra króna.

Skjólstæðingar Byrgisins fái tafarlaust aðstoð

Félagsmálanefnd Alþingis samþykkti einróma á fundi sínum í dag að skora á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða vegna málefna Byrgisins sem voru til umræðu á fundi nefndarinnar í dag. Þar er farið fram á að fyrrverandi skjólstæðingum Byrgisins verði tafarlaust veitt aðstoð innan heilbrigðis- og félagslega kerfisins.

Norðmenn byggja fræhvelfingu

Norðmenn sögðu frá því í dag að þeir ætli sér að smíða geymslu fyrir öll fræ heimsins. Geymslan verður staðsett á svalbarða og á að sjá til þess að mannkynið geti lifað af ef til náttúruhörmunga kæmi.

Skefjalaus skelfing

Bandarískur kaupsýslumaður er að kanna hvort hann geti farið í mál við rússneskt flugfélag sem hann segir að hafi valdið sér svo mikilli skelfingu að hann hafi þurft að leita til sálfræðings um áfallahjálp. Vélin var í innanlandsflugi í Rússlandi, og var að aka út á flugbrautina, þegar hún skyndilega stoppaði og ók aftur upp að flugstöðinni.

Stöðvaður á 105 km með annan í togi

Lögreglan á Akranesi stöðvaði bifreið í dag á Vesturlandsvegi á 105 km hraða. Ökumaðurinn dró aðra bifreið með taug og gildir 30 km hámarkshraði við þær aðstæður. Í reglugerð um tengingu og drátt ökutækja segir að sé bifreið dregin með viðurkenndum björgunarbúnaði megi ekki aka hraðar en 50km/klst, en ef dregið er með taug er hámarkshraði 30 km/klst.

Bjuggust við þessari niðurstöðu

Kristinn Björnsson fyrrverandi forstjóri Skeljungs segir að hann og lögmaður hans hafi átt von á þessari niðurstöðu frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Frekari viðbrögð myndu þó bíða þar til niðurstaða Hæstaréttar væri ljós.

Hamas söm við sig

Hamas samtökin hvöttu í dag vesturlönd til þess að samþykkja nýja þjóðstjórn Palestínumanna, en sögðu um leið að þau muni aldrei viðurkenna Ísraelsríki, né hlíta friðarsamningum sem þegar hafi verið gerðir. Einn leiðtoga Hamas sagði að þeir gætu ekki viðurkennt Ísraelsríki vegna þess að það væri ekkert til sem héti Ísraelsríki.

Ýmis leyfi í veitinga- og gistigeira verða rekstrarleyfi

Veitinga- og gistileyfi, áfengisveitingaleyfi og skemmtanaleyfi verða sameinuð í eitt leyfi undir nafninu rekstarleyfi samkvæmt frumvarpi sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi á morgun. Jafnframt er lagt til að yfirstjórn mála sem lúta að veitinga- og gististöðum verði færð frá samgönguráðuneyti til dómsmálaráðuneytis.

Flækjur á World Press Photo

Ljósmynd af hópi Líbana akandi á sportbíl í gegnum sundursprengda Beirútborg vann verðlaun í aðalflokki World Press Photo í dag. Verðlaunin voru veitt í Amsterdam en það var Spencer Platt ljósmyndari Getty Images sem tók myndina. Dómnefnd taldi myndina fulla af flækjum og þversögnum. Hún sýnir fimm manns í sportbíl

Risasamningur um markaðssetningu á diski Silvíu Nætur

Íslenska útgáfufyrirtækið Reykjavik Records hyggst á morgun undirrita stærsta hljómplötusamning sem gerður hefur verið hér á landi um markaðssetnignu á nýjum geisladiski Silvíu Nætur á alþjóðavettvangi.

Verk Kjarvals og Ólafs Elíassonar sýnd í Kaupmannahöfn

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opnaði dag listsýningu í í Gallery Gl. Strand í Kaupmannahöfn þar sem sýnd eru verk eftir tvo íslenska meistara, þá Jóhannes S. Kjarval og hinn heimsþekkta dansk-íslenska listamann Ólaf Elíasson. Sýningin ber nafnið Hraunland.

Útilokar ekkert í rannsókn á dauða Íslendings

Rannsókn á dauða Íslendings sem fórst í bruna á veitingastaðnum Engelen í Gamla stan hverfinu í Stokkhólmi í fyrrinótt stendur enn yfir að sögn lögreglunnar í Stokkhólmi og útilokar hún ekkert í þeim efnum. Eins og greint var frá fyrr í dag fannst maðurinn í ruslageymslu inn af veitingastaðnum.

Barðist í hálftíma við kyrkislöngu um dóttursoninn

Sextíu og sex ára gamall brasiliskur maður barðist í rúma hálfa klukkustund við fimm metra langa kyrkislöngu sem hafði vafið sig utan um átta ára gamlan dótturson hans. Drengurinn var að leika sér í gili, rétt hjá búgarði afans, sem er í Cosorama héraði um 500 kílómetra vestan við Sao Paulo. Joaquim Pereira var að aka heim að búgarðinum, þegar hann heyrði ópin í barnabarninu.

Lögreglan á Akureyri leitar tveggja vélsleða

Lögreglan á Akureyri leitar tveggja vélsleða og tveggja sleða kerru sem var stolið frá Frostagötu á Akureyri á tímabilinu 29. - 31. janúar 2007. Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að sleðarnir séu báðir af Yamaha-gerð, annar þeirra blár að lit en hinn rauður og svartur.

Boða til fundar gegn virkjunum í Þjórsá

Samtökin Sól á Suðurlandi sem berjast gegn áformum Landsvirkjunar um þrjár virkjanir með tilheyrandi lónum í neðri hluta Þjórsár hyggjast halda fund á sunnudaginn kemur í félagsheimilinu Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Skipar nýjan stjórnarformann TR

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað Inga Má Aðalsteinsson viðskiptafræðing, formann stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins. Hann tekur við af Kristni H. Gunnarssyni.

Taka ekki íslensk greiðslukort gild

„Vi godtar alla nordiska betal- och kreditkort (förutom isländska kort)", stendur á heimasíðu Sænsku járnbrautanna sj.se. Með öðrum orðum geta Íslendingar ekki treyst á greiðslukortin sín ætli þeir að kaupa sér lestarmiða í Svíþjóð. Samkvæmt heimildum hafa einhverjir Íslendingar lent í vandræðum vegna þessa.

Tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna

Félag skólasafnskennara hefur tilnefnt Brynhildi Þórarinsdóttur til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2007 af Íslands hálfu. Brynhildur er tilnefnd fyrir bækurnar Njálu, Eglu og Laxdælu. Í þeim segir hún á afar skemmtilegan og aðgengilegan hátt frá þessum þekktu og vinsælu Íslendingasögum.

Fagnar útrás á sviði vistvænnar orku

Aðalfundur Samorku, sem eru samtök orku- og veitufyrirtækja, fagnar útrás íslenskra fyrirtækja á sviði vistvænnar orku og segir að með frumkvöðlastarfsemi muni Íslendingar leggja sitt af mörkum í einu mikilvægasta verkefni samtímans sem sé baráttan við hlýnun lofthjúps jarðar.

Varfærin viðbrögð við samkomulagi í Palestínu

Viðbrögðin við samkomulagi stríðandi fylkinga í Palestínu um myndun þjóðstjórnar hafa víðast hvar verið varfærin. Hamas fær samkvæmt því flest ráðuneyti í stjórninni í sinn hlut en ekkert er þar kveðið á um stöðu Ísraels. Til átaka kom í Jerúsalem í morgun á milli ísraelskra lögreglumanna og Palestínumanna.

Sjá næstu 50 fréttir